Sögulegur áhugi á belg - af fransmönnum og forvitni

Fór á þorrablót á Prikinu á fimmtudagskvöldið. Át súrmat með höndunum og hákarl með öllu andlitinu. Svo kom ung kona með harmonikku og spilaði "the best of ræ, ræ."

Viðstaddir voru ungir og því ekki annað hægt en að taka bara "ræ, ræ" útgáfur Kötukvæðis og allra þessara gömlu sem amma syngur með. "ræ, ræ" rokkar.

Hef alltaf verið heillaður af harmonikkum. Afi minn heitinn átti eina og spilaði mikið á hana. Ég man að ég þegar ég var fimm ára og gerði fyrst tilraun til að festa á mig "nikkuna" án þess að takast það, þá sló ég því föstu að yrði fullorðinn einn daginn við það eitt að valda nikkunni.

Það var þó alltaf eitt annað sem vakti aðdáun mína á þessu hljóðfæri: Það var hvað leyndist inni í belgnum milli nótnaborðanna. Ég man óljóst eftir mér sjö ára með selahnífinn hans afa - risa kuta sem Stefán Eiríksson, nýlögga, myndi taka af hvaða manni sem er - standandi yfir nikkunni eins og Kobbi Kviðrista.

Ég hafði sem sagt ætlað mér að skera kvikindið upp.

Ég guggnaði eftir að hafa næstum misst hnífinn af stállista sem hélt um belginn í minn eigin belg.

Heppinn.

En eftir þetta gerði ég ekki fleiri tilraunir til að kanna belg harmonikkna. Skildi raunar ekki hvers vegna ég gat ekki tekið orð afa fyrir því hvað belgurinn innihélt. Hann hafði sagt mér það oft.

Skil núna að áhugi minn er menningarlegur og genatískur.

Þetta byggi ég á sögu sem mér var sögð í vikunni. Einhvern veginn svona:

Þegar franskir skútukallar fóru að venja komur sínar til Íslands fyrr öldum gerðu þeir Fáskrúðsfjörð,hvaðan ég er jú ættaður, að heimahöfn sinni. 

Segir sagan að fyrstu samskipti fáskfirskra og franskra hafi falist í því að hópur heimamanna njósnaði um hóp sigldra sem eytt hafði fallegu sumarkvöldi í að drekka koníak og dansa við harmonikkuundirleik. "Ræ, ræ" á frönsku sungið með.

Þó vissulega hafi áhugi heimamanna seinna beinst meira að koníakinu, þá var það nikkan sem olli því að stór hópur manna var ekki vinnufær vegna pælinga. Og sláttur í fullum gangi. 

Hvaða galdratæki var þetta sem þessir dökku menn dönsuðu við? Og hvað leyndist í belgnum milli handfanganna sem gaf frá sér þessi skrítnu hljóð?

Nikkan var leynivopn Frakkanna í baráttunni um dætur Fáskrúðsfjarðar. Frakkarnir kunnu að dansa og nikkan hjálpaði til. Nikkan var vopn í höndum þeirra sem á henni héldu.

Hópur mann ákvað að komast að því hvað þetta var.

Þarna voru stundaðar einu fyrstu þekktu iðnnjósnirnar á Fáskrúðsfirði. Í skjóli áfengisdauða og duggaraþreytu Frakkanna læddist hópurinn á sauðskinnsskónum og brugðu belgvettling um harmonikkuna.

Svo var hlaupið.

Það hlýtur að hafa verið mögnuð stemning þegar frumherjarnir stóðu yfir þýfinu og afræddu hvað gert skyldi.

Þennan dag varð ekki til Harmonikkufélag Fáskrúðsfjarðar.

Einn þeirra forvitnustu manna - og líkast til sá hugaðasti - brá heldur á loft hnífi þungum og risti upp harmonikkuna. Sé fyrir mér atriði eins og í myndinni leitin að eldinum þegar þeir stóðu þarna, forfeður mínir, og biðu þess sem verða vildi. Þetta var eins og þeirra eigin tunglganga. Kannski hafa þeir nuddað saman lófunum, tvístígið svolítið og hnussað - jafnvel snýtt sér.

Og viti menn?

í harmonikkunni var ekkert.

Ekkert lítið dýr sem framkallaði hljóðin, enginn lítill fransmaður sem gaf frá sér hljóð þegar hann var þaninn eða kraminn. Ekkert.

Hvað um leifarnar af þessari nikku varð, veit ég ekki. Kannski finnst hún einhvern daginn við uppgröft á Kappeyri, já eða í túninu á Geststöðum? Hvað veit ég? Hún skyldi þó ekki liggja milli leiða við kirkjuna á Kolfreyjustað? Presturinn hlýtur að hafa verið viðstaddur, tilbúinn að slá eign kirkjunnar á hvað það sem í nikkunni var.

Eitt veit ég þó. Þetta hefur verið í fyrsta og eina skiptið sem frændur mínir tóku nikkuna framyfir koníak Frakkanna. Nema hvað!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir skemmtilega sögu. Ég tengi ágætlega við hana því afi minn spilaði á nikku og munnhörpu og mér fannst hann göldróttur. Alla tíð síðan hefur búið í mér þrá að geta spilað á hljóðfæri en einhvernveginn fórst það hjá að læra það. Inni í mér býr enn bældur söngur, sem vill út. Kannski finnur hann frelsið við síðasta andvarpið.

Ræ ræið er lenska, sem til er kominn af því að þegar hellt er í sig ódáinsmiði blotna vísuorðin upp og renna saman í muskugrautinn ræ og allar tungur heimsins verða að einni sammannlegu og alskiljanlegu ræ ræi.

Tommi Tomm bassaleikari brá þessu einu sinni fyrir sig í minni návist en þá var kannski ekki orðið nógu blautt í.  Allir gátu þó tekið undir, þegar hann söng: Til eru ræ, sem fengu þennan ræ; Að falla í ræ en verða aldrei ræ.... 

Jón Steinar Ragnarsson, 4.2.2007 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband