730 - Reyðarfjörður

Kominn á Reyðarfjörð.

Fékk þrjá gamla vini í heimsókn í gær. Einn er nú vélstjóri en tveir stýrimenn; annar þeirra raunar skipstjóri á 3000 brúttótonna togara (segir það einhverjum eitthvað).

Ræddum sjó og sjómennsku og svona og drukkum bjór. Finnst ég gamall þegar ég sit og spjalla við vini mína og reglulega heyrist: Ég gleymi því aldrei þegar...

Fór svo á Kózý, Skemmtistað Reyðarfjarðar. Fámennt en góðmennt. Allir Pólverjarnir farnir heim yfir hátíðirnar; einn Reyðfirðingur meira að segja í Gdansk um áramótin með "vinkonu sinni". Annar í Afríku líka, með vinkonu sinni.

Sigldir þessir Reyðfirðingar.

Síðast þegar ég fór á Kózý var ég einn fjögurra "gamalla" Reyðfirðinga á staðnum, restin var útlensk og aðflutt. Fjórar konur voru á staðnum þetta kvöld en karlarnir nærri hundrað. Tvær kvennanna unnu á barnum.

Dansgólfið á Kózý er hið eina í víðri veröld þar sem karlar eru í meirihluta á gólfinu - held jafnvel að konur séu fleiri á gay-börum heimsins. Raunar væri nær að tala um einokun karla á gólfinu, kvenfólk hætti sér ekki mikið þangað það kvöldið. Ein hrasaði þó á leiðinni inn á staðinn og lentu á miðju dansgólfinu. Komst ekki þaðan fyrr en átta karlar í sjálflýsandi vestum höfðu mátað sig við hana í dansi.

Hún fór ein heim.

Ég lenti á spjall við ungan strák frá Póllandi. Sá hefur verið hér í þrjú eða fjögur ár og á þeim tíma náð þvílíku valdi á íslensku að Pétur Pétursson þulur má vara sig. Sökum þess hversu góðu valdi hann hefur náð á íslenskunni þá lætur nærri að 1000 af þeim 1600 pólsku verkamönnum sem hér eru hafi leitað til hans á þeim tíma.

Hann lagði kalt mat á það hvernig komið væri fram við landa sína hér fyrir mig. Einkunnin var 8,5. Flestir ef ekki allir fá borgað þokkalega og almennt er komið vel fram við þá. "Annars er þetta nú bara vertíð hjá okkur," sagðann við mig um leið og hann leiðbeindi landa sínum eitthvað á pólsku. Hann sagði mér seinna að landann hefði langað að segja: Rosalega eru augun þín falleg, við fjórðung kvennanna á Kózý.

Hann fór líka einn heim.

Daginn eftir var mér boðið í partí í húsi hér í Hæðargerðinu. Þar var einu sinni rekin vídeóleiga, ljósastofa og billiardsalur. Nú er búið að innrétta átta herbergi í húsinu með sameiginlegri eldunaraðstöðu. Þar búa nú átta Pólverjar. Hafi ég búist við því að finna myglaða bedda og afganga sem hent hefði verið í Pólverjana ásamt tíu krónum á tímann, þá hafði ég rangt fyrir mér.

Einn heimilismaðurinn, karl um fertugt, bauð mér inn í herbergið sitt. Þar var flatskjár, tölva með nettengingu og í raun engu líkara en maðurinn hefði verið að fermast viku fyrr.

Annars var þetta partí fljótt að breytast í risastóran viðtalsþátt undir stjórn Helga Seljan. Fyrir svörum sátu átta Pólverjar sem svöruðu öllu sem ég spurði þá að. Sýndu mér meira að segja launaseðlana sína. Bestu viðmælendur sem ég hef haft.

Gaman að bjóða mér í partí.

Í Ríkinu á Reyðarfirði, sem opnað var fyrir ári en hefur nú þegar verið stækkað um helming. Fæst bjór sem ég hef ekki séð áður. Tvær tegundir af Pólskum bjór standa á brettum við kassann, öllum öðrum bjór er raðað í hillur. "Það tekur því ekkert að raða þessum, það væri þá bara ein manneskja í því," sagði mér maður í Ríkinu í dag.

Ég hef fyrir satt að þessi bjór, sem eflaust er til bakatil í Heiðrúnu sé ekki bara mest seldi bjórinn í Ríkinu hér, heldur sé þetta eini staðurinn á landinu sem selji bjórinn.

Hef ekki smakkað hann, en strákarnir segja að hann sé þokkalegur. "Skítsæmó," minnir mig að vélstjórinn Atli Larsen hafi sagt í gærkvöldi.

Í dag birtist viðtal við mig í DV þar sem kalla grein Dr. Gunna um mestur krummaskuð landsins, og birtist í Fréttablaðinu í síðasta mánuði, mesta flopp ársins, eða eitthvað þannig. Þetta geri ég bara vegna þess að þessi grein svipti mig vinnu- og svefnfrið í nokkra daga. 

Ég, fjölmiðlamaðurinn, tók við leiðréttingum frá ósáttum. 

Degi eftir að greinin birtist í blaðinu höfðu þrír sveitungar mínir frá Reyðarfirði hringt í mig brjálaðir og aðeins í glasi vegna greinarinnar. Hér er orðrétt samtal sem átti sér stað í gegnum landlínu Símans klukkan fjögur að morgni mánudags.

Helgi:Halló.

Drukkinn sjómaður í löndunarfríi í Eyjum: Helgi. Hver er grh á Fréttablaðinu?

H: Ha? Hvað meinarðu? Afhverju ertu að spá í það?

D: Nei bara. Langar að vita það.

H: Ég held að það sé doktor Gunni.

D: Já var það ekki, helvítis vitleysingurinn þarna sem söng prumpulagið. (Símtólið tekið frá munninum og kallað. "Jú það var eins og þú hélst. Þetta var helvítis auminginn þarna úr prumpulaginu.")

H: Afhverju ertu að spá í það? Ertu fullur?

D: Hefur þú einhvern tímann fengið símtal frá mér á þessum tíma sólarhrings án þess að ég sé fullur?

H: Nei líklegast ekki.

D: Já, það mætti halda að þú værir fullur drengur. (Hóst og hóst. tekinn sopi og kveikt í sígarettu). En hvar býr helvítis maðurinn, þessi prófessor Gunni?

H: Það veit ég ekki maður.

D: Ég er nefnilega á leiðinni í bæinn og datt í hug að kíkja á hann með vini mínum frá Bíldudal. Hann er ekkert sáttur heldur, bræðurnir frá Bolungarvík sem eru hérna um borð hafa líka ýmislegt við hann að segja. Þeir eru ekki sáttir.

H: Aha þannig að þetta snýst um greinina þarna um krummaskuðin?

D: En ekki hvað. Hélstu að við ætluðum að gera okkur ferð í bæinn til að lemja manninn út af klæðnaðinum á honum?

H:Nei mér datt það svo sem ekki í hug. En hefurðu pælt í einu? Gunni kallar þetta "Mesta" krummaskuð Íslands. Mesta as in besta, skilurðu. Á ensku: greatest! Ég skil þetta þannig að Ísland sé hvort eð er eitt stórt krummaskuð en þar tróni á toppnum Reyðarfjörður. Svo var það nú ekki Gunni greyið sem valdi þetta. Hann var með hóp af álitsgjöfum.

D: Aumingjum bara. (sopi) Helvítis pakk.

H: Nei, nei. Sumt af þessum álitsgjöfum eru nú utan að landi. Frá stöðum sem enginn veit hvort heita Hella eða Hvolsvöllur, jafnvel ekki þau sjálf? Þetta var bara grín maður. Þú ferð ekki að lemja Gunna fyrir viðtöl við..(komst ekki lengra)

D: Aumingja bara. Helvítis pakk. Stórskrýtið helvítis lið. Viðrini!

H: En ég hef kosið að skilja þetta meira sem viðurkenningu fyrir Reyðarfjörð. Mestur skuða krumma Íslands.

D: Djöfull ertu ruglaður! (talar við félagann frá Bíldudal í tvær mínútur og útskýrir kenninguna sem fram að þessu hafði róað þrjá reiða Reyðfirðinga. Bílddælingurinn brjálast í miðri setningu sveitungans og öskrar: "Bíldudalur er miklu meira krummaskuð en Reyðarfjörður. Afhverju var Bíldudalur þá ekki efstur á blaði."

Símtalinu lauk eftir þetta. Bolvísku bræðurnir voru örugglega sofnaðir. 

Ég veit ekki til þess að Dr. Gunni hafi fengið heimsókn, nema þá ef Bílddælingurinn hafi bankað uppá hjá honum.

Dr. Gunni: Þú skuldar mér bjór!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

Skemmtilegasta lesning, takk fyrir

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 3.1.2007 kl. 13:04

2 Smámynd: Atli Fannar Bjarkason

Gaman að þessu maður, annars er ég sammála því að Bíldudalur sé miklu meira krummaskuð en Reyðarfjörður!

Atli Fannar Bjarkason, 3.1.2007 kl. 13:26

3 identicon

Mér finnst Bíldudalur flottur bær.

Annars fannst mér biblíuskýringin brilljant, fólk á til að taka biblíuna hátíðlega og orðrétt. Eins og prestarnir tveir sem löbbuðu út af aðventutónleikum því einhver flutti jólaguðspjallið að hætti Baggalúts.

Herdís Sigurgrímsdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 15:39

4 Smámynd: Egill Óskarsson

Hvað heita þessir pólsku bjórar?

Egill Óskarsson, 4.1.2007 kl. 03:26

5 Smámynd: Egill Óskarsson

Hvað heita þessir pólsku bjórar?

Egill Óskarsson, 4.1.2007 kl. 03:26

6 identicon

Þeir heita Zywiek og Tyskie

Davíð Geirsson (IP-tala skráð) 7.1.2007 kl. 10:54

7 identicon

Reyðarfjörður er auðvitað bara leiðinda hraðarhindrun og það veistu Seljan.

SveinnP (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 03:37

8 identicon

Frábær færsla hjá þér

Hákon (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband