Færsluflokkur: Bloggar
Íslendingar hafa kallað herlið sitt heim frá Írak. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í dag og Þórir Guðmundsson fréttamaður notaði sparistand-upið sitt á Rauðarárstígnum til að útskýra að einhver hershöfðingi NATO hefði lagt lykkju á blóðidrifna leið sína og næstumalveg gagnrýnt þetta brotthvarf herliðs okkar úr sameiginlegri fylkingu í Írak.
Það bókstaflega hristust á honum orðurnar af reiði - næstum alveg.
Ábúðarfull sagðist Utanríkisráðherra ekki vilja taka þátt í hernaði í Írak lengur. Uppfyllti þannig að eigin mati loforð sitt um að taka Ísland af telefaxi amerískra stjórnvalda um mætingu í Írak-stríðið.
Fyrrverandi utanríkisráðherra harmar þessa sorglegu ákvörðun sem þýddi það að við værum að bregðast Írösku þjóðinni og uppfyllti þannig að eigin mati skyldur sínar sem stjórnarandstöðuþingmanns og var á móti því að fallið yrðir frá hennar fyrri stefnu. Forsætisráðherrann segir svo að hann hefði ekki gert þetta, hefði hann verið utanríkisráðherra, og uppfyllir þannig að eigin mati skyldur sínar sem staðfastur formaður Sjálfstæðisflokksins.
En Major Sigurgrímsdóttir er sem sagt á leiðinni heim.
Glaðbeitta náttúrubarnið frá Stokkseyri mun ekki lengur þurfa að híma í skjóli sjálfvirkra eldflauga innan Græna-svæðisins í Baghdad. Hún kemur heim og getur haldið áfram að sinna fjallaferðum. Prófastsdóttirinn mun pakka saman og fljúga heima í diplómataflugi.
Alein.
Herdís Sigurgrímsdóttir hóf að vinna á NFS um það leyti sem við héldum að stöðin væri að festa sig í sessi, en líkast til þá var Jón Ásgeir að finna rásina á myndlyklinum sínum og um leið að átta sig á fyrir hvað þessi einkennilega skammstöfun í neikvæða ársfjórðungsuppgjörinu stóð eiginlega fyrir og ákveðið var að leggja stöðina niður.
Herdís skrifaði fréttir og las stundum kvöldfréttir þannig að Edda Andrésar mátti vara sig. Ólíkt Eddu sem jafnan er óaðfinnanlega skóuð gekk Herdís hins vegar um berfætt á sérkennilega steingólfinu í Skaftahlíð.
Það var eitthvað spes við þessa stelpu sem um helgar lagðist í fjallgöngur og björgunaræfingar.
Svo brosti hún bara sínu breiðasta - alltaf.
Herdís var líka víkingur til verka og seinna skrifaði hún stórgóðar erlendar fréttir og fréttaskýringar á fáséðu mannamáli í DV. Henni leiddist þó eitthvað þófið í borginni og líkast til hefur hana langað að sjá með eigin augum það sem hún skrifaði um daglega - oftar en ekki Írak-stríðið.
Hún tók því að sér stöðu upplýsingafulltrúa hjá Utanríkisráðuneytinu, n.t.t. friðargæslunni. Fór svo til Írak eftir að hafa lært undirstöðuatriðin í skammbyssutækni. Þar hefur hún verið með hléum í marga mánuði að kenna Könum að tala í sjónvarpsmyndavélar. Hún kom svo heim í liðinni viku í stutt frí.
Fékk lánað hjólið mitt en skyldi það svo eftir á stöðumæli hérna fyrir utan. Læst við stöðumælinn eins og hún hefði skyndliega verið kölluð út. GI-Joe þurfti að fara í viðtal við Franska sjónvarpsstöð og sneri öfugt og stamaði. Herdís þurfti að mæta.
Aldrei datt mér hins vegar í hug að hún Herdís væri her. Hjólið mitt er þá kannski hergagn?
Hún virðist samt hafa verið her. Og það engin smá her. Dugar ekki minna en yfirlýsingar þriggja ráðamanna, blaðamannafundur hvar dagfarsprúður herforingi byrstir sig - næstum alveg - og þjóðarsorg í Írak þegar hún er beðin að koma heim.
Skil Írakanna einna best enda missirinn þeirra.
Segiði svo að íslensk pólitík sé jafn lítil í sér og þjóðarsálin eftir karlalandsleik í fótbolta. Að stjórnmálamenn beri enga sök á því að tiltrú almennings innvolsinu við Austurvöll sé lítil.
Segiði það.
Hér er svo hersveit Íslands í Írak, þar er að segja þessi lengst til vinstri á myndinni í bláum jakka í fjallgöngu með Alpaklúbbnum - óvopnuð.
Herdís mín við hlökkum til að fá þig heim. Geir, Ingibjörg og Valgerður líka, þau þurfa bara aðeins að melta þetta.
Bloggar | 6.9.2007 | 00:32 (breytt kl. 01:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hef ekki bloggað hér lengi og ef það væri ekki fyrir þá einföldu staðreynd að ég var búinn týna lykilorðinu þá væri ég búinn að loka þessu hálfmaðkétna bloggi mínu.
En kannski fer ég að detta í þörf fyrir að tjá mig hér.
Hins vegar var að ég að heyra svo merkilega sögu áðan að ég verð að koma henni út hér, áður en það verður tilkynnt formlega. Og af því að það er svo langt síðan ég fékk að skrifa fyrirsögn kemur hún fyrst:
Jón Sigurðsson (61) fyrrum Seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins:
Reisir skóla í álbúðum!
Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, Iðnaðar- og Viðskiptaráðherra, Seðlabankastjóri, rektor á Bifröst, ritstjóri Tímans og Kollfirðingur af Kjalarnesi, hefur tekið við nýja starfi hjá Háskólanum í Reykjavík. Starfið mun eftir því sem ég kemst næst snúast um að leiða samstarf HR og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar við uppbyggingu hvers kyns framhaldsmenntunar í sveitarfélaginu. Rætt er um að koma á fót nokkurs konar skóla í bráðum tómum vinnubúðum Bechtel utan við þorpið á Reyðarfirði og mun Jón meðal annars leiða þá skoðun alla. Þetta mun hafa verið handsalað og blekað í reyklausu bakherbergi á stór-Reyðarfjarðarsvæðinu í gær.
Jón var sem kunnugt er formaður Framsóknarflokksins í rúmt ár, eða frá því Halldór Ásgrímsson sá þann kost vænstan að hverfa úr þeim stóli eftir sveitarstjórnarkosningar fyrir rúmu ári. Jón varð seinna ráðherra iðnaðar og viðskipta. Til gamans má geta að eftir að Jón lét af því embætti þurfti ekki færri en tvo menn í það sama embætti.
Blaðið hafði slúðrað því um Jón á dögunum að til hans hafði sést á skrifstofu rektors HR; hvaðan hann gekk út með fangið fullt af bæklingum. Jón neitaði þá að tjá sig um málið en leitt var að því líkum að hann hefði hug á að einbeita sér að kennslu eftir að hafa farið í matarhlé af fundi á Hverfisgötunni um daginn og endað utan Stjórnar. Stuttu áður hafði Jón vaknað utan þings, hvar hann var raunar einnig þegar hann lagðist til hvílu kvöldið áður.
Jón er vanur skólamaður enda var hann rektor á Biföst meðan sá skóli var enn kenndur við Samvinnu.
-HSel
Hver veit nema maður skelli sér í öldungadeildina í vetur; negli stúdentinn og fari svo í lögfræði í Teigagerði?
Bloggar | 5.9.2007 | 22:29 (breytt 6.9.2007 kl. 00:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Í dag er fagnað í Fjarðabyggð í annað eða þriðja sinn vegna næstumþvíalvegopnunar álvers Alcoa. Í gær var líka fagnað í Fjarðabyggð.
mynd Austurglugginn/Gunnar Gunnarsson
Hér fagnar Jón Gunnar Eysteinsson Norðfirðingur ásamt Andra Bergmann Þórhallsyni, hjartaknúsara úr Evróvisjón og Eskfirðingi, sigurmarki Fjarðabyggðar gegn Þór í toppslag fyrstu deildar. Með sigrinum í gær hefur Fjarðabyggðarliðið undir stjórn Þorvaldar Örlygssonar ekki tapað leik í heilt ár - 7 9 13 - og á nú góða möguleika á efsta sætinu með sigri í næsta leik.
Austfirðingar gætu þar með átt séns á sæti í efstu deild í fyrsta skipti!!!
Fyrir þá sem ekki vita þá hafa fótboltalið að austan ekki blandað sér mikið í baráttu efstu liða á Íslandsmóti í gegnum tíðina. Við höfum eftirlátið öðrum landshlutum að spila þar með sín lið. Einna helst að gullaldarlið Einherja frá Vopnafirði og sömuleiðis Þróttar í Neskaupstað hafi daðrað við miðja næst efstu deild.
Annars hafa austfirðingar sýnt samstöðu með því að hafa öll lið sín í d- og e-riðlum 3. og áður 4. deildar Íslandsmótsins. Ódyrt og þægilegt bara.
Þessu eru Þorvaldur Örlygsson og Stefán Bjarnason, aðstoðarþjálfari hans og vallarstjóri á Eskifirði, að breyta.
Ég hef ekki enn náð að sjá leik með liðinu í sumar en stefni á að gera það sem fyrst enda hef ég það eftir ónefndum núverandi landsliðsþjálfara Íslands að liðið sé með þeim skemmtilegri á að horfa - og hefur sá maður séð leiðinlega fótboltaleiki og veit því hvað hann syngur.
Annars hef ég komist að því að ég hef meiri áhuga á íslenskum fótbolta en þeim útlenda. Það krystallar ef til vill einu sýnilegu þjóðerniskennd undirritaðs að hafa meiri áhuga á því að standa í brekkunni á Kópavogsvellinum eða í brekkunni til móts við Hólmatind á Eskifirði en að sitja í breskri stúku.
Gott dæmi um þetta er að ég get ekki fengið mig til að halda með liði ensku deildinni ólíkt Sigmari vinnufélaga mínum sem einhvern tímann gerði úllendúllendoff á efstu lið og lenti í því að halda með Arsenal. Þrjósku sinnar vegna hefur hann svo haldið sig við það.
En....
Til hamingju Fjarðabyggð!
Ég tók mér það bessaleyfi að setja hér inn mynd úr leik gærkvöldsins. Gunnar Gunnarsson blaðamaður Austurgluggans tók hana og ég vona að mér verði fyrirgefið.
Áhugasömum bendi ég á að mistrið í bakgrunni myndarinnar er ekki þoka. Betur gæti ég trúað að þarna væri á ferðinni svona blys eins notuð eru á stórleikjum erlendis. Þokan finnst jú ekki eystra - það er bara stundum lágskýjað.
Bloggar | 9.6.2007 | 11:37 (breytt kl. 11:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hættur að blogga í bili - hætti raunar fyrir löngu.
Kveð með laginu sem ég lofaði hér fyrir löngu. AXL og félagar: Madagascar.
Tékkið sérstaklega á Martin Luther King jr. sem gefur sig allan í millikaflann. "Osomm"
Helgi Seljan.
Bloggar | 5.6.2007 | 17:21 (breytt kl. 17:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Furðuleg að verða þessi kosningabarátta í Hafnarfirði.
Í dag kíkti ég á síðu Alcan og rakst þá á þetta myndband hér
Er það bara lamað tóneyra mitt eða hljómar laglína úr lagi Lay Low, Please dont hate me, þarna í byrjun?
Nú veit ég ekkert hvaða skoðun Lovísa hefur á þessari stækkun og þaðan af síður hvort lagið er lag hennar eða að velþekkt auglýsingabrella sem snýst um að nota þekkta laglínu en breyta einum tveimur tónum, hefur orðið ofan á. Alla vega er þetta glettilega líkt fyrir tónhefta eins og mig.
Hitt er annað mál að á meðan huglæg borgarastyrjöld geisar í Firðinum er ekkert óeðlilegt að menn biðjist vægðar undan hatri - hvar svo sem þeir standa.
Bloggar | 30.3.2007 | 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þeir sem ekki sáu eða hafa ekki séð hljómsveitina Esju bendi ég á þetta hér
Takið sérstaklega eftir best klædda manni landsins sem þarna lemur húðir með Suðurríkja-húfuna. Hann er kannski ekki feitur hann Frosti en hann er eitur á trommunum.
Annars hef ég verið að reyna að hringja út um allt landið og jafnvel út á mið til að fá leyfi gamalla félaga til að setja inn söguna af Kristi drepnum. Kannski meira síðar.
En á meðan.....Hit it!!
Ótrúlegt hvað virðist auðvelt að koma raflínum í jörð í Hafnarfirði - ætli jarðlög á Reyðarfirði, Fljótsdal og Skriðdal séu verri í þessu tilliti en Hafnarfjarðarhraunið. Fastara land undir fótum eystra en á Reykjanesi?
Segi bara eins og Denni.
Bendi fólki á Kristinn íhugunarfélaga minn og Reyðfirðing. Líka Ingveldi óléttu sem lýsir ófrískleik sínum svo maður finnur næstum fyrir breytingum á eigin móðurlífi. Svo er Kata mín alltaf að misskilja eitthvað - eins og mig til dæmis.
Bloggar | 30.3.2007 | 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fór á kynningu á "Austurlandi tækifæranna" um liðna helgi.
Austurland tækifæranna var kynnt af fyrirtækjum, sveitarfélögum auk stofnanna eins og mennta- og verkmenntaskóla.
Gekk fram hjá bás Menntaskólans á Egilsstöðum og var stoppaður af kennara sem sýndi færni sína í að lokka þangað fólk og þar með í skólann.
Samtalið var einhvern veginn svona:
Kennari: Hey Helgi áttir þú ekki eftir að klára?! Drífa í því!
Helgi: Klára? Bíddu var ég ekki rekinn.
Kennari: Nú okay.
Lengra var samtalið ekki.
Ég verð sem sagt ekki stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum á þessari öld frekan en þeirri á undan.
Helvíti fúlt þar sem mig hefur alltaf langað til að sitja tíma hjá Sigga Ingólfs og Jóni Inga. Fara svo í námsráðgjöf til Sigrúnar Blöndal og ræða hvað mig langi að verða þegar ég verð stór.
Nenni bara ekki að taka þennan helvítis vélritunaráfanga sem Helgi Ómar kenndi mér.
No offense nafni en....
....kannski í næsta lífi.
Bloggar | 27.3.2007 | 01:24 (breytt kl. 11:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hef tekið eftir því að mörgum bloggaranum hér á Moggablogginu leiðist afskaplega mikið nafnlausar athugasemdir og hvað þá athugasemdir sem skrifaðar eru inn af einhverjum sem eingöngur stofnar blogg til að til að geta rifið kjaft undir nöfnum sem aldrei yrðu samþykkt af mannanafnanefnd.
Mér er sossum skítsama um þetta svona í prinsippinu en leggst gegn þessu af forvitnisástæðum.
Mig langar þó mismikið að vita hverjir standa á bak við nikkinn á Málefnum, eða hvað þá hver sé á bak við sum nikkinn á Barnalandi. By the way þá er ekkert að þeim vef og einhver besta skemmtun og egóísk uppörvun fyrir þá sem þurfa að fara í gegnum spjallið þar.
Hins vegar hef ég lengi af sömu forvitni haft gríðarlegan áhuga á því hver skrifar - lengstum útbreiddari - nafnlausa dálka í Morgunblaðið.
Í gærkvöldi eyddi ég löngum tíma með Morgunblaðið í hönd. Fannst leiðarinn áhugaverður eins og oft áður og sömuleiðis útlistun á réttlætinu í Reykjavíkurbréfinu.
Einn hængur er þó ávalt á þessum lestri mínum; hann er sá að ég hef ekki hugmynd um hver heldur um pennann.
Ég meina svona í ljósi þess sem á undan er gengið hefði ég viljað vita hver karlanna í ritstjórn Moggans skrifaði harða gagnrýni á þá ákvörðun að draga Styrmi og Kjartan Gunnarssyni til vitnis í Baugsmálinu - en um það snerist Reykjavíkurbréfið að stærstum hluta.
Nú er mér sagt að þrátt fyrir ágætis fréttanef hafi Styrmir ekki lesið frétt frá því í lok síðustu aldar sem snéri að breytingum á íslenska stafrófinu. Þannig að þegar engin er zetan þá sé þar enginn Styrmir. En hver er það þá?
Nú sá ég fréttaskýringu framan á Mogganum á laugardag sem ég veit ekki betur en að sé skrifuð af aðstoðarritstjóra blaðsins og helsta álitsgjafa þeirra um stöðu stjórnmálaflokka.
Hann notar líka Zetuna.
Má ég þá frekar biðja um að framvegis merki menn sér verk sín á síðum Moggans en að ráðist verði í að nafngreina Málefnavefinn.
Mér finnst nefnilega fullt af því sem ég les eftir fólk í blaðinu fínt en á erfiðara með að taka mark á hinu - þessi sem blaðið skrifar sjálft.
Það skiptir nefnilega stundum máli hver skrifar hvað - jafnvel opnuna með myndinni í miðju Sunnudagsmoggans.
Styrmir hefur sagt í tilefni af því þegar Ásgeir, þáverandi ritstjóri Blaðsins, hóf að merkja sér og sínum leiðara í því blaði að blöð megi alveg hafa skoðun. Hann orðaði það svona raunar:
"Afhverju má Blaðið ekki hafa skoðun?"
Styrmir: Af því að blöð hafa ekki skoðanir frekar en sjónvörp eða útvörp og enginn nennir að standa í skoðanaskiptum við blöð. Það er eins og að rífast við ljósastaur.
Á meðan held ég því fram að Jonni III skrifi Reykjavíkurbréfið. Hawk 11 Staksteina og Blackbird leiðarann.
Sjáið bara hversu margir nenna að leggja orð í belg vegna þessara skrifa á bloggi Morgunblaðsins hér.
Er það ekki umhugsunarefni fyrir Morgunblaðið hversu fáir kjósa að tala við það?
Gerði hér örlitla breytingu eftir að ég áttaði mig á því að Ólafur Stephensen er aðstoðarritstjóri en ekki fréttastjóri; fréttaskýringuna skrifaði hann í laugardagsblaðið en ekki sunnudagsblaðið.
Bloggar | 26.3.2007 | 17:27 (breytt 27.3.2007 kl. 01:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ómar og félagar kynntu Íslandshreyfinguna í dag.
Talaði stuttlega við Ómar í Kastljósinu áðan og ég hef sjaldan haft hjá mér viðmælanda sem var eins stressaður.
Stressið kom þó viðtalinu lítið við.
Ómar átti nefnilega að vera mættur á svið í Borgarleikhúsinu rúmum fimm mínútum eftir að viðtalinu lauk. Þar leikur hann að mig minnir alsheimer-sjúkan mann á elliheimili sem segir fátt. Góð hvíld fyrir Ómar eftir að hafa talað í allan dag.
Fáheyrt að menn taki sér hvíld frá amstri dagsins í söngleik í Borgarleikhúsinu.
Þegar viðtalinu lauk stóð Ómar snöggt upp losaði af sér litla míkrafóninn í brjósti jakka síns og hugðist skutla honum á borðið. Míkrafónninn lenti í vatnsglasinu mínu og Ómar tók bakfall af hlátri - hafði ekki tíma fyrir fleirtölu bakfall - meðan míkrafónninn dinglaði í vatnsglasinu eins og ormur á öngli.
Stuttu áður en viðtalið hófst og Ómar var að koma sér fyrir tók ég eftir einhverju sem gægðist undan skyrtunni hans. Ómar var eins og menn hafa eflaust tekið eftir með bindi hnýtt um hálsinn en það sem menn vissu ekki var að undir þeirri skyrtu og því bindi var önnur skyrta, annað bindi.
Ómar var þannig í leikbúningi sínum undir búningi stjórnmálaforingjans.
Fyrst eftir að ég kynntist Ómari tók ég eftir því að hann gekk alltaf með tvö úr á handleggnum. Vissi ekki að búningarnir væru líka tveir.
Hljóðmaður sem var á staðnum sagði við mig þegar ég furðaði mig á búningnum undir búningnum:
"Blessaður þakkaðu bara fyrir að hann skuli ekki vera í jólasveinabúningnum undir öllu saman."
Bloggar | 22.3.2007 | 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þegar ég var polli bjó ég í Kópavoginum en ferðaðist reglulega austur á Reyðarfjörð og heimsótti fjölskylduna mína - þann helming sem ekki bjó í Kópavoginum.
Ég flaug auðvitað - eða ferðaðist með flugvél réttara sagt - og þar sem ég fór oft einn þá var mér oftar en ekki komið í sæti hjá einhverjum fullorðnum sem næsta klukkutímann eða svo veitti mér missmikla athygli.
Aðeins einu sinni notfærði sér sessunautur minn sér að vera með ljóshærðan sjö ára strák við hliðina á sér. Og það gróflega.
Ég var sérlegur áhugamaður um flugfreyjur á þessum árum. Fannst þægilegt að hafa þær nálægt mér. Alltaf ofboðslega góð lykt af þeim auk þess sem þær brostu alltaf svo vinalega til manns. Svona hlýlega eitthvað. Svo gáfu þær manni nammi, óumbeðnar.
Mér fannst þær líkast til sætar og aðlaðandi.
En þar sem ég var á þeim aldri að mér þóttu stelpur almennt leiðinlegar grenjuskjóður og fullorðnar konur svona eins hershöfðingjar með allan sinn boðhátt, að ég hefði aldrei viðurkennt að einhver úr þeirra liðum væri sætur. Hvað þá aðlaðandi - það orð þekkti ég heldur ekki.
En ég féll fyrir flugfreyjum. Sumar kysstu mann svo líka bless við landganginn og það toppaði allt. Ég er ekkert að tala um sleik hérna, bara svona einn ilmandi mjúkan á verðandi rauða kinnina.
Í þessu tiltekna flugi frá Egilsstöðum til Reykjavíkur tók á móti mér flugfreyja um þrítugt. Sæt og lyktin af henni góð - Chanel no 5, eða rás 5 eins og einhver kallaði það.
Hún vísaði mér til sætis hjá manni sem var á svipuðum aldri og hún. Sölumaður að koma Austfjarðarúntinn. Hafði selt hóteleigendum eystra hreinlætisvörur í tonnatali og var því nokkuð góður með sig.
"Hann Helgi ætlar að sitja hjá þér, er það ekki í lagi," sagði hún og horfði til skiptis á okkur báða.
"Ekki málið," sagði sölumaðurinn og hjálpaði mér að spenna á mig beltin. Þurfti þess samt ekkert þannig að ég tók af honum beltin eftir vandræðalega tilraun hans og spennti þau sjálfur.
"Ég heiti annars Jón," sagði hann hálf snúðugur um leið og hún hafði sent okkur síðasta brosið áður en hún fór að flytja ræðuna sína um björgunarvesti og neyðarútganga.
Hann bauð Tópas og ég þáði allan pakkann.
Þegar flugfreyjan hafði lokið við að skenkja kaffi og svala. Kom hún til okkar.
"Jæja Helgi, hvernig hefurðu það," sagði hún og beygði sig niður til að horfa beint í augun á mér.
"Ba, bara fínt alveg sko."
Ég ætlaði eflaust að segja eitthvað meira þegar hún pírði aðeins augun og brosti meira. Ég ákvað að þegja bara og horfa. Þefa kannski aðeins af ilmvatninu.
Jón mælti fyrir okkur báða þegar hann spurði hana að nafni.
"Sigrún," sagði hún og leit í átt til hans.
Ég man ekki hvað kom næst en alla vega vissi ég ekki fyrr en Sigrún var sest á armpúðann hjá mér og var farinn að tala við Jón.
Hún sagði honum aðspurð að hún ætti engan mann. Hún átti heldur ekki börn en hafði alltaf dreymt um það.
"Ég er ekki sú heppnasta í þessum málum," bætti hún við og lét fylgja með svip sem eingöngu fórnarlömb eiga á lager.
"Ég elska börn," sagði Jón og brosti út í loftið en bætti svo við hálf vælandi. "Ég hef bara ekki enn fengið tækifæri til að finna þeirri ást minni stað."
Svo klappaði hann mér fast á kollinn svo mér svelgdist á svalanum.
Ef ekki hefði verið fyrir lætin í hreyflunum þá hefðum við Jón þarna hlýtt á sónötu flutta af eggjastokkum flugfreyjunnar.
Jón gekk á lagið.
Hann talaði eitthvað um að trúa ekki á ástina eins og hún birtist honum og svo eitthvað um að hann hefði ekki fundið þá einu réttu. Hefði verið svikin af konu sem lét falla á hann víxil og flutti svo til útlanda.
"Ég orðið erfitt með trúa því að fólk geti verið ástfangið af hvort öðru. Hjá mér hefur þetta meira verið svona einstefna," sagði hann og gætti þess að leggja áherslu á orðið einstefna.
Jón horfði til skiptis á hana og ofan í kaffibollann sinn. Hálf flóttalegur; svona eins og þegar maður sagðist ekki eiga áttu í veiðimann en átti hana samt - jafnvel þrjár.
Hún brosti vandræðalega þegar hann sló henni næst gullhamra á minni línu: "Það er svakalega góð lykt af þér."
Þjófur.
Þetta bros hennar var óundirbúið og ekki vinnubrosið sem notað er með "meira kaffi." Til marks um það þá mynduðust broshrukkur á stöðum sem ekki áttu að birtast í andlitinu á henni, svona varanlegar. Meikið sá til þess.
Ég veit ekki hvort það var Tópasið, ruglið í sölumanninum eða jafnvel ilmvatnið. Alla vega varð mér skyndilega eitthvað ómótt.
Flugreyjan stóð upp lagfærði pilsið og færði flugstjóranum kaffi.
Sölumaðurinn gaf sjálfum sér fæv í huganum.
Á meðan skilaði ég Tópasinu í ælupokann með myndinni af blóminu á og velti fyrir mér hvers vegna blóm?
Þegar ég hafði svo lokið mér af kom hún til baka. Ég er viss um að Jón hafi séð hana áður en hún sá okkur en skyndilega fór hann aftur að veita mér athygli. Dró tissjú úr vasa sínum og tók við ælupokanum meðan ég þurrkaði tópasleifarnar úr andlitinu.
"Svona vinur," sagði sölumaðurinn röggsamur um leið og hann sýndi færni sína í ummönnun barna - óumbeðinn. "Hann var eitthvað slappur vinur okkar en ég náði að afstýra stórslysi með því að koma þessu í pokann," bætti hann við og beindi orðum sínum til flugfreyjunnar.
Helvítis fíflið.
Þrítuga einhleypa flugfreyjan þurfti ekki meir og næst þegar hún gekk framhjá okkur til að aðgæta um sætisbökin og "borðin fyrir framan ykkur" færði hún mér servéttu og læddi annarri til Jóns sölumanns.
"Bingó," sagði Jón, svona eins og hann hefði selt Hótel Búðareyri þrjátíu lítra af gólfbóni um leið og hann stakk servéttunni sinni í brjóstvasann - með símanúmerinu hennar.
Vélin lenti svo á Reykjavíkurflugvelli stuttu síðar og flugfreyjan bauð okkur velkomin til Reykjavíkur með sömu rödd og flugfreyjur nota þegar lent er eftir tólf tíma flug. Ferlega fegin að vera komin.
Hún kyssti mig ekk bless en Jón stal einum á leiðinni út í rigninguna.
Helvítis melurinn.
Bloggar | 21.3.2007 | 23:11 (breytt kl. 23:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Tónlistarspilari
Tenglar
Blóm og kransar
Fólk
Konur sem ég bý með
Austlendingar
Kallað yfir hálendið
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- adalheidur
- andres
- annapala
- atlifannar
- audureva
- aas
- agustagust
- arnith
- polli
- bergurben
- birnamjoll
- baddahall
- lubbiklettaskald
- bet
- bingi
- bleikaeldingin
- gattin
- bryndisisfold
- bodvar
- dagga
- dabbi
- dofri
- saxi
- eirikurbergmann
- gloria
- ellasprella
- disill
- eyglohardar
- eyrun
- vinursolons
- ea
- fanney
- feministi
- finnurtg
- sifjar
- feron
- fridjon
- ulfarsson
- kvistur
- gummibraga
- gudmundurmagnusson
- gummisteingrims
- grj
- hinriksson
- hallgri
- nesirokk
- hannibal
- handsprengja
- 730bolungarvik
- heidathord
- hemba
- belle
- bolti
- kjarninn
- hlynurh
- kolgrimur
- hrafnhildurolof
- tulugaq
- hrannarb
- hrolfur
- destiny
- hoskuldur
- indahronn
- ingo
- jensgud
- hansen
- skallinn
- joninaben
- hugsadu
- killerjoe
- kolbrunb
- kiddip
- lara
- magnusdk
- matti-matt
- maggabest
- gudbjorn
- poppoli
- ljosvellingar
- bonham
- panama
- pallvil
- hux
- pollurinn
- vertinn
- puma
- rungis
- salvor
- sigmarg
- einherji
- hvalur
- sms
- snorris
- stebbifr
- stefanthor
- fletcher
- kosningar
- svenni
- swaage
- tidarandinn
- grindjani
- tommi
- truno
- ver-mordingjar
- hundshaus
- postdoc
- vikingurkr
- thorarinnh
- thordursteinngudmunds
- doddinn
- toddi
- vitinn