Ástir fullorðinna - Flug 413

Þegar ég var polli bjó ég í Kópavoginum en ferðaðist reglulega austur á Reyðarfjörð og heimsótti fjölskylduna mína - þann helming sem ekki bjó í Kópavoginum.

Ég flaug auðvitað - eða ferðaðist með flugvél réttara sagt - og þar sem ég fór oft einn þá var mér oftar en ekki komið í sæti hjá einhverjum fullorðnum sem næsta klukkutímann eða svo veitti mér missmikla athygli.

Aðeins einu sinni notfærði sér sessunautur minn sér að vera með ljóshærðan sjö ára strák við hliðina á sér. Og það gróflega.

Ég var sérlegur áhugamaður um flugfreyjur á þessum árum. Fannst þægilegt að hafa þær nálægt mér. Alltaf ofboðslega góð lykt af þeim auk þess sem þær brostu alltaf svo vinalega til manns. Svona hlýlega eitthvað. Svo gáfu þær manni nammi, óumbeðnar.

Mér fannst þær líkast til sætar og aðlaðandi.

En þar sem ég var á þeim aldri að mér þóttu stelpur almennt leiðinlegar grenjuskjóður og fullorðnar konur svona eins hershöfðingjar með allan sinn boðhátt, að ég hefði aldrei viðurkennt að einhver úr þeirra liðum væri sætur. Hvað þá aðlaðandi - það orð þekkti ég heldur ekki.

En ég féll fyrir flugfreyjum. Sumar kysstu mann svo líka bless við landganginn og það toppaði allt. Ég er ekkert að tala um sleik hérna, bara svona einn ilmandi mjúkan á verðandi rauða kinnina.

Í þessu tiltekna flugi frá Egilsstöðum til Reykjavíkur tók á móti mér flugfreyja um þrítugt. Sæt og lyktin af henni góð - Chanel no 5, eða rás 5 eins og einhver kallaði það.

Hún vísaði mér til sætis hjá manni sem var á svipuðum aldri og hún. Sölumaður að koma Austfjarðarúntinn. Hafði selt hóteleigendum eystra hreinlætisvörur í tonnatali og var því nokkuð góður með sig.

"Hann Helgi ætlar að sitja hjá þér, er það ekki í lagi," sagði hún og horfði til skiptis á okkur báða.

"Ekki málið," sagði sölumaðurinn og hjálpaði mér að spenna á mig beltin. Þurfti þess samt ekkert þannig að ég tók af honum beltin eftir vandræðalega tilraun hans og spennti þau sjálfur.

"Ég heiti annars Jón," sagði hann hálf snúðugur um leið og hún hafði sent okkur síðasta brosið áður en hún fór að flytja ræðuna sína um björgunarvesti og neyðarútganga.

Hann bauð Tópas og ég þáði allan pakkann.

Þegar flugfreyjan hafði lokið við að skenkja kaffi og svala. Kom hún til okkar.

"Jæja Helgi, hvernig hefurðu það," sagði hún og beygði sig niður til að horfa beint í augun á mér.

"Ba, bara fínt alveg sko."

Ég ætlaði eflaust að segja eitthvað meira þegar hún pírði aðeins augun og brosti meira. Ég ákvað að þegja bara og horfa. Þefa kannski aðeins af ilmvatninu.

Jón mælti fyrir okkur báða þegar hann spurði hana að nafni.

"Sigrún," sagði hún og leit í átt til hans.

Ég man ekki hvað kom næst en alla vega vissi ég ekki fyrr en Sigrún var sest á armpúðann hjá mér og var farinn að tala við Jón.

Hún sagði honum aðspurð að hún ætti engan mann. Hún átti heldur ekki börn en hafði alltaf dreymt um það.

"Ég er ekki sú heppnasta í þessum málum," bætti hún við og lét fylgja með svip sem eingöngu fórnarlömb eiga á lager.

"Ég elska börn," sagði Jón og brosti út í loftið en bætti svo við hálf vælandi. "Ég hef bara ekki enn fengið tækifæri til að finna þeirri ást minni stað."

Svo klappaði hann mér fast á kollinn svo mér svelgdist á svalanum.

Ef ekki hefði verið fyrir lætin í hreyflunum þá hefðum við Jón þarna hlýtt á sónötu flutta af eggjastokkum flugfreyjunnar.

Jón gekk á lagið.

Hann talaði eitthvað um að trúa ekki á ástina eins og hún birtist honum og svo eitthvað um að hann hefði ekki fundið þá einu réttu. Hefði verið svikin af konu sem lét falla á hann víxil og flutti svo til útlanda.

"Ég orðið erfitt með trúa því að fólk geti verið ástfangið af hvort öðru. Hjá mér hefur þetta meira verið svona einstefna," sagði hann og gætti þess að leggja áherslu á orðið einstefna.

Jón horfði til skiptis á hana og ofan í kaffibollann sinn. Hálf flóttalegur; svona eins og þegar maður sagðist ekki eiga áttu í veiðimann en átti hana samt - jafnvel þrjár.

Hún brosti vandræðalega þegar hann sló henni næst gullhamra á minni línu: "Það er svakalega góð lykt af þér."

Þjófur. 

Þetta bros hennar var óundirbúið og ekki vinnubrosið sem notað er með "meira kaffi." Til marks um það þá mynduðust broshrukkur á stöðum sem ekki áttu að birtast í andlitinu á henni, svona varanlegar. Meikið sá til þess.

Ég veit ekki hvort það var Tópasið, ruglið í sölumanninum eða jafnvel ilmvatnið. Alla vega varð mér skyndilega eitthvað ómótt.

Flugreyjan stóð upp lagfærði pilsið og færði flugstjóranum kaffi.

Sölumaðurinn gaf sjálfum sér fæv í huganum.

Á meðan skilaði ég Tópasinu í ælupokann með myndinni af blóminu á og velti fyrir mér hvers vegna blóm?

Þegar ég hafði svo lokið mér af kom hún til baka. Ég er viss um að Jón hafi séð hana áður en hún sá okkur en skyndilega fór hann aftur að veita mér athygli. Dró tissjú úr vasa sínum og tók við ælupokanum meðan ég þurrkaði tópasleifarnar úr andlitinu.

"Svona vinur," sagði sölumaðurinn röggsamur um leið og hann sýndi færni sína í ummönnun barna - óumbeðinn. "Hann var eitthvað slappur vinur okkar en ég náði að afstýra stórslysi með því að koma þessu í pokann," bætti hann við og beindi orðum sínum til flugfreyjunnar.

Helvítis fíflið.

Þrítuga einhleypa flugfreyjan þurfti ekki meir og næst þegar hún gekk framhjá okkur til að aðgæta um sætisbökin og "borðin fyrir framan ykkur" færði hún mér servéttu og læddi annarri til Jóns sölumanns.

"Bingó," sagði Jón, svona eins og hann hefði selt Hótel Búðareyri þrjátíu lítra af gólfbóni um leið og hann stakk servéttunni sinni í brjóstvasann - með símanúmerinu hennar.

Vélin lenti svo á Reykjavíkurflugvelli stuttu síðar og flugfreyjan bauð okkur velkomin til Reykjavíkur með sömu rödd og flugfreyjur nota þegar lent er eftir tólf tíma flug. Ferlega fegin að vera komin.

Hún kyssti mig ekk bless en Jón stal einum á leiðinni út í rigninguna.

Helvítis melurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Orri Harðarson

Stórskemmtileg saga og stílbrögð mér að skapi.

Orri Harðarson, 21.3.2007 kl. 23:25

2 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Helgi, við höfum báðir flogið töluvert milli þessara tveggja merku staða. RVK-EGS, hehe

En aldrei hef ég lent í eða heyrt jafn svakalega krassandi dæmi, eins og þú ert að lýsa hér að ofan.

Sagan er gargandi snilld !!! 

og það sem merkilegra er, er hvað minnið hjá þér fyrir smáatriðum er nákvæmt, miðað við að langt er um liðið.

Ingólfur Þór Guðmundsson, 21.3.2007 kl. 23:43

3 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Snild, hvenær kemur bók frá þér. Stíllinn mjög góður. Mikill húmor.

Tómas Þóroddsson, 22.3.2007 kl. 00:41

4 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

hehehe les maður biturleika á milli línanna og jafnvel afbrýðissemi

Vona samt að þessi reynsla hafi ekki markað þig seinna meir í samskiptum við hitt kynið

Guðmundur H. Bragason, 22.3.2007 kl. 00:42

5 Smámynd: Jens Guð

Ég skemmti mér konuglega við lesturinn, 

Jens Guð, 22.3.2007 kl. 02:07

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú ert nátturlega jafn lyginn & þú ert ljódur & líklega frekar kjarkmikill að zegja helvíztiz 'melurinn', vitandi um að fólkið á Mel tekur þetta náttúrlega bara til zín.  En dézkoti zkrifar þú nú zkemmtilegar frázögur, kúdurinn minn..

Z.

Steingrímur Helgason, 22.3.2007 kl. 02:28

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Snilldarblogg.  Hlýleg, ljóslifandi og yndislega skemmtileg saga.  Þvílík dramatísk undirliggjandi spenna í þessum þogla bardaga keppinautanna um ástina.

Þetta finnst mér skemmtilegustu bloggin.  Ekki laust við nettan Þórberg þarna.

Takk fyrir þetta Helgi. 

Jón Steinar Ragnarsson, 22.3.2007 kl. 05:44

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hmmm?  Ég sé að þú brúkar sama format og ég en ég er í vandræðum með hvernig ég á aðbirta bloggvinalistann minn.  Áttu einhver ráð? Væri vel þegið inn á gestabókina mína eða meilinn ef þú getur og mátt vera að.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.3.2007 kl. 05:48

9 identicon

takk fyrir skemmtilega lesningu þó ég sé hætt að trúa orði af því sem þú skrifar eftir dreifbýlislygasöguna þína :D

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 08:54

10 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Þetta var bara svind. Það var loksins þegar ég var orðin amma að það fóru að birtast sætir strákar sem flugþjónar í innanlandsfluginu. Angandi af Puma rakspíra. Hefði það verið fyrr hefði ég kannski notfært mér að vera pínulítið flugveik eða ... Þú heldur bara áfram svona vinur minn og fyrr en varir verður komin út bók sem mun heita Rey.

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 22.3.2007 kl. 10:14

11 identicon

Hún á auðvitað að heita 730 er það ekki?

Jón Knútur Ásmundsson (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 11:26

12 identicon

Get ekki orða bundist yfir þessum fallega prosa,eitthvað svo myndrænt,ljúfsárt.Þú ert "nettur"penni,haltu áfram eins og þú átt ætt til.Einhvernvegin var maður samferða sem áhorfandi í þessu flugi.Það er bara gaman að fylgjast með þér drengur.Langbrókin.

Hallgerður langbrók (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 11:55

13 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er frábær saga, var alveg komin með flugvélahávaðann í eyrun, ég hefði kannski frekar átt að fljúga til Egilsstaða í den frekar en til Húsavíkur, man ekki eftir neinu svona spennandi í þeim ferðum, man eiginlega mest eftir ókyrrð og hræðslu, en þetta er stórgóð lýsing á lóðaríi fólks á fertugsaldri, varstu annars búin að heyra hver besta getnaðavörn flugfreyja er?? þvo af sér meikuppið -- æææ soldið grimm

Ásdís Sigurðardóttir, 22.3.2007 kl. 12:26

14 identicon

Helgi, þú ert þvílíkur snilldarpenni!! og segir svo skemmtilega frá enda af skemmtilegu fólki kominn í báðar áttir.

Ég sá alla söguna fyrir mér þegar ég las hana. Eins gott að það var ekkert grófara í þessu en einn koss við landganginn því jafn siðsöm stúlka og ég hefði átt erfitt með að ímynda sér eitthvað meira.

Ásta (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 12:56

15 Smámynd: Hákon Unnar Seljan Jóhannsson

góður

Hákon Unnar Seljan Jóhannsson, 22.3.2007 kl. 14:07

16 identicon

Piff,

Þú hefðir betur fengið kossinn drengfjandi

Jón (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 14:21

17 identicon

Það er ljóst að þú þarft að hætta þesu fréttastússi og einbeita þér að því að skrifa bók.

Grétar Amazeen (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 16:29

18 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Það var alltaf einhver karl ugla sem var flugþjónn þegar ég flaug þessa leið.

Ekki hálft varið í flugið....

Júlíus Sigurþórsson, 22.3.2007 kl. 17:53

19 identicon

Frábær saga. Gaman að því að jafnvel litlir strákar hugsa "jákvætt" um flugfreyjur, þó þær séu í flestum tilfellum stelpur(á öllum aldri).

Takk fyrir góða sögu. 

Flugfreyja

Hulda Björk Georgsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 11:47

20 Smámynd: Guðlaugur Kristmundsson

Gargandi snilld. Ég vinn sem flugfreyja og ætla pottþétt að nýta mér þetta servíettudæmi. Bingó!

Guðlaugur Kristmundsson, 23.3.2007 kl. 13:59

21 identicon

 flott saga kútur kveðjur frá draumalandinu 730.(ÉG HATA JÓN LÍKA)

Heiðar Már (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband