Það er að gerast gott fólk!

Í dag eru einhverjir tveir mánuðir til kosninga.

Nýtt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá mun samkvæmt spá minni verða til þess að hér verður sama umræða í aðdraganda kosninga og var fyrir fjórum árum.

Það verður sem sagt rifist um fisk.

Mér heyrist línan á vinstri kantinum benda til að þar telji menn ákvæðið ekki gera annað en að stjórnarskrárbinda kvótakerfið. En það vilja vinstri menn og konur ekki sjá. Línan á miðjunni og áfram yfir til hægri er hins vegar sú að með ákvæðinu sé þjóðinni tryggð eign á náttúruauðlindum öllum - þó ekki þannig að eignarréttur manna sé skertur.

En það verður sem sagt rifist um fisk fyrir þessar kosningar gott fólk - já fisk.

Hver eigi hann hver megi hafa hann hver eigi að taka hann hver eigi að borða hann?

---------------------------

Fyrir fjórum árum skrifaði pabbi einhverrar Idol-stjörnunnar og þáverandi forstjóri ÚA bréf þar sem hann sagði næsta víst að hungursneyð vofði yfir starfsfólki á gólfinu í frystihúsunum og dekkjunum á togurunum ef fyrningarregla vinstri-mann fengist fram á alþingi - á tímabili var reyndar óttast að sömu tillögur væru bara ekkert á leiðinni fram úr ermum sömu vinstri flokka en það er annað mál.

Vinstri menn komust þó aldrei lengra með fyrningarhugmyndir sínar en sem umvafða loðnu orðfæri í eigin kosningabæklinga.

Hér var því "óbreytt ástand sem betur fer," eins og einn útgerðarmaðurinn orðaði það í hátíðarræðu eftir kosningar.

Síðan hafa margir hætt hjá ÚA en engin vegna róttækra breytinga í fiskveiðistjórnunarmálum; Akureyringar hafa orðið sömu áhyggjur og Ísfirðingar höfðu þegar Akureyringar keyptu stóra útgerð Ísfirðinga en áður höfðu Ísfirðingar keypt af öðrum kaupstað og svo koll af kolli.

Niðurstaða umræðna um sjávarútveg í síðustu kosningum var sem sagt engin. Hnútukast um handfærarúllur og smábáta sem ég veit ekki til að hafi nokkru skilað. 

Egill Helgason sat sveittur og undrandi með viðmælendum sínum sem fóru leikandi með umræðuna út á Þórsbanka og til baka niður á Alþingi með viðkomu í litlu sjávarplássi.

Forstjórinn að norðan er ekki lengur forstjóri ÚA/Brims.

Hann starfar nú hjá Mjólkursamsölunni þar sem allt lítur út fyrir að hann þurfi ekki að skrifa bréf til starfsfólks sín og vara það við yfirvofandi breytingum á starfsumhverfi þeirra.

Hann sofnar áhyggjulaus á kjördag.

En það verður sem sagt rifist um fisk þessar kosningar. Fjölmiðlamenn þurfa að fara að skerpa á þekkingu sinni í veiðum með línu og net. Vita mun á trolli og nót. 

Sting því upp á hópferð fjölmiðlamanna á einhverjum Grandatogaranum næst þegar hann er í landi. Fín aðstaða um borð í Örfiriseynni fyrir fyrirlestra og sjóvinnu - er hún annars ekki enn á landinu? Svo væri ekki slæmt að fá helgarnámskeið í framhaldinu um framsal, aflaheimildir og línuívilnun. Vísindaferð í Hafró og sjávarútvegsráðuneytið og kaffi niðrí LÍÚ og þaðan beint til Arthúrs og hans manna hjá smábátasjómönnum.

Guð veit að við munum þurfa að notfæra okkur þessa þekkingu þegar slorslagurinn byrjar.

Áhugasamir fjölmiðlungar skráið ykkur í athugasemdakerfið. Sérstaklega þú Sigmar minn. Þú veist ekkert um fisk, ef frá eru talin sílin í bæjarlæknum í Garðabæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Það er rétt Helgi það verður rifist um fisk, og um stjórnmálamenn sem eru eins og þorskar á þurru landi þegar kemur að fiskveiðum. Það er verst að hvorki Egill Helgason eða annar þáttastjórnandi hefur getu til að kryfja málið. Ég mæli með að þú takir einn Kastljós þátt eða svo í málið. Þetta þolir enga BIÐ...

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 10.3.2007 kl. 16:41

2 identicon

Mér þykir fiskur vondur.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 16:52

3 identicon

Það er alltaf gott að rífast um fisk, almenningur veit að hann er mkilvægur en ekki hvers vegna og skilur ekkert í umræðunni. Mun betra að rífast um svoleiðis en eitthvað sem almenningur hefur skoðun á og skilur ;)

http://blogg.visir.is/lara

Lára Ómarsdóttir (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 22:54

4 identicon

    Ákvæði um þjóðareign á fiski í stjórnaskrá.  Mér þótti undarlegt að sjá og heyraí þætti þínum með Einari Oddi og Össuri,  þegar Einar Oddur gaf þá yfirlýsinu um að þetta ákvæði væri marklaust, en samt ætlaði hann að styðja það yrði sett í stjórnarskrá.  Mín hugsun hefur verið sú að stjórnarskráin, ætti að vera fáorð rökvís og auðtúluð.   Mín skoðun er sú að Einari sé ekki sætt, að styðja þessa breytingu, hef þá í huga eiðstaf sem hann hefur gengist undir sem alþingismaður. 

   Helgi þú varst ekki nógu harður við hann, ekki láta hann endalaust komast upp með bullið, sem hefur runnið upp úr honum til fjölda ára.

    Fiskveiðistjórnunarkerfið var sett upp sem fiskverndunarkefri í upphafi, en megintilganur þess er og var peningarstjórnunarkerfi.  

    Nú rúmun 2o árum seinna hefur enginn fiskstofn á Íslandsmiðum vaxið, nema ef skyldi vera síld   Jafnstöðuafli þorsk var um 300 þúsund lestir í í áratugi fyrir setingu kvótakerfis.  Að ætla sér að stjórna afla í gegn um hafnarvogir, eða útreikning á nýtingu afurða sem mælikvara hvað veitt er fjarstæðukend.  Það vita allir sem nálægt fiskveiðum og vinnslu, að afli hefur verið stórum meiri en hefur komið í land.  ´Brottkast og flokkun á fiski út á sjó, þar sem ákvaða hvað sé hæft til að koma með landi er auðskylin, þegar um takmarkaðar heimildir er um að ræða. Einnig þo kvóti sé nægur, er mun meiri arðsemi, að leigja frá sér heimildir, heldur en eyða þeim í verðryran fisk.

     Núverani fiskveiðasjórnuarkerfi hefur virkað sem peningstjórnunarkefi, en fiskvernd´hefur verið enginn, skylað fleiri störfum í eftirlit og skrifræði. mín tilllaga er ap ef eigi að hugsa um sem mestan fjárhagslegs ávinnings af fiskistofnunum, sé einfaldlega að leggja niður alla útgerð á Ísalndi, og bara leigja kvótan til Efnahagsbandalagsis, og láta Spánverja og aðra sjá um að veiða. Þetta gera Grænlendingar og stórar greiðslu fyrir veiðiheimildir við Austur Grænland fyrir fisktegundir, sem hafa ekki veiðst þar í áraraðir.

   Við setningu fiskveiðistjórnunarkerfisis, fynnst mér eins og stjórnvöld hafi farið í smiðju til félagg Stalins, um hagkvæmi stærðarinnar, er hann kom á samyrkjubúunum í Ráðstjórnarríkunum, og til Hitlers sáluga, sem leyfisbatt alla atvinnustarfsemi í þúsund ára ríkinu, og hafði þvi kontról á öllu.

    Eg hef ekki séð alla mun á vinsti og hægri mönnum varðandi fiskveiðisjk. og er mín tilllaga að þú takir með þér stjórnmálamenn, og þá sérstaklega þá yngri með þér á fyrirhuguð námskeið.

kv. boll

Bolli Bollason (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 00:21

5 identicon

Ég hef staðið við loðnufæriband, pakkað humri og flakað kola. En þegar ég reyndi að ráða mig á togara þá endaði ég í fjölmiðlum í staðinn... Ef þú fréttir af einhverjum á næstu vetrarvertíð sem er til í að hafa konu um borð, þá læturðu mig kannski vita. 

Reynum að fá Gissur sem leiðsögumann í hópferð fávísra fjölmiðlamanna um fiskveiðistjórnunarkerfið, þá erum við vel sett.

herdís (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 02:43

6 Smámynd: Valdimar Gunnarsson

Ég held nú satt að segja að frekar verði rifist um fiskveiðar en fisk. Það er hins vegar eðlilegt (nei, reyndar mjög óeðlilegt) að fréttamenn skuli gata á þessu - hér hefur það ekki tíðkast að fréttamenn þurfi að hafa vit á því sem mestu máli skiptir. 

Fiskveiðistjornun er eitt - efnahagsstjórnun annað, kvótakerfi er eitt og óbundið framsal veiðiheimilda annað.  Niðurstaða mín eftir að hafa fylgst með þessu frá upphafi er sú að þeir sem settu þessar reglur í upphafi hafi stjórnast af:

    a) vanþekkingu á afleiðingum þess að gefa framsal veiðiheimilda frjálst

eða

    b) fégræðgi - af því þeir sáu möguleika sína eða sinna að hagnast stórlega á þessu nýja kerfi.

Hvorug ástæðan er góð og ég held að þetta ákvæði í stjórnarskrá breyti engu, það segir einfaldlega að óveiddur fiskur sé þjóðareign en samt sem áður megi alls ekki koma í veg fyrir að þeir sem hafa hingað til grætt á því að veiða hann geti haldið áfram að græða á því. 

Valdimar Gunnarsson, 11.3.2007 kl. 11:27

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Stjórnarskrárákvæðið er oxymoron.  Ef ekki er rifist um fisk þá hefur það litla þýðingu að rífast um annað. Fiskur er enn drifkraftur okkar, þótt hlutfalla hans af þjóðartekjum sé minni í hlutfalli við ört vaxandi greinar, sem aftur á móti eru ávöxtun þess auðs, sem upphaflega var dreginn úr sjónum.  By the way...við þurfum ekki einu sinni að draga hann úr sjónum lengur.  Hann er að fullu veðtækur, þar sem han er.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2007 kl. 19:45

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er rómantískt að sjá litlar en blómlegar sjávarbyggðir þar sem trillurnar og aðrir smærri bátar koma að landi færandi björg í bú. En ef við skoðum sögu útgerða fyrir kvótakerfið, þá kemur í ljós frekar döpur mynd. Trillukarlarnir voru kannski með hor í nös og í gatslitinni og óhrjálegri lopapeysu og útgerðamógúlar í stærri kantinum hlupu með skjalatöskuna, sem vel að merkja var ekki full af peningum, á milli pólitískra bankaráða og alþingismanna á Austurvelli. Þá varð pennastrikið hans Alberts heitins Guðmundssonar frægt. Bæjarútgerðir o.fl. fengu "fyrirgreiðslu".

Fyrir mig og 96,5% þjóðarinnar, sem aldrei ætlum í útgerð og fyrir alla þá sem geta hugsað sér að starfa til sjós eða vera í störfum tengdum sjávarútvegi, held ég að besta afkoman út úr þessari atvinnugrein, fyrir alla, sé að atvinnugreinin sé í höndum þeirra sem bestu ná út úr henni. Aðeins þannig geta sjávarafurðir verið sá stólpi í samfélaginu sem okkur flestum finnst að þær eigi skilið að vera.

Í stað þess að þurfa að vera með "sértækar" aðgerðir hér og þar, styrkja þessa og hina, pennastrik eins og eftir óðan leikskólakrakka, þá er greinin að skila arði. Við meigum ekki gleyma því að á því byggist þetta allt, að sem flestir skili sæmilegri framlegð. Á því byggjast kjör okkar til langframa.

En ef ekki er hægt að stunda útgerð í dag sem áður var, þá kemur náttúrulega stóriðjan sterk inn ef orkugjafar eru í þægilegri fjarlægð....... en það er önnur saga  

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2007 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband