Úllingar

anres 

Fór í bíó með Andra í síðustu viku að sjá Pick of destiny. Fín rokknördamynd.

Vorum tveir í salnum auk þess sem mér sýndist hálfur 10-b í einhverjum grunnskóla höfuðborgarsvæðisins vera þar. Stelpur og strákar sem verða 16 í ár. Árið gildir.

Píkuskrækir og eitthvað sem Mogginn hefði í árdaga nefnt skrílslæti allan tímann á meðan sýnishornin runnu yfir tjaldið. Það seig í annars létt skap Andra undan látunum sem ekki þögnuðu þegar myndin byrjaði. Ég var sammála honum.

Nú er það bara þannig að hvorugur okkar á létt með að halda kjafti, hvort sem það er vegna þess að við höfum svo sterka réttlætiskennd eða það að við gefum okkur minni tíma en aðrir í að hugsa áður en við tölum. Hvorugur okkar sagði samt orð þó reglulega heyrðist "djísess Óli" rétt áður en sparkað var í stólbakið okkar.

Við héldum bara kjafti.

Hvers vegna: Jú vegna þess að við erum báðir á þeim aldri að við munum hvað var ömurlegt að vera unglingur og ekki síst hvað fullorðnir geta verið ömurlegir við unglinga.

Ég tel mér trú um að ég sé hvorugt; hvorki fullorðinn né unglingur. Ég er svona mitt á milli - Andri er náttúrulega bara stórt barn.

Ég tel mér trú um þetta og vegna þess neita ég að taka þátt í því eina kalda-stríði sem ég þekki: Stríðinu milli unglinga og fullorðinna. Unglingar skilja ekki fullorðna og öfugt. Lífið gengur sinn vanagang en annars slagið finnst fullorðinskafbátur í hafi unglinga eða öfugt.

Þess vegna heyrum við reglulega fréttir af því að vopnahlé unglinga og fullorðinna hafi verið rofið; nú síðast þegar einhver kall (liðsmaður herskárra fullorðinna) áttí átökum við strák (liðsmann hins herská arms unglinga) sem hafði hent flugeld inn til hans. Átök brutust út.

Sjálfum finnst mér fá tímabil leiðinlegri í eigin lífi en unglingsárin; stanslaus bömmer og óöryggi sem braust út í einhverju sem helst verður líst sem ultra-stælum. Persóna manns í mótun en um leið brjálæðislega brothætt. Líkami manns til hálfs orðinn fullorðinn sem aftur gerir það að verkum að sum líffæri stækka í allt öðru og meira hlutfalli en önnur. Hjá mér voru það nefið og fæturnir. Ég leit út eins og froskur með kústskaft út úr miðju andlitinu sem örugglega hefði verið talið kústskaft ef ekki hefði verið fyrir fasta búsetu stærðar bólu á nefinu á mér svo að segja öll unglingsárin.

Nefið á mér er raunar enn stórt, en aðrir partar andlitsins hafa náð nefinu nokkurn veginn í stærð þannig að minna ber á því - ennið virðist eini partur andlitsins sem enn stækkar.

Mér fannst þá að allir fullorðnir væru hallærislegir og börn bara barnaleg.

Og vegna þess hversu brotnir í sjálfsmyndinni og hálfkláraðir unglingar eru jafnan þá ferðast þeir um í hópum. Þannig er ekkert mál að ræða við einn ungling. En að ætla að ræða við tvo eða fleiri í hóp, er voðinn vís. Sérstaklega ef unglingurinn telur sér ógnað með einhverju móti.

Unglingar eru líka oftar en ekki eins - af óttanum einum saman. Óttanum við að vera öðruvísi. Það er eitt trend í gangi; og því fylgja menn bara. Einn unglingur sem telur sig vera Vin Diesel er þannig hlægilegur en fimm geta verið hættulegir enda öll viðleitni þeirra til að vera stóri sterki kallinn samanlögð ekki langt frá því að ná þeim stóra.

Samanlagðar hendur verða hamar.

Dæmi:

Ég er skapmaður. En þegar ég var unglingur var saman komin í mér öll heift Palestínumanna og svo að segja allur kraftur Ísraelshers, setti sig einhver á móti því sem ég taldi rétt.

Aðstaða til knattspyrnuiðkana var á tíma léleg á Reyðarfirði. Eini völlurinn sem var í lagi var á Leikskólanum en þangað höfðu starfsmenn hreppsins komið mörkum og stikað völl. Á þessu tíma var ég fjórtán eða fimmtán. Okkur datt í hug félögunum að kíkja í fótbolta í stað þess að standa í fullorðinslegri leikjum þann daginn. Við höfðum ekki sparkað oft í boltann þegar starfsmaður hreppsins sem aldrei var í fríi kom öskrandi að okkur og sagði okkur að drulla okkur af vellinum. Við ættum ekkert með að eyðileggja fyrir börnunum. Nógu andskoti værum við nú duglegir við að eyðileggja fyrir okkur sjálfum.

Í sem fæstum orðum sturlaðist ég þennan sunnudag.

Ég rauk að manninum sem stóð þarna í óreimuðum stáltárskónum sínum og hreppsjakkanum og gargaði á hann með hnefana kreppta. "Hvers vegna geturðu ekki látið okkur í friði hérna helvítis fíflið þitt? Við höfum ekkert gert af okkur og ekkert eyðilagt?" Ekkert svar heldur boltinn tekinn og settur í skott hreppsstarfsmannsins, sem annað slagið tók vaktir í löggunni. Sama skott og hafði áður gleypt tvær ef ekki þrjár tilraunir okkar Andra með Molotow kokteila og Salt péturssprengjur. Sama skott og hafði áður hirt þýfi úr víngeymslu Hótels Búðareyrar - fyrirgefðu Markús minn - og fleira sem við þó reyndum að finna okkur til dundurs þarna drengirnir.

Bíllinn ók á brott og við stóðum eftir reiðir og ringlaðir. En nú var komið nóg. Við örkuðum af stað eins og lítil herdeild að okkar stjórnarráði, heimili sveitarstjórans. Og nú skyldi ekki tekin nein minniháttar mótmælaganga með kjarnyrtum slagorðum. Ó, nei nú skyldi kúgurum þessa lands sýnt hvenær nóg er nóg. Við börðum harkalega á dyr sveitastjórabústaðarins og þrykktum hnefum í lófa. 

Börðum réttara sagt á hurðina í góðar fimm mínútur þar til þreytu- og þynnkulegur sveitarstjórinn kom til dyra á náttsloppnum.

"Við viljum að þú rekir einn mann," sagði einn af okkur og reyndi að tala af ábyrgð og festu. Svona eins og Davíð Oddsson sem þá var leiðtogi hinna fullorðnu gerði en sveitarstjórinn var samkvæmt almannarómi mikill stuðningsmaður Davíðs. Okkur var auðvitað nákvæmlega sama annað hefði brotið þá hefð að unglingar hafi skoðanir á öðru en þess tíma ígildis Duran Duran og Wham deilunnar.

"Ha? Afhverju," sagði sveitarstjórinn.

"Hann bannar okkur að spila fótbolta á eina vellinum í bænum. Bannar okkur að spila fótbolta, ha? Það er ekkert hægt að gera í þessum andskotans bæ án þess að vera skammaður fyrir það og hótað með löggunni en þegar við ætlum svo að reyna að vera eins og menn þá er það líka bannað."

Ég lagði áherslu á bannað enda vissi ég það eitt um pólitík fullorðinna á síðari hluta tuttugustu aldar að orðið "bannað" var bannað. "Frelsi" var aðalmálið.

Sveitarstjórinn bauð okkur inn í gang. Samþykkti að ræða við umræddan starfsmann sinn og lofaði því að við mættum nota völlinn. Notaði orð eins "skoða" og "ganga í" í þessu sambandi.

Þarna leið okkur gott ef ekki eins og Castro á torginu í Havana þegar byltingin var búin og dúfan sest á öxlina á honum.

Mission Accomplished.

Við gengum sigri hrósandi út og beinustu leið niður í sjoppu, þar sem rifum kjaft yfir því að fá ekki hanga inni í sjoppunni. Hent út. Reyndum aldrei að ná í Kristin Björnsson forstjóra Skeljungs þó starfsmaður Skeljungs hefði vissulega beitt okkur kúgun af verstu sort.

Ég held að ég hafi aldrei sparkað í bolta á leikskólanum á Reyðarfirði síðan þarna. 

En þetta var líka bara prinsippmál fjandinn hafi það. Svona eins og hvalveiðar. Viljum geta það. Ekkert endilega gera það samt.

Svona eru unglingar. Þeir láta eins og Þriðja heimsstyrjöldin sé að skella á ef ekki er til kók á heimilinu. Þegar svo einhver kaupir það, þá vantar bara appelsín.

Þess vegna fokka ég ekki í unglingum. Ef ég væri unglingur og ég nokkru eldri myndi reyna að ala mig upp - úti á götu eða í strætó eins og margir fullorðnir finna sig knúna til að gera - þá myndi yngri ég hreinlega jarða þann eldri með öskrunum og dramanu einu saman.

Þess vegna létum við Andri bara sparka í stólbakið okkar milli þess sem "djísösss Óli, ertu vangefinn," var öskrað í eyrað á okkur af einhverju nýkynþroska.

Vegna þess að við viljum ekki eiga það á hættu að fjórir gelgjulegir strákar vekji okkur á sunnudagsmorgni og taki út á okkur hversu erfitt er að verða fullorðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þvílikur snilldarpistill!!

kollatjorva (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 10:18

2 identicon

Heill og sæll Helgi.

Guðrún B. hér fyrrverandi sumarpródúsenta á NFS... Ég datt inn á bloggið þitt í gegnum mbl.is... Þessi pistill er snilld.. langur en ég las hann í gegn... Talsvert skemmtilegra en að fara yfir heimaverkefni nemenda sem ég á að vera að gera núna... Ég var nefnilega fyrir jól vaktstjóri í Hyrnunni hér í Borgarnesi, bara á kvöldin og um helgar og lenti í  þvílíkum útistöðum við unglingana... Ég reyndi alla taktík og einmitt þetta að rifja upp hvernig það var að vera unglingur.. En ég var bara svo þægur unglingur... Ég hringdi á lögguna eða foreldrana, ég reyndi að gera díla við unglingana... "Þið stelið ekki og þá megið þið vera inni"... Ég reyndi allt, sumt virkaði á suma og sumt ekki á neinn... Ég var að verða geðveik... En nú er ég hætt í Hyrnunni sakna launanna en ekki starfsins... Jápp ótrúlegt en satt þá borgaði Hyrnan betur en NFS sem þó borgaði vel... Hálf skrýtið... Nú er ég bara freelance í hinu og þessu mest tengdu Landbúnaðarháskólanum, kynningarstörf og aðstoðarkennslu og ég nýt þess mjög.. Sef út og vinn svo frameftir hreint snilldarlíf...  Stefni  svo að mastersnámi í grasafræði næsta haust hér við Landbúnaðarháskólann..

Jæjja bestu kveðjur Bið að heilsa Kötu

Guðrún Bjarnadóttir, Hvanneyri

Guðrún Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 11:50

3 Smámynd: Orri Harðarson

Frábær pistill, Helgi. Þeir eru það ævinlega hjá þér. En bílar aka ekki á brott; það er iðulega einhver sem ekur þeim.

Orri Harðarson, 15.1.2007 kl. 12:38

4 identicon

Hehh!

Fínn pistill Helgi... en segðu mér annars, hvaða skoðun hefur þú þá á fullorðnum (kannski dáldið fullum) sem skemma svona fyrir manni upplifunina af tjahh, segjum bara tónleikum? 

Pétur Maack (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 15:00

5 identicon

Heill og sæll Helgi... Sá þetta blogg einmitt í gegnum mbl og fannst gaman að lesa. Tel mig svona nokkuð vissa um hver bæjarstarfsmaðurinn er en er samt ekki alveg 100% viss. En já það er ekki auðvelt að vera unglingur en ég man ekki betur en maður hafi skemmt sér svon ágætlega svona inn á milli vaxtaverkjanna og hormónaflæðisins... ekki satt? Ég bíð alveg spennt eftir því að eiga tvo ofvaxna unglingsdrengi, helmingi stærri en ég verð nokkurn tímann, sjá fjanda í hverju horni og tapa sér ef það er ekki til kók

Lára Valdís (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 17:58

6 identicon

p.s. það var algjörlega ómeðvitað og alveg óvart að segja heill og sæll eins og fyrri commentari.. er ekki svona ófrumleg sko  Ég tek það því til baka og segi Komdu nú sæll og belssaður Helgi minn

Lára Valdís (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 18:17

7 identicon

Ég fór í verkfall ásamt bekkjarfélögum mínum í níunda bekk og krökkunum í áttunda líka. Okkur fannst asnalegt að þurfa að fara út í frímínútum með krökkunum þegar tíundubekkingarnir gátu verið inni og hlustað á græjurnar. Svo fannst okkur asnalegt að þurfa að læra kristinfræði og svo vantaði net í körfuboltakörfurnar og svo voru gardínurnar í asnalegum lit.

Eftir setuverkfall úti á tröppum og snyrtilega skrifaða kröfuskrá fengum við í gegn að fá að vera inni í frímínútum. Kristinfræðinni var líka skipt út að okkar ósk. Við vorum hins vegar ekki heppnari en svo að restina af vetrinum blótuðum við vélritunarverkefnum og handrituðum bókhaldsverkefnum.

En okkur leið líka eins og Kastró á torginu, þrátt fyrir að ljótu appelsínugulu gardínurnar væru enn dregnar fyrir gluggana.

Herdís Skaftahlíðarliðhlaupi (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 02:04

8 identicon

Skemmtilegur pistill.

Þegar ég var barn, og/eða unglingur, lofaði ég sjálfum mér að gleyma því aldrei hversu ömurleg tilvist litla fólksins er. Mig rámar í ýmsar kröfugerðir á Þórshöfn í fyrndinni. Staðfesta okkar var þó ekki slík að teljandi árangur næðist í það og það skiptið, en réttlætistilfinningin var sterk og ekki leið á löngu þar til ný krafa var sett fram, yfirleitt um félagslega aðstöðu, eða aðstöðuleysi öllu heldur, tilheyrandi unglinga í litlu sjávarplássi úti á landi.

En aldrei leið mér eins og Kastró því sjaldan sigraði réttlætið. Eitt sinn voru þó nemendur í 8-9 bekk settir í stofufangelsi fyrir að sinna illa örvæntingafullum tilskipunum kennara. Okkur fannst frelsissviptingin heldur harkaleg refsing og fylltumst réttlætistilfinningu sem aldrei fyrr. Þrjú okkar töldu vænlegast að flýja prísundina. Harðsoðin flóttaáætlun var á þá leið að stelpan í hópnum skildi dreifa athygli kennarans meðan karlmennin skrúfuðu glugga af hjörunum, svo samviskufangarnir gætu skriðið út. Bara við þrjú þorðum. Ekkert okkar hefur þó fylgt eftir dirfskunni með afrekum á fullorðinsárum, enda er réttlætistilfinningin veik og viljinn lítill þegar maður er stór.

Mbk,
Drengur Óla 

Drengur (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 03:32

9 identicon

Þetta byrjaði vel Helgi. En værirðu til í að senda mér þetta  í styttri útgáfu, ca 1000 slög, ha?

Róbert

Róbert (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 23:27

10 Smámynd: Helgi Seljan

Er þetta sami Róbert og lagði á sig tveggja vikna ferðalag í húsbíl um allt suðurland til þess eins að fá vinnu við að lesa 70 blaðsíðna greinargerðir um þjóðlendumál? Sami Róbert og ætlar sér að leggjast yfir 700 blaðsíðna alít ESA á því hvort ég eigi að borga áskriftina af RÚV með gíró eða hvort hún verði millifærð sjálfkrafa af laununum mínum?

"Hæstvirtur forseti. Ég óska hér með eftir því að skýrsla Ríkisendurskoðunar um framgang fjárlaga verði stytt í svona 1000 slög. Er ég eini maðurinn í þingsalnum sem get ekki komist í gegnum efnisyfirlitið? Ha? Anybody?"

Og by the way: Sælar Guðrún, Herdís og Lára mín. Sæll Drengur og meistari Orri.

Helgi Seljan, 17.1.2007 kl. 12:07

11 identicon

Innilegar afmæliskveðjur til þín kæri Helgi, vonandi hefur þú það sem allra best í dag (sem og aðra daga).Kveðja úr Einholtinu.

tengdó (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 12:01

12 identicon

Sæll og blessaður millilingur :) Ég fann það allaveganna á mig þegar ég var mitt á milli þess að vera barn eða unglingur.. flott að nota það svo aftur þegar maður lendir aftur í þessari krísu að vera mitt á milli unglings og fullorðins.  En ég ákvað nú að nota þetta tækifæri hér og óska þér til hamingju með daginn.. veit ekki alveg afhverju ég man alltaf afmælisdaginn þinn en svona er þetta bara :) Ég var allaveganna svo vön því að vera sú EINA sem átti afmæli í janúar og svo komst þú fast á hæla mér.. ótrúlegt samt að vera orðin 28..sjitt.. en auðvitað langt frá því að vera eitthvað fullorðin.. iss piss.

Kv. Ásta Kristín

Ásta Kristín (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 13:28

13 identicon

Blessaður Helgi venör!

Hamingjuóskir með afmælisdaginn!!! Þú eldist furðuvel...eða ertu kannski farinn að laumast óþarflega mikið í efnin hjá sminkunum? Gaman að lesa pistlana þína...bara meðan þú lætur vera að opinbera ýmislegt sem þið Ómar hafið brallað saman í gegnum tíðina. Sumt er best ósagt, amk. á veraldarvefnum! En hafðu það gott kallinn okkar.

"Prins-Póló-kveðjur" að austan... Ómar, Sunna, Draumey og litla snót 

Ómar (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband