Á að senda pabba disk?

Kominn suður.

Ármótin voru helvíti fín og ballið á hinum áðurumbloggaða Kaffi Kózý hreint prýðilegt. Hittum fullt af fólki og líka helvítis kattarógeðið hennar mömmu. Ég er með ofnæmi fyrir slíkum kvikindum og því lít ég alltaf út eins ekkja með ekka, þegar þessi kvikindi eru nálægt mér.

Gistum eina nótt, flúðum kattarræksnið réttara sagt, í Seljateigi. Teigurinn er jörð afa og ömmu hvar laghentir meðlimir Seljan-slektisins hafa gert upp ríflega hundrað ára gamalt hús, þar sem áður bjuggu langafi og langamma.

Eðall að vakna í algerri kyrrð og sjá ekkert nema Grænafellið út um gluggann - jú og helsta smekkvirki Íslands þessa daganna, Fljótsdalslínur 3 og 4.

Las fram á nótt í bók Óskars Guðmundssonar, Alþýðubandalagið - Átakasaga. Bókin er frá árinu 1987 og rekur sögu kommúnista og mismikilla skoðanabræðra þeirra á Íslandi á síðustu öld.

Er að koma að þeim stað í bókinni hvar Jón Baldvin, pabbi hans og að ég held svei mér þá hálf fjölskyldan, gengur úr flokknum. Stuttu síðar gekk þar inn rakarasonur frá Ísafirði sem mér skilst að hafi farið í fýlu í einhverju samvinnupartí sem ég held að hljóti að hafa verið á Möðruvöllum. Hann er í dag einna þekktastur fyrir búsetu sína nyrst á Álftanesi - það er segja Bessastöðum.

Á blaðsíðu 109 í bókinni er frásögn frá því herrans ári 1964, en þá voru enn mörg ár í að ég yrði svo mikið sem slæm hugmynd. Þar segir:

"Sósíalistaflokkurinn tók einarða afstöðu gegn samningunum við Swiss Aluminium á sjöunda áratugnum. Í Þjóðviljanum rak Magnús Kjartansson málið með aðstoð og upplýsingum frá vísindamönnum eins og Sigurði Thoroddsen og Sigurjóni Rist." 

Fyrir þá sem ekki vita, er mér ljúft og skylt að færa þetta "kvót" í nútímasamhengi svo allir sem ekki ólust upp á kaldastríðsárunum - og skilja þannig ekki andrúmsloft þeirra ára eins og okkur er alltaf sagt - skilji málið.

Sigurjón þessi sem einnig er velþekktur sem vatnamælingamaður er faðir Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, þess fyrirtækis sem nú sækir að fá að stækka verksmiðju sína í Hafnarfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er dýnamísk bók - heldur betur ástir og örlög á vinstrivængnum þar að finna. Ég dreg alltaf fram þessa bók þegar að ég er ósáttur við stöðuna innan Sjálfstæðisflokksins. Þá veit ég alltaf að það er von og þetta hefur verið verra einhversstaðar áður. :) Nei, án gríns, dúndurbók.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.1.2007 kl. 20:58

2 Smámynd: Hildur Sif Kristborgardóttir

Hey hey Helgi, gaman að sjá þig hérna.....

Hildur Sif Kristborgardóttir, 4.1.2007 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband