Berfætt Her-dís heim - Írakar gráta

Íslendingar hafa kallað herlið sitt heim frá Írak. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í dag og Þórir Guðmundsson fréttamaður notaði sparistand-upið sitt á Rauðarárstígnum til að útskýra að einhver hershöfðingi NATO hefði lagt lykkju á blóðidrifna leið sína og næstumalveg gagnrýnt þetta brotthvarf herliðs okkar úr sameiginlegri fylkingu í Írak.

Það bókstaflega hristust á honum orðurnar af reiði - næstum alveg.

Ábúðarfull sagðist Utanríkisráðherra ekki vilja taka þátt í hernaði í Írak lengur. Uppfyllti þannig að eigin mati loforð sitt um að taka Ísland af telefaxi amerískra stjórnvalda um mætingu í Írak-stríðið.

Fyrrverandi utanríkisráðherra harmar þessa sorglegu ákvörðun sem þýddi það að við værum að bregðast Írösku þjóðinni og uppfyllti þannig að eigin mati skyldur sínar sem stjórnarandstöðuþingmanns og var á móti því að fallið yrðir frá hennar fyrri stefnu. Forsætisráðherrann segir svo að hann hefði ekki gert þetta, hefði hann verið utanríkisráðherra, og uppfyllir þannig að eigin mati skyldur sínar sem staðfastur formaður Sjálfstæðisflokksins.

En Major Sigurgrímsdóttir er sem sagt á leiðinni heim.

Glaðbeitta náttúrubarnið frá Stokkseyri mun ekki lengur þurfa að híma í skjóli sjálfvirkra eldflauga  innan Græna-svæðisins í Baghdad. Hún kemur heim og getur haldið áfram að sinna fjallaferðum. Prófastsdóttirinn mun pakka saman og fljúga heima í diplómataflugi.

Alein.

Herdís Sigurgrímsdóttir hóf að vinna á NFS um það leyti sem við héldum að stöðin væri að festa sig í sessi, en líkast til þá var Jón Ásgeir að finna rásina á myndlyklinum sínum og um leið að átta sig á fyrir hvað þessi einkennilega skammstöfun í neikvæða ársfjórðungsuppgjörinu stóð eiginlega fyrir og ákveðið var að leggja stöðina niður.

Herdís skrifaði fréttir og las stundum kvöldfréttir þannig að Edda Andrésar mátti vara sig. Ólíkt Eddu sem jafnan er óaðfinnanlega skóuð gekk Herdís hins vegar um berfætt á sérkennilega steingólfinu í Skaftahlíð.

Það var eitthvað spes við þessa stelpu sem um helgar lagðist í fjallgöngur og björgunaræfingar.

Svo brosti hún bara sínu breiðasta - alltaf.

Herdís var líka víkingur til verka og seinna skrifaði hún stórgóðar erlendar fréttir og fréttaskýringar á fáséðu mannamáli í DV. Henni leiddist þó eitthvað þófið í borginni og líkast til hefur hana langað að sjá með eigin augum það sem hún skrifaði um daglega - oftar en ekki Írak-stríðið.

Hún tók því að sér stöðu upplýsingafulltrúa hjá Utanríkisráðuneytinu, n.t.t. friðargæslunni. Fór svo til Írak eftir að hafa lært undirstöðuatriðin í skammbyssutækni. Þar hefur hún verið með hléum í marga mánuði að kenna Könum að tala í sjónvarpsmyndavélar. Hún kom svo heim í liðinni viku í stutt frí.

Fékk lánað hjólið mitt en skyldi það svo eftir á stöðumæli hérna fyrir utan. Læst við stöðumælinn eins og hún hefði skyndliega verið kölluð út. GI-Joe þurfti að fara í viðtal við Franska sjónvarpsstöð og sneri öfugt og stamaði. Herdís þurfti að mæta.

Aldrei datt mér hins vegar í hug að hún Herdís væri her. Hjólið mitt er þá kannski hergagn?

Hún virðist samt hafa verið her. Og það engin smá her. Dugar ekki minna en yfirlýsingar þriggja ráðamanna, blaðamannafundur hvar dagfarsprúður herforingi byrstir sig - næstum alveg - og þjóðarsorg í Írak þegar hún er beðin að koma heim.

Skil Írakanna einna best enda missirinn þeirra.

Segiði svo að íslensk pólitík sé jafn lítil í sér og þjóðarsálin eftir karlalandsleik í fótbolta. Að stjórnmálamenn beri enga sök á því að tiltrú almennings innvolsinu við Austurvöll sé lítil.

Segiði það.

herdís2

Hér er svo hersveit Íslands í Írak, þar er að segja þessi lengst til vinstri á myndinni í bláum jakka í fjallgöngu með Alpaklúbbnum - óvopnuð.

Herdís mín við hlökkum til að fá þig heim. Geir, Ingibjörg og Valgerður líka, þau þurfa bara aðeins að melta þetta.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Snilldarpistill hjá þér Helgi. Þú hefðir nú aldrei þorað að tjá þig svona um Jón Ásgeir þegar þú varst á NFS

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.9.2007 kl. 01:27

2 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Góður!

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 6.9.2007 kl. 07:46

3 identicon

Er Herdís nokkuð dáin? Nei, bara, mér finnst það einhvern veginn stemmningin í pistlinum.

GK (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 10:14

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Einu íslensku hermennirnir, sem ég hef kynnst hafa bækistöð sína í Herkastalanum við Kirkjustræti 2. Sá her kennir sig við hjálpræði. Ágætis fólk. Þangað fór maður fyrir tíma sjónvarpsins og horfði á teiknimyndir, Tomma og Jenna en hlustaði fyrst á Guðsorð.
Nú eru breyttir tímar. E.t.v. hefur íslenski hermaðurinn bara verið að markaðssetja skyr (eða lambakjöt) í Írak? 

Júlíus Valsson, 6.9.2007 kl. 15:14

5 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Hvernig er það, þegar hún er komin heim...

Erum við þá koimin með Íslenskan her?

Skildi þá vera búið að segja henni hvað sé ætlast til af henni...

Júlíus Sigurþórsson, 6.9.2007 kl. 17:08

6 identicon

ef ég væri ekki ég, þá myndi ég líka halda að ég væri dáin!

en þakka afar hlý orð í minn garð og takk fyrir lánið á hjólinu þínu, það er verðugur fararskjóti fyrir íslenska her-dísi. hvort það er hins vegar hergagn getur enginn sagt annar en næstum-því-reiði hershöfðinginn, sem nú er líklega haldinn af landi brott. 

hlakka til að koma heim, get ég gengið að hjólinu við stöðumælinn þar sem ég skyldi við það fyrir nokkrum dögum?

herdís (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 19:22

7 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Hún Herdís er hörku nagli. Henni kynnist ég fyrir nokkrum árum þegar hún hóf að leiðsuga franska ferðamenn um hálendi og jökla Íslands fyrir Íslenska Fjallaleiðsögumenn. Rétt eins og það digni ekki til var hún farin að gæta í Grænlandi líka. Hún er vinnuþjarkur fram í fingurgóma, hörku nagli eins og áður sagði, rétt eins og allir þessir duglegu leiðsögumenn sem starfa fyrir þetta fyrirtæki. Samhliða þessu öllu vann hún með þessu á fréttastofu NFS. Jón Ásgeir skeit heldur betur í buxurnar þegar hann missti af henni. Heppni fyrir Utanríkisráðaneytið. Nú ætlar Ingibjörg líka að klúðra burt þessari valkyrju. Heppni fyrir Íslenska Fjallaleiðsögumenn og okkur sem áður unnum með henni.

 

Ég bíð hana velkomna heim.

Hlynur Jón Michelsen, 6.9.2007 kl. 23:43

8 identicon

Sæll Helgi

Fyrir kosningarnar 2003 var sjónvarpsumræðuþáttur með frambjóðendum úr Suðurkjördæmi. Þar var rætt um Íraksstríðið og börðu fulltrúar stjornarandstöðunnar mjög á stjórnarflokkunum. Loks kom að Kolbeini Proppé, fulltrúa VG. Hann minnti á að í kjördæminu væri jú hluti af þessum sama bandaríska her. Urðu þá Margrét Frímannsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson nokkuð flóttaleg - og Magnús Þór sagði eitthvað á þá leið að Kolbeini gæti ekki verið alvara að segja að þetta væri sami herinn - við þekkjum þessa menn þarna suður frá, þeir eru engin villidýr.

Eins brosleg og ræða Magnúsar Þórs var, þá er líka eitthvað svo skiljanlegt - svo mannlegt við þetta viðhorf. Við erum á móti herjum sem drepa fólk í fjarlægum löndum, en þegar við hittum hermann á pöbb í Keflavík sem rabbar við okkur um íþróttir og popptónlist neitum við að skilja að hann geti verið hluti af hernaðarmaskínu.

Hvað ætli það væri hægt að skrifa þennan pistil þinn um marga þeirra sem nú þjóna í Írak? Ætli meirihlutinn sé ekki einmitt reffilegir krakkar sem hlaupa berfættir í vinnunni, lána vinnufélögum reiðhjólið sitt og hlaupa upp á fjöll um helgar? Meginþorri herliðsins í Írak mun aldrei lenda í því að beina byssu að Íraka, hvað þá hleypa af. Margir fara aldrei út fyrir herbúðirnar og sinna störfum sem eru ótrúlega hversdagsleg og borgaraleg.

Auðvitað er þetta fólk hermenn og það er hluti af flóknu vélvirki sem er hernámsliðið í Írak. Það er einmitt þetta sem mér hefur alltaf þótt svo óhugnanlegt við fyrirbærið her - að hann er ópersónulegt skrímsli sem getur gert hræðilega hluti, en ef einstaklingarnir sem mynda hann eru kannaðir reynast þeir upp til hópa geðugt indælisfólk.

Stefán (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 23:15

9 identicon

sælir

Þarf aðeins að tjá mig varðandi Háskólann og Jón Sigurðsson en geri það hér þar sem tíminn til að kommenta þar sem það á við er liðinn!

Það fó nú eitthvað lítið fyrir því í fjölmiðlum og þá sérstaklega Ríkissjónvarpi og útvarpi að fjallað var um þetta, Svæðisútvarpið (réttnefni útvarp Egilsstaðir) fjallaði aðeins um þetta en ekkert meir. Miðað við hvað háskóli er mikið tískuorð í dag þá hefði ég viljað sjá eitthvað um þetta í Sjónvarpsfréttunum. Þar sem ég er nú fjarðamaður og Reyðfirðingur þá kems ég að þeirri niðurstöðu að það henti bara ekki  Héraðsmönnum að fjallað sé um þetta og þá láta þeir þar við sitja. (Enda trúanlegt ef satt reynist að þeir séu farnir að kenna veðurfréttastofunum um að túrisminn hafi verið dræmur í sumar )

kv . ingi lár Reyðarfirði

Ingi Lár Vilbergsson (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 00:00

10 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Þetta er nú bara aumingjalegur hrepparígur í þér Ingi uss uss

Einar Bragi Bragason., 10.9.2007 kl. 00:05

11 Smámynd: Heiða  Þórðar

Íslenskan her? Eru allir orðnir snarvitlausir? Og útigrillinn kannski fljúgandi á himnum.....

Heiða Þórðar, 14.9.2007 kl. 13:50

12 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Hvað er þetta með útigrillinn og þig?

Hlynur Jón Michelsen, 14.9.2007 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband