Færsluflokkur: Bloggar

"Helvítis liðið er að selja krökkunum dóp!"

Hefði kannski átt að bíða aðeins með söguna af þorpurunum og hringja þess í stað upp í Borgarnes og ræða við þessa fjölskyldu.

Þorpin eru víða.


Jón og Gunna eru ólétt - aumingja Jón

Kannski er það bara ég svona barnlaus og vitlaus en...

Mér finnst alltaf jafn furðulegt þegar einhver segir mér frá því að þetta eða hitt parið sé ólétt. Ekki hún, alls ekki hann. Nei þau bæði. Saman í óléttunni bara. Svolítið krúttlegt en mest kjánalegt.

Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar mér er sagt að Jón og Gunna séu ólétt er: Jón á aldrei eftir að komast í gegnum óléttu. Hann þyldi ekki einn í útvíkkun hvað þá sjálfa fæðinguna.

Svo man ég að það er enn þannig að konur bera stærstan hlut óléttunnar. Allt tal karla um að hormónar kvenna sjái þeim fyrir nægum verkefnum og jafnvel verkjum á óléttunni er bara þeirra leið til að reyna af veikum mætti að stela heiðrinum.

Fleira var það nú ekki.


Vér þorparar

AÐ GEFNU TILEFNI ER RÉTT AÐ TAKA ÞAÐ FRAM AÐ ÞESSI SAGA HÉR AÐ NEÐAN ER HELBER LYGI OG ÞANNIG TILRAUN TIL SKÁLDSKAPAR  

Að alast upp í litlu þorpi úti á landi er svipað og fyrir Reykvíkinga að byrja hvern dag á því standa allsberir og hrópa leyndarmál sín á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrabrautar - í beinni í Íslandi í Bítið.

Ég átti nýlega samtal við konu sem hefur búið í litlu þorpi úti á landi allt sitt líf. Hún sagði mér frá því hvernig þorpararnir hefðu nú orðið til þess að hún ætlaði eins og hinir hundruðirnir á undan að flytja í blokk í Grafarvoginum.

Þessi kona hefur ekki svo vitað sé til drepið mann. Hún hefur heldur aldrei misnotað börn. Samt er hafa heiftugir þorparar ráðist á hana eins og hópur af múkkum sem drepur einn af sínum fyrir að vera öðruvísi á litinn. Fyrir að skera sig úr fjöldanum.

Og þá er ég ekkert að tala um einhvern sem klæðist öðruvísi. Nei, hann gárar nú bara vatnið - hvort sem það var nú meðvitað eða ekki.

Þessi kona hefur í mörg ár reynt að láta þann litla draum sinn rætast að reka lítið gistihús samhliða því sem hún hefur ræktað jurtir og grænmeti. Stuttu áður hafði henni reyndar næstum verið nauðgað af giftum manni í bænum og í kjölfarið verið kölluð "Hóran" til þessa dags á miðborðinu í frystihúsinu.

Hún kærði manninn ekki. Löggan bróðir hans sagðist aldrei munu taka við neinum lygasögum frá henni. Hann sagði hins vegar öllum bænum frá því að hún væri að breiða það út um allan bæ að bróðir hans hefði reynt að nauðga sér. Helvítis kvikindið hún.

Þetta var of mikið fyrir þorparana.

Í þorpi þar sem þeir sem ekki gátu eða nenntu að vinna í fiski unnu í sláturhúsi, var þetta auðvitað ekkert annað en athyglissýki og ömurlegheit af því taginu að meira að segja systkini hennar sneru brátt við henni bakinu og rassinum.

Steininn tók svo úr þegar hún ákvað að endurreisa leikfélagið á staðnum og þar sem að hópsálin er yfirleitt sterkasta aflið litlum samfélögum, þá endaði með því að hún þurfti að leika í leikritinu sjálf, ásamt aðfluttum, sem hvort eð er voru álitnir skrýtnir og höfðu því engu að tapa með því að taka þátt.

En í þessum bæ þar sem ekki er liðin nema áratugur síðan að hópsál bæjarbúa sameinaðist um að þagga niður barnamisnotkun og áralangt heimilisofbeldi innfædds sem endaði með sjálfsmorði konunnar hans, var þetta álitin stríðsyfirlýsing.

Hvað var að þessari kellingu. Ekki nóg með að hún hefði tekið eitt elsta hús bæjarins, gamla spýtna hrúgu frá stríðsárunum, og gert upp þannig að helvítis pakkið úr hundraðogengum var farið að spássera þar um með sitt latte og lite. Heldur hafði hún nú ákveðið að opinbera þvílíka athyglissýki sína og nota til þess félagsheimili bæjarbúa.

Félagsheimilið stóð auðvitað tómt alla daga aðra en þá sem bæjarbúar hittust þar til að fagna 17. júní, upphafi þorra og svo þegar Kaupfélagsstjóranum hentaði að heimila starfsmannafélaginu að kaupa kassa af Kláravíni og halda árshátíð - en það hafði ekki gerst í nokkur ár. Dýrtíðin skiljiði.

Nú ætlaði vinkonan sem sagt að setja upp eitt leikrit og fyrir einhvern ógurlegan misskilning hafði oddvita hreppsnefndar yfirsést að hafna beiðni hennar um útleigu hússins vegna sýninga leikritsins.

Oddvitinn stamaði og boraði tánni í trégólfið í einhverju eldhúsi bæjarins þegar froðufellandi konur og karlar stóðu yfir honum og óskuðu svara við því hvers vegna í ósköpunum "helvítis tussan á Læk" hefði stolið af honum félagsheimilinu þeirra. 

Með rödd sem einungis konur eiga til var oddvitinn krafinn um að taka til baka þessa ákvörðun. Konan hans gekk harðast fram í málinu.

Á næsta fundi hreppsnefndar - stuttu áður en komið var að umræðum um kaup á sláttuorfi til sveitarfélagsins og rétt eftir að samþykkt hafði verið að helmingur útsvars bæjarbúa það árið færi í aukið hlutafé í frystihúsinu - var ákvörðun að leigja Litla leikklúbbnum breytt og samningum rift eins einhliða og fleiri en einn geta.

Litli Leikklúbburinn hét það eftir hallarbyltingu þorpara í nýendurreistu leikfélagi staðarins og í vegna þess þurfti vinkonan og félagar að stofna nýtt. Meirihluti á fjölmennasta aðalfundi þess frá því á síldarárum lagði til að leikfélagið setti ekki upp leikrit. Þetta var gert svo vinkonan gæti ekki truflað bæjarbúa með athyglissýki sinni og rugli.

En af því að á Íslandi er ekkert þorparalýðræði leitaði vinkonan til æðra stjórnsýslustigs, eins og það heitir. Þrátt fyrir að þar reyndu menn að finna allar leiðir til að láta ákvörðun hreppsnefndar standa. Þá stóð samningurinn um félagsheimilið. Það breytti engu þó þingmaður þorpsins reyndi að beita sér og benda á ákvæði í lögum um neyðarriftanir. Helvítis leikritið færi á svið.

En af því þorparar deyja ekki ráðalausir - bara kjarklausir. Þá lögðust þeir nú í grúsk.

Í gamalli samþykkt frá byggingu félagsheimilisins mátti lesa að húsið "skyldi ævinlega standa öllum opið --  meira að segja utanbæjarfólki og flökkulýð á leið til Reykjavíkur."

---------------------- 

Þetta hafði verið gert eftir fimm manna fjölskylda varð úti í nágrenni þorpsins snemma á síðustu öld og hafði engin önnur ráð með gistingu en sjálfa fósturjörðina. Þar fraus svo fjölskyldan saman eina nótt í nóvember og dó. Þau voru utanbæjarfólk á leið fótgangandi til Reykjavíkur um fjallvegi og fjörur.

Samgöngur hafa lengi hamlað því að allir þeir sem vildu Suður kæmust alla leið.

Bæjarbúar skömmuðust sín fyrir dauða fólksins sem hafði verið rekið úr hverju húsinu af öðru.

Flugufrétt fer þannig hraðar yfir bæinn en fimm manna fjölskylda með pinkla.

Þannig hafði íbúi yst í bænum talið þarna á ferð ekki einungis aðkomumann heldur líka eftir því sem honum sýndist lúsugt lið með holdsveiki úr þarnæstu sveit. Fréttin hafði sem sagt farið um allan bæinn á undan fjölskyldunni og þegar þau komu að innsta húsi bæjarins voru þau hrakinn af tröppunum af prestsfrúnni sem hafði bundið tóbaksklút um vit sín og vopnast gamalli haglabyssu til að hrekja óværuna frá húsi drottins.

Lengi vel var eftir þetta alltaf opinn beitningaskúr í bænum fyrir flökkulýð. Svo var skúrinn rifinn og félagsheimilið byggt. Það skyldi koma í veg fyrir að eyða þyrfti meira landrými í kirkjugarði þorpsins undir aðkomufólk. Það gæti þá bara lagt sig í félagsheimilinu og svo haldið áfram suður.

Fjölskyldan fimmmanna var hins jörðuð í gröf sem kvenfélagið gaf á legstein. Þar stendur enn:"Hjónin XXXXXX og XXXXX Börn þeirra XXXXX, XXXXX og XXXXX. Þau gista í húsi Drottins."

--------------- 

Auðvitað hafði félagsheimilinu löngu verið skellt í þrefaldan ASSA-lás þegar þarna var komið við sögu. Til þess höfðu séð þýskir túristar sem lesið höfðu um að ókeypis væri að gista í húsinu og notað það óspart.

Hins vegar þýddi þetta að hreppsnefnd kom til fundar einu sinni enn og nú var aðeins eitt mál á dagskrá. Beiðni frá þorpurum um "að hafa fullan aðgang að húsinu, hér eftir sem hingað til, jafnvel þó húsið sæti þess nú að Reykjavíkurvaldið yfirtaki það í nafni einhverra stjórnsýslulaga." Svo var vitnað í dautt fólk.

"Eins og oddvita og hreppsnefnd raunar allri ætti að vera kunnugt um var það skýr vilji kvenfélagskvenna og ungmennafélagsmanna sem byggðu húsið að það ætti að standa öllum opið alltaf. Og viljum við þannig minna formann hreppsnefndar á að móðir hans heitin, formaður kvenfélagsins, er sögð hafa sótt það fastast að þessi regla yrði við lýði. Minnug nóvember-óhappsins 1904 þegar fjölskylda á leið suðurum til Reykjavíkur varð úti vegna misskilnings um hver skyldi hýsa þau. Varla vill hreppsnefnd bera ábyrgð á því að slíkt endurtaki sig."

Þetta var of mikið fyrir oddvitann. Hann sá fyrir sér móður sína upphlutnum og lítið tár vætti þurrt yfirbragð hans. 

Krafan var samþykkt.

Leikæfingar hófust bráðum fyrir fullu húsi. Þorparar flykktust í félagsheimilið til að nýta sér allt að því stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að vera í húsinu þegar þá lysti.

Yfirleitt sátu menn bara hljóðir meðan samkynhneigði leikstjórinn að sunnan stýrði leikhópnum í gegnum eitt af verkum Dario Fo. Fljótlega fór ein og ein hláturroka svo að heyrast úr hópi þorpara eftir því sem æfingum miðaði betur.

Það var hlaupinn flótti í liðið.

Þeir sem hlógu fengu að heyra það í vinnunni daginn eftir. Þannig var lyftaramaðurinn í móttökunni vændur um það í níu-pásunni að "glápa á rassgatið á hommanum eins og hommi" vegna þess að hann hafði hlegið af leikritinu. Lyftaramaðurinn, sem einungis var einhleypur vegna þess að foreldrar hans höfðu aldrei fílað þessar utanbæjarkvensur sem hann kynnti þeim fyrir, át sinn Sæmund í sparifötunum og með drakkann sinn gula Braga, í lyftaranum það sem eftir lifði dags.

Stuttu áður en leið að frumsýningu fengu svo þorparnir nóg. Eitt kvöldið þegar leikarar mættu til æfinga ásamt tuttugu manni hópi þorpara, blasti við ófögur sjón: Gólf Félagsheimilisins var áeins og fenjasvæði og einstaka fjalir á floti eins og skip á miðju dansgólfinu. Þarna yrði ekki aftur stráð kartöflumjöli og dansaður skottís. Hell nó.

Skemmdirnar á félagsheimilinu voru metnar á aðra milljón. Það kom fram í fundargerð hreppsnefndar. Þeirri sömu og samningum við Litla Leikklúbbinn var rift á forsendum samningsrofs.

Engu breytti þó asahláka hefði orðið til þess að flæddi inn í húsið. Leikklúbburinn bar ábyrgðina.

Vinkonan pakkaði niður og gafst upp eftir að hafa staðið í góðan klukkutíma við kassann í Kaupfélaginu án þess að fá afgreiðslu þó engin væri biðröðin.

Síðast frétti ég af henni þar sem hún var að búast til að sofna í bíl sínum - einhvers staðar á leiðinni til Reykjavíkur. 


Ekki til sundurliðað í Valhöll?

Pétur Gunnarsson huxuður bloggaði fyrir nokkru um þá ákvörðun hins frjálslynda hægri manns, Andra Óttarssonar framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, að segja félagatal í flokknum leyndó.

Auðvitað ráða sjallar því hvað þeir gera. Hins vegar sá ég skemmtilega frásögn í bók hins álftneska Guðna Th. - Óvinir Ríkisins:

"Í mars 1949 lagði Jóhannes Hafstein, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, (þannig) fyrir valda félaga um land allt að þeir "afli allra hugsanlegra upplýsinga um pólitíska afstöðu kjósenda í hverju umdæmi og merki inn á skrárnar áætlaða flokksafstöðu hvers kjósenda."

  Hefur Andri bara nokkuð nennt að sundurliða skrárnar í Valhöll?


Megum við vera memm?

Sá Matthías Imsland bera sig illa í Mogganum í gær:

"FYRIRÆTLANIR flugfélagsins Iceland Express um að hefja innanlandsflug í samkeppni við Flugfélag Íslands eru í nokkru uppnámi í ljósi þess að félagið fær ekki inni á Reykjavíkurflugvelli vegna aðstöðuleysis. Flugfélag Íslands er einkaeigandi aðstöðunnar þar og tjáir Iceland Express að vegna aðstöðuleysis sé ekki hægt að hleypa því inn í flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli."

Merkilegt að Flugfélag Íslands hafi þurft að segja Express-mönnum - sem segjast hafa kannað markaðsaðstæður í innanlandsflugi - að lítið pláss sé á vellinum.

Sjálfu hjarta íslensks innanlandsflugs.

Við sem höfum þurft að notfæra okkur þessar starfandi "stríðsminjar" þarna í Vatnsmýrinni vitum alveg af plássleysinu.

Trúið mér samt. Plássleysið er ekki það versta við að fara um Reykjavíkuflugvöll. Það er miklu frekar sú staðreynd hversu létt veskið manns er eftir ferð þar í gegn sem böggar mann. Það sligast engin undan pyngju sinni á leið upp í vélar þar.

Ég myndi ferðast í búri með svínum og hænsnum ef slíkt flug væri í boði. Og kostaði ekki hönd og fót.

Það er bara ekki pláss fyrir Matthías og félaga í Iceland Express. Jafnvel þó - og gefum nú Matthíasi orðið: "Samstarf okkar við Flugfélag Íslands hefur verið með ágætum," segir hann en ýjar að því að e.t.v. hafi flugfélaginu þótt keppinauturinn fullfrekur til fjörsins," eins og það er orðað í Morgunblaðinu í gær.

Við bíðum þannig ár í viðbót. Þar til tekst að ná samningum við Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði um kaup á viðbyggingu í Skerjafjörðinn.

 Við höfum þó alla vega "kaffi, te og vatn" um borð áfram - jú og "Svala fyrir börnin."

Minnir mig á samtal á tröppunum hjá Andra þegar við vorum 11.

2 strákar: "Megum við vera memm?"

Andri: "Nei, mamma segir ég megi bara leika við einn í einu........lítið pláss."


Ég er Karl Ágúst

Horfði á Spaugstofuna í gær.

Ég er Karl Ágúst með hár eins og Jónas umboðsmaður hestsins.

Ekki eins massaður og Örn Árna og ekki eins stór og Pálmi. Yngri en Randver.

Ég er Karl Ágúst.

Heppinn!


Sögulegur áhugi á belg - af fransmönnum og forvitni

Fór á þorrablót á Prikinu á fimmtudagskvöldið. Át súrmat með höndunum og hákarl með öllu andlitinu. Svo kom ung kona með harmonikku og spilaði "the best of ræ, ræ."

Viðstaddir voru ungir og því ekki annað hægt en að taka bara "ræ, ræ" útgáfur Kötukvæðis og allra þessara gömlu sem amma syngur með. "ræ, ræ" rokkar.

Hef alltaf verið heillaður af harmonikkum. Afi minn heitinn átti eina og spilaði mikið á hana. Ég man að ég þegar ég var fimm ára og gerði fyrst tilraun til að festa á mig "nikkuna" án þess að takast það, þá sló ég því föstu að yrði fullorðinn einn daginn við það eitt að valda nikkunni.

Það var þó alltaf eitt annað sem vakti aðdáun mína á þessu hljóðfæri: Það var hvað leyndist inni í belgnum milli nótnaborðanna. Ég man óljóst eftir mér sjö ára með selahnífinn hans afa - risa kuta sem Stefán Eiríksson, nýlögga, myndi taka af hvaða manni sem er - standandi yfir nikkunni eins og Kobbi Kviðrista.

Ég hafði sem sagt ætlað mér að skera kvikindið upp.

Ég guggnaði eftir að hafa næstum misst hnífinn af stállista sem hélt um belginn í minn eigin belg.

Heppinn.

En eftir þetta gerði ég ekki fleiri tilraunir til að kanna belg harmonikkna. Skildi raunar ekki hvers vegna ég gat ekki tekið orð afa fyrir því hvað belgurinn innihélt. Hann hafði sagt mér það oft.

Skil núna að áhugi minn er menningarlegur og genatískur.

Þetta byggi ég á sögu sem mér var sögð í vikunni. Einhvern veginn svona:

Þegar franskir skútukallar fóru að venja komur sínar til Íslands fyrr öldum gerðu þeir Fáskrúðsfjörð,hvaðan ég er jú ættaður, að heimahöfn sinni. 

Segir sagan að fyrstu samskipti fáskfirskra og franskra hafi falist í því að hópur heimamanna njósnaði um hóp sigldra sem eytt hafði fallegu sumarkvöldi í að drekka koníak og dansa við harmonikkuundirleik. "Ræ, ræ" á frönsku sungið með.

Þó vissulega hafi áhugi heimamanna seinna beinst meira að koníakinu, þá var það nikkan sem olli því að stór hópur manna var ekki vinnufær vegna pælinga. Og sláttur í fullum gangi. 

Hvaða galdratæki var þetta sem þessir dökku menn dönsuðu við? Og hvað leyndist í belgnum milli handfanganna sem gaf frá sér þessi skrítnu hljóð?

Nikkan var leynivopn Frakkanna í baráttunni um dætur Fáskrúðsfjarðar. Frakkarnir kunnu að dansa og nikkan hjálpaði til. Nikkan var vopn í höndum þeirra sem á henni héldu.

Hópur mann ákvað að komast að því hvað þetta var.

Þarna voru stundaðar einu fyrstu þekktu iðnnjósnirnar á Fáskrúðsfirði. Í skjóli áfengisdauða og duggaraþreytu Frakkanna læddist hópurinn á sauðskinnsskónum og brugðu belgvettling um harmonikkuna.

Svo var hlaupið.

Það hlýtur að hafa verið mögnuð stemning þegar frumherjarnir stóðu yfir þýfinu og afræddu hvað gert skyldi.

Þennan dag varð ekki til Harmonikkufélag Fáskrúðsfjarðar.

Einn þeirra forvitnustu manna - og líkast til sá hugaðasti - brá heldur á loft hnífi þungum og risti upp harmonikkuna. Sé fyrir mér atriði eins og í myndinni leitin að eldinum þegar þeir stóðu þarna, forfeður mínir, og biðu þess sem verða vildi. Þetta var eins og þeirra eigin tunglganga. Kannski hafa þeir nuddað saman lófunum, tvístígið svolítið og hnussað - jafnvel snýtt sér.

Og viti menn?

í harmonikkunni var ekkert.

Ekkert lítið dýr sem framkallaði hljóðin, enginn lítill fransmaður sem gaf frá sér hljóð þegar hann var þaninn eða kraminn. Ekkert.

Hvað um leifarnar af þessari nikku varð, veit ég ekki. Kannski finnst hún einhvern daginn við uppgröft á Kappeyri, já eða í túninu á Geststöðum? Hvað veit ég? Hún skyldi þó ekki liggja milli leiða við kirkjuna á Kolfreyjustað? Presturinn hlýtur að hafa verið viðstaddur, tilbúinn að slá eign kirkjunnar á hvað það sem í nikkunni var.

Eitt veit ég þó. Þetta hefur verið í fyrsta og eina skiptið sem frændur mínir tóku nikkuna framyfir koníak Frakkanna. Nema hvað!


Framlengt og spennandi - að sögn lögreglu

"Að sögn lögreglu var leikurinn æsispennandi og þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit. Þarna voru húsráðendur að hvetja strákana okkur til dáða en því miður dugði það ekki til, að sögn lögreglu." 

Er það partur af hlutsleysisstefnu blaðamanna mbl.is að segja ekki frá neinu nema hafa skrúfað frá þartilgerðum krana fyrst?

Treysti blaðamaðurinn sér ekki til að hafa það eftir sjálfum sér að leikur Íslendinga og Dana hafi verið spennandi, og að öskur í fjölbýlishúsi í Kópavogi hafi ekki dugað til sigurs? Er hann kannski danskur?

Andskotann veit ég um það?

"Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins."

Þetta kemur nú þegar maður vistar færslu á Moggablogginu. Og ég sem hélt að ég væri loksins kominn í skjól hjá Styrmi.

Hver er skoðun Morgunblaðsins? Eða afstaða þess? Heldur Morgunblaðið með KR? Fílar Mogginn Duran eða Wham? Kók eða Pepsi?

Andskotans vitleysa.


mbl.is Lögregla kölluð út vegna handboltaáhugamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bambi sokkalaus í skónum

Fór á árshátíð 365 í gær. Mætti seint og leigubílsstjórinn spurði mig á leiðinni hvort ég væri að villast; hvort ég væri ekki hættur hjá Stöð 2. Ég útskýrði fyrir honum að mín elskulega sambýliskona og kennari minn í handklæðabrotum væri starfsmaður Stöðvarinnar og því mætti ég - klukkutíma of seint.

Leigarinn var fyrsti maðurinn af hundrað sem spurði mig hvort ég væri ekki að villast í gærkvöldi.

Ég ákvað að fara eftir að hafa opnað umslag merkt Stöð 2. Í umslaginu var bréf sem stóð á stórum stöfum: "Við söknum þín."

Sætt en ekki svo. Bara verið að bjóða mér M-12 áskrift - aftur.

Árshátíðin var í Gullhömrum, sem ég held að sé í húsi við hliðina á Kaupfélaginu í Borgarnesi - svo langt er þangað.

Maturinn var góður, sem er ekki sjálfsagt á svona 1000 manna borðhaldi. Dádýramedalíurnar réttlættu í eitt skipti fyrir öll plottið sögunni af Bamba; þegar mamma hans var skotinn. Þær voru eðall.

Kynnarnir eyddu talsverðum tíma í að gera grín af meintum ófríðleik útvarpsmanna. Þekktur brandari af mönnunum sem hafa andlit fyrir útvarp, var settur í nýjan búning.

Frosti X-maður afsannar þessa kenningu algjörlega, raunar ásamt Einari Þorsteins og Ingimari Karli á RÚV.

Einar er þessi dimmraddaði í síðdegisútvarpinu.

Hefði verið fyndnari ef Logi Bergmann hefði sagt hann. Kynnarnir Sveppi og Idol-Jói voru ekki ráðnir í sjónvarp vegna frussandi kynþokka, það eigum við sameiginlegt.

Hápunkturinn var þó þegar free-styledanshópur kom og dansaði, rétt áður en ung stelpa, sem ég held að sé í Stundinni Okkar, kom og söng afmælissönginn eins og Marilyn Monroe fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson, en hann á afmæli í dag.  

Eftir matinn var opnað þema-herbergi í anddyri Gullhamra. Herbergið var allt í zebra litum og pálmatré skreyttu gluggana, ekki alvöru samt. Fiskabúr bólstrað með zebra-áklæði var í einu horninu og þurrís flæddi um öll gólf. Tvær stelpur með furðulega andlitsmálningu stóðu svo með kokkteila á bökkum og buðu fólki.  

Fór margar ferðir þarna inn með mörgu fólki og það var ekki fyrr en einn félagi minn benti mér á að líklegast væri þetta svona Miami-Vice herbergi að ég fattaði þemað.

Verst að allir karlmennirnir voru í sokkum í skónum.

Hvað gerir Páll útvarpz til að toppa Miami Vice-herbergið. Verður jafnvel Desperate Housewifes-þema? Læt vita eftir RÚV árshátíðina.

 


Heitasta helvítis, helvíti!

Sé að á Moggablogginu að menn eru misfúlir yfir blóti í þingsölum. Einn minn uppáhaldz, Guðmundur sagnfræðingur, leggur til kælingu. Hún gæti alveg átt rétt á sér, en blótið eitt og sér er ekki nóg til að senda menn í hvíld.

En hvers vegna má ekki blóta? Eru orð eins og helvítis, djöfulsins, andskotans og önnur svipuð eitthvað verri en önnur, séu þau notuð til áhersluauka?

Er "virðing alþingis" fólgin í því að þar talir allir undir rós? Felst hún ekki frekar í því að menn láti kné fylgja kviði, lofi ekki heldur geri? Standi við öll stóru orðin og séu sjálfum sér samkvæmir?

Var einu sinni víttur á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð fyrir að nota orðasafn Satans neðanbúa. Ekki fyrir það sem ég sagði, nei heldur fyrir það hvernig ég sagði það. Ég hafði áður brigslað þáverandi meirihluta um verri hluti en að kalla verk þeirra ítrekað "helvítis hálfkák." En fyrir þau var ég víttur af Þorbergi mínum forseta.

Sama má segja um umræður um bindisnotkun karla í þingsölum. Er virðingin fólgin í hálstauinu einu saman eða því sem tauið er hnýtt um?

Mér finnst ekkert lýsa þessu betur en þegar reiðir þingmenn ávarpa einhvern "hæstvirtan" stuttu áður en þeir saka þá um spillingu eða þaðan af verra?

Orðið hæstvirtur er þá ekkert annað en fals.

Kurteisi kemur þessu ekkert við. En virðing fólks fyrir þinginu er ekki bundin í hæstvirt hálstau, það held ég að sé alveg ljóst.

Helvítis, helvíti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband