Útvarp Reykjavík, Útvarp Reykjavík.

Orðinn góður af helvítis kvefinu.

Kíkti á Ölstofuna eftir vinnu á föstudag með gítarhetjunni Ágústi, heilbrigðisráðherra Popplands.

DV-liðar á staðnum að fagna nýju blaði. Við Gústi blönduðum okkur í hópinn enda báðir fyrrum meðlimir í hópi "stigamannanna í stigahlíð," eins og ónefnd fyrrum þula kallaði stassjónina í Skaftahlíð um þeð leyti sem tengdasonur hennar var handtekinn og mynd af honum birtist á forsíðu blaðsins.

Mér fannst fyrsta blaðið fínt. Skemmtilegir feature-ar og viðtalið við Ragnheiði Ástu skemmtilegt. Ragnheiður Ásta er nú bara einu sinni Ragnheiður Ásta og því má alveg taka viðtöl við hana oftar en á tveggja þriggja ára fresti. Spurning um nýjan bakgrunn samt á myndinni - þó Jón Múli heitinn sé auðvitað nauðsynlegur þarna.

Ég hef tvisvar í seinni tíð orðið star-struck:

Í fyrra skiptið þegar vatt sér að mér myndarleg eldri kona á göngum RÚV; kyssti mig, bauð mig velkomin og kynnti sig sem Gerði G Bjarklind. Í hitt skiptið þegar Starri, fyrrum bassaleikari Jet Black Joe, heilsaði mér upp á RÚV og sagðist vera tökumaðurinn minn í dag. Eftir þetta treysti ég mér hreinlega ekki til að hitta Ragnheiði Ástu, alveg strax.

Oddrún Vala og Aggý væru kannski vísar til að halda í höndina á mér ef slíkt gerðist?

Jón Ársæll var á Ölstofunni á föstudag með myndavélina að undirbúa þátt um þá Kormák og Skjöld. Þeir félagar verða ekki aðskildir nema með erfiðri aðgerð og því held ég að þeir tveir séu fyrsta tvíeykið, sem ekki er gift, sem Jón fjallar um. Athafnamenn í straujuðum hnésokkum, þar á ferð. Ágætis tilbreyting frá teinóttum.

Stórskemmtilegir heiðursmenn báðir tveir en samt held ég að þáttur þeirra toppi ekki þátt Diddu skáldkonu frá því fyrir stuttu svo auðveldlega.

Didda var líka á Ölstofunni og hvíldi þreytta vöðva eftir sorphirðu jóla og áramóta. Didda er alvöru fólk. Er að mér skilst núna hryggjastykkið í sorphirðuflokkum borgarinnar og þar að auki orðinn fulltrúi starfsmanna í Mannréttindanefnd borgarinnar, hafi ég skilið þetta rétt.

Diddur mættu almennt vera fleiri í stjórnkerfi ríkis og borgar.


"Þú ert ungur enn..."

Held áfram að lesa um ástir og örlög Alþýðubandalagsins í bók Óskars Guðmundssonar.

Fyrir nokkrum árum heyrði ég fréttamann á kosninganótt telja upp nýja þingmenn. Hann endaði upptalninguna á orðunum: "Svo eru þarna ungt fólk eins og Mörður Árnason og........."

Mörður Árnason var fimmtugur þegar þessi orð hrukku af vörum kollega míns.

Nýverið heyrði ég að Mörður, þá 14 ára, hefði verið barinn í hausinn af lögreglumanni í mótmælum.

Mótmælum sem ég efast ekki um að hafi snúist um Kalda-stríðið sem við unga fólkið vitum auðvitað ekkert um - enda andrúmsloft þeirra ára annað en í dag.

Hugsanlega minna súrefni í andrúmsloftinu?

Nú en án þess að ég vilji nú tengja þetta atvik við það sem greint er frá í bók Óskars, þá er þetta bara dæmi um eitthvað sem hátimbraðir myndu kalla "leiftrandi skemmtilega frásögn." Ég kalla þetta fyndið. Í bókinni segir á blaðsíðu 163:

"Þjóðviljinn var og vettvangur fyrir unga fólkið lengst af. Þó slæddust einstaka ungmenni inn í Alþýðubandalagið eða á jaðar þess. Til dæmis að taka var Mörður Árnason kosinn formaður Æskulýðsnefndar Alþýðubandalagsins 1973. Hann er enn hálfum öðrum áratug síðar, meðal yngstu og efnilegustu manna í Alþýðubandalaginu."

Óskar gefur bók sína út árið 1987. Nú tuttugu árum seinna, má segja - útfrá orðum fréttamannsins í síðustu kosningum - að Mörður Árnason sé og hafi verið einn af yngstu og efnilegustu þingmönnum landsins.

Svo er bara að sjá hvort annar efnilegur og ungur hlýtur brautargengi eða ekki?

Þegar stórt er smurt.


Ammavis

Búinn að liggja veikur í dag.

Drekk verkjalyf með berjabragði. Þegar ég var lítill - sem er fyrir svo löngu að þá stjórnuðu þessu landi stjórnmálaflokkar sem ég get ómögulega munað hvað hétu - gaf amma mér magnyl (borið fram Maggníll) sem hún muldi í teskeið og setti vatn útí, svona svipað og menn hafa séð oft í fréttaskýringaþættinum Kompás. Amma var þó með magnýl.

Amma hefði getað verið framan á Frjálsri Verslun í stað Róberts Wessman, Actavis-forstjóra og lyfjarisa, ef hún hefði bara fattað að mylja magnyl í bréf sem hún hefði síðan selt sem kvefte.

En amma - réttara sagt ömmur mínar báðar - eru nægjusamar konur sem gera ekkert tilkall til forsíðu Frjálsrar Verslunar - eða annarra forsíðna ef því er að skipta.

Skellti hérna inn myndbandi með Eminem sem eftir því sem mér er sagt fékkst ekki sýnt á MTV sjónvarpsstöðinni. Einhver gæti haldið að pólitík valdi því en ég hef aðra kenningu: Það eru engar naktar "bitsjess or hós" í myndbandinu. Heimir Jónasson þeirra MTV manna hefur einfaldlega sagt við Eminem: "Þetta gengur aldrei eyrnapinninn þinn. Þetta er ekki nógu sexý."


Á að senda pabba disk?

Kominn suður.

Ármótin voru helvíti fín og ballið á hinum áðurumbloggaða Kaffi Kózý hreint prýðilegt. Hittum fullt af fólki og líka helvítis kattarógeðið hennar mömmu. Ég er með ofnæmi fyrir slíkum kvikindum og því lít ég alltaf út eins ekkja með ekka, þegar þessi kvikindi eru nálægt mér.

Gistum eina nótt, flúðum kattarræksnið réttara sagt, í Seljateigi. Teigurinn er jörð afa og ömmu hvar laghentir meðlimir Seljan-slektisins hafa gert upp ríflega hundrað ára gamalt hús, þar sem áður bjuggu langafi og langamma.

Eðall að vakna í algerri kyrrð og sjá ekkert nema Grænafellið út um gluggann - jú og helsta smekkvirki Íslands þessa daganna, Fljótsdalslínur 3 og 4.

Las fram á nótt í bók Óskars Guðmundssonar, Alþýðubandalagið - Átakasaga. Bókin er frá árinu 1987 og rekur sögu kommúnista og mismikilla skoðanabræðra þeirra á Íslandi á síðustu öld.

Er að koma að þeim stað í bókinni hvar Jón Baldvin, pabbi hans og að ég held svei mér þá hálf fjölskyldan, gengur úr flokknum. Stuttu síðar gekk þar inn rakarasonur frá Ísafirði sem mér skilst að hafi farið í fýlu í einhverju samvinnupartí sem ég held að hljóti að hafa verið á Möðruvöllum. Hann er í dag einna þekktastur fyrir búsetu sína nyrst á Álftanesi - það er segja Bessastöðum.

Á blaðsíðu 109 í bókinni er frásögn frá því herrans ári 1964, en þá voru enn mörg ár í að ég yrði svo mikið sem slæm hugmynd. Þar segir:

"Sósíalistaflokkurinn tók einarða afstöðu gegn samningunum við Swiss Aluminium á sjöunda áratugnum. Í Þjóðviljanum rak Magnús Kjartansson málið með aðstoð og upplýsingum frá vísindamönnum eins og Sigurði Thoroddsen og Sigurjóni Rist." 

Fyrir þá sem ekki vita, er mér ljúft og skylt að færa þetta "kvót" í nútímasamhengi svo allir sem ekki ólust upp á kaldastríðsárunum - og skilja þannig ekki andrúmsloft þeirra ára eins og okkur er alltaf sagt - skilji málið.

Sigurjón þessi sem einnig er velþekktur sem vatnamælingamaður er faðir Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, þess fyrirtækis sem nú sækir að fá að stækka verksmiðju sína í Hafnarfirði.


730 - Reyðarfjörður

Kominn á Reyðarfjörð.

Fékk þrjá gamla vini í heimsókn í gær. Einn er nú vélstjóri en tveir stýrimenn; annar þeirra raunar skipstjóri á 3000 brúttótonna togara (segir það einhverjum eitthvað).

Ræddum sjó og sjómennsku og svona og drukkum bjór. Finnst ég gamall þegar ég sit og spjalla við vini mína og reglulega heyrist: Ég gleymi því aldrei þegar...

Fór svo á Kózý, Skemmtistað Reyðarfjarðar. Fámennt en góðmennt. Allir Pólverjarnir farnir heim yfir hátíðirnar; einn Reyðfirðingur meira að segja í Gdansk um áramótin með "vinkonu sinni". Annar í Afríku líka, með vinkonu sinni.

Sigldir þessir Reyðfirðingar.

Síðast þegar ég fór á Kózý var ég einn fjögurra "gamalla" Reyðfirðinga á staðnum, restin var útlensk og aðflutt. Fjórar konur voru á staðnum þetta kvöld en karlarnir nærri hundrað. Tvær kvennanna unnu á barnum.

Dansgólfið á Kózý er hið eina í víðri veröld þar sem karlar eru í meirihluta á gólfinu - held jafnvel að konur séu fleiri á gay-börum heimsins. Raunar væri nær að tala um einokun karla á gólfinu, kvenfólk hætti sér ekki mikið þangað það kvöldið. Ein hrasaði þó á leiðinni inn á staðinn og lentu á miðju dansgólfinu. Komst ekki þaðan fyrr en átta karlar í sjálflýsandi vestum höfðu mátað sig við hana í dansi.

Hún fór ein heim.

Ég lenti á spjall við ungan strák frá Póllandi. Sá hefur verið hér í þrjú eða fjögur ár og á þeim tíma náð þvílíku valdi á íslensku að Pétur Pétursson þulur má vara sig. Sökum þess hversu góðu valdi hann hefur náð á íslenskunni þá lætur nærri að 1000 af þeim 1600 pólsku verkamönnum sem hér eru hafi leitað til hans á þeim tíma.

Hann lagði kalt mat á það hvernig komið væri fram við landa sína hér fyrir mig. Einkunnin var 8,5. Flestir ef ekki allir fá borgað þokkalega og almennt er komið vel fram við þá. "Annars er þetta nú bara vertíð hjá okkur," sagðann við mig um leið og hann leiðbeindi landa sínum eitthvað á pólsku. Hann sagði mér seinna að landann hefði langað að segja: Rosalega eru augun þín falleg, við fjórðung kvennanna á Kózý.

Hann fór líka einn heim.

Daginn eftir var mér boðið í partí í húsi hér í Hæðargerðinu. Þar var einu sinni rekin vídeóleiga, ljósastofa og billiardsalur. Nú er búið að innrétta átta herbergi í húsinu með sameiginlegri eldunaraðstöðu. Þar búa nú átta Pólverjar. Hafi ég búist við því að finna myglaða bedda og afganga sem hent hefði verið í Pólverjana ásamt tíu krónum á tímann, þá hafði ég rangt fyrir mér.

Einn heimilismaðurinn, karl um fertugt, bauð mér inn í herbergið sitt. Þar var flatskjár, tölva með nettengingu og í raun engu líkara en maðurinn hefði verið að fermast viku fyrr.

Annars var þetta partí fljótt að breytast í risastóran viðtalsþátt undir stjórn Helga Seljan. Fyrir svörum sátu átta Pólverjar sem svöruðu öllu sem ég spurði þá að. Sýndu mér meira að segja launaseðlana sína. Bestu viðmælendur sem ég hef haft.

Gaman að bjóða mér í partí.

Í Ríkinu á Reyðarfirði, sem opnað var fyrir ári en hefur nú þegar verið stækkað um helming. Fæst bjór sem ég hef ekki séð áður. Tvær tegundir af Pólskum bjór standa á brettum við kassann, öllum öðrum bjór er raðað í hillur. "Það tekur því ekkert að raða þessum, það væri þá bara ein manneskja í því," sagði mér maður í Ríkinu í dag.

Ég hef fyrir satt að þessi bjór, sem eflaust er til bakatil í Heiðrúnu sé ekki bara mest seldi bjórinn í Ríkinu hér, heldur sé þetta eini staðurinn á landinu sem selji bjórinn.

Hef ekki smakkað hann, en strákarnir segja að hann sé þokkalegur. "Skítsæmó," minnir mig að vélstjórinn Atli Larsen hafi sagt í gærkvöldi.

Í dag birtist viðtal við mig í DV þar sem kalla grein Dr. Gunna um mestur krummaskuð landsins, og birtist í Fréttablaðinu í síðasta mánuði, mesta flopp ársins, eða eitthvað þannig. Þetta geri ég bara vegna þess að þessi grein svipti mig vinnu- og svefnfrið í nokkra daga. 

Ég, fjölmiðlamaðurinn, tók við leiðréttingum frá ósáttum. 

Degi eftir að greinin birtist í blaðinu höfðu þrír sveitungar mínir frá Reyðarfirði hringt í mig brjálaðir og aðeins í glasi vegna greinarinnar. Hér er orðrétt samtal sem átti sér stað í gegnum landlínu Símans klukkan fjögur að morgni mánudags.

Helgi:Halló.

Drukkinn sjómaður í löndunarfríi í Eyjum: Helgi. Hver er grh á Fréttablaðinu?

H: Ha? Hvað meinarðu? Afhverju ertu að spá í það?

D: Nei bara. Langar að vita það.

H: Ég held að það sé doktor Gunni.

D: Já var það ekki, helvítis vitleysingurinn þarna sem söng prumpulagið. (Símtólið tekið frá munninum og kallað. "Jú það var eins og þú hélst. Þetta var helvítis auminginn þarna úr prumpulaginu.")

H: Afhverju ertu að spá í það? Ertu fullur?

D: Hefur þú einhvern tímann fengið símtal frá mér á þessum tíma sólarhrings án þess að ég sé fullur?

H: Nei líklegast ekki.

D: Já, það mætti halda að þú værir fullur drengur. (Hóst og hóst. tekinn sopi og kveikt í sígarettu). En hvar býr helvítis maðurinn, þessi prófessor Gunni?

H: Það veit ég ekki maður.

D: Ég er nefnilega á leiðinni í bæinn og datt í hug að kíkja á hann með vini mínum frá Bíldudal. Hann er ekkert sáttur heldur, bræðurnir frá Bolungarvík sem eru hérna um borð hafa líka ýmislegt við hann að segja. Þeir eru ekki sáttir.

H: Aha þannig að þetta snýst um greinina þarna um krummaskuðin?

D: En ekki hvað. Hélstu að við ætluðum að gera okkur ferð í bæinn til að lemja manninn út af klæðnaðinum á honum?

H:Nei mér datt það svo sem ekki í hug. En hefurðu pælt í einu? Gunni kallar þetta "Mesta" krummaskuð Íslands. Mesta as in besta, skilurðu. Á ensku: greatest! Ég skil þetta þannig að Ísland sé hvort eð er eitt stórt krummaskuð en þar tróni á toppnum Reyðarfjörður. Svo var það nú ekki Gunni greyið sem valdi þetta. Hann var með hóp af álitsgjöfum.

D: Aumingjum bara. (sopi) Helvítis pakk.

H: Nei, nei. Sumt af þessum álitsgjöfum eru nú utan að landi. Frá stöðum sem enginn veit hvort heita Hella eða Hvolsvöllur, jafnvel ekki þau sjálf? Þetta var bara grín maður. Þú ferð ekki að lemja Gunna fyrir viðtöl við..(komst ekki lengra)

D: Aumingja bara. Helvítis pakk. Stórskrýtið helvítis lið. Viðrini!

H: En ég hef kosið að skilja þetta meira sem viðurkenningu fyrir Reyðarfjörð. Mestur skuða krumma Íslands.

D: Djöfull ertu ruglaður! (talar við félagann frá Bíldudal í tvær mínútur og útskýrir kenninguna sem fram að þessu hafði róað þrjá reiða Reyðfirðinga. Bílddælingurinn brjálast í miðri setningu sveitungans og öskrar: "Bíldudalur er miklu meira krummaskuð en Reyðarfjörður. Afhverju var Bíldudalur þá ekki efstur á blaði."

Símtalinu lauk eftir þetta. Bolvísku bræðurnir voru örugglega sofnaðir. 

Ég veit ekki til þess að Dr. Gunni hafi fengið heimsókn, nema þá ef Bílddælingurinn hafi bankað uppá hjá honum.

Dr. Gunni: Þú skuldar mér bjór!


Meistari Maggi

Rífið Mugison úr lopapeysunni og lækkið í gítarnum hjá Benna Hemm Hemm.

Hann er kominn. Trúbadorinn Maggi.

Hér til hliðar er músíkspilari með einu lagi, "stúlkan á barnum" með meistara Magnúsi Sigurðssyni.

Magnús þessi Sigurðsson er fjölhæfur listamaður. Hann á og rekur síðuna www.mkmedia.is en þar má finna fleiri lög með Magga ásamt vefsjónvarpinu hans og félaga hans Karls Vilhjálmssonar. Mæli með Kvöldþætti Stjána Stuð og Soffíu, í fjórum þáttum.

Maggi er ekki bara sjónvarpsstjóri heldur einnig texta- og lagasmiður í hæsta gæðaflokki. Þannig tekst Magga að koma fyrir í einu lagi helmingi meiri einlægni en B. Hemm Hemm og Mugison á öllum plötum sínum til samans - með fullri virðingu fyrir þeim.

En alla vega. Hlustið á þessa órafmögnuðu útgáfu Magga sem tekin var upp í þeim ágæta morgunþætti, Capone á X-FM.

Áfram Maggi!!


Þið munið hann Jósef - Helgispjall

Hvers vegna kalla menn Jesú Jósefsson?

Hann er sonur Guðs.

Án þess að ég sé vel að mér í biblíufræðunum þá hef ég tekið eftir því að lítið er talað um Jósef smið frá Nazaret í biblíunni, hans hlutverk þar er ámóta og hlutverk íslensku leikaranna í Flags of our fathers: Honum bregður fyrir í sögunni, á milli tveggja aðalpersóna. Maður sæi hann raunar ekki nema af því að maður leitar að honum. Svona eins og þegar Björgvin Franz fer með fjölskylduna í bío. "Þarner ég!"

Samt er Jósef svo miklu meira efni í góða sögu en þeir sem njóta sviðljóssins á síðum Biblíunnar.

Hann ól upp barn sem hann átti ekki, og átti mun meira í Jesú en faðir hans sæðisgjafinn.

María varð þung án þess að hafa sjálf gefið leyfi fyrir getnaðinum. Krítískt mál sem án efa hefði geta endað fyrir dómstólum.

Svona gæti þetta hafa verið - ímynda ég mér:

Asninn silaðist áfram og María stundi við hverja veltu. Asnar hafa ekki samhæfða fjörðun. Hún fann að litla lífið sem kveikt hafði verið innra með henni, þetta furðulega kvöld fyrir níu mánuðum, var orðið stórt. Of stórt fyrir móðurlíf Maríu að minnsta kosti. Samviskan nagaði hana líka, og það skyldi hún enn síður. Ekki bað hún um þessa heimsókn, ekki bað hún um þetta skæra ljós á rúmgaflinum og þennan sting í maganum. Ó, nei. Hún reyndi hvað hún gat að verjast ljósinu í litla herberginu í Nazaret. En hver getur sossum sagt nei við æðri mátt? Enn ein ókærða, órannsakaða og óútkljáða nauðgunin fyrir dómstólum í mannkynssögunni var staðreynd.

Jósef gekk við hlið hennar og asnans og hugsaði um kúluna framan á konunni sinni. Hugsaði þannig sem enginn maður í föstu sambandi við konu vill nokkru sinni hugsa. Átti hann barnið? Var ef til vill minni en engin möguleiki á því að hann ætti gen í þessari kúlu.

Ekki bara að Jósef hafði ekki enn sofið hjá Maríu - feimni var þar einn helsti orsakavaldurinn - heldur var tímasetning getnaðarins óhugsandi.

Jósef hafði unnið allt þetta ár enda uppgrip í smíðunum. Hann hafði ekki komið heim eitt einasta kvöld án þess að kona hans væri sofnuð á undan honum. Og jafnvel þó Jósef væri gagnkynhneigður maður með sama grunnáhugasvið og aðrir slíkir, svæðið milli háls og hnésbóta kvenmannslíkamans, þá gat hann ekki hugsað sér vekja Maríu eitt einasta kvöld. Jafnvel daganna þegar strákarnir í vinnunni höfðu klæmst allan daginn og rifjað upp eigin atvik í eigin rúmum, þá leyfði hann henni að sofa.

Þess vegna gat þetta bara ekki verið hans barn. Svo mikið vissi hann, smiðurinn.

Staðfestingu á þessu fékk hann svo í fjárhúsinu um kvöldið þegar andlegir frændur blóðföðurins heimsóttu strákinn og gáfu gjafir. Jósef fékk enga. Ekkert nema fyrirlitningaraugnarráð þessara uppskrúfuðu gaura með sínar stórskrýtnu gjafir.

Óþolandi mont í þessum blóðföður þarna fyrr um kvöldið, hefur Jósef hugsað. Þetta ljósasjó yfir fjárhúsinu. Rollurnar trylltar og hænurnar nærri búnar að gogga úr barninu augun. "Týpískt hann," hugsaði Jósef og hvítti hnúanna. Það er erfitt að reiðast yfir framhjáhaldi konu sem maður hefur aldrei sofið hjá.

En af því að Jósef var umburðarlyndur maður, ákvað hann að minnast aldrei á staðfestar efasemdir sínar um faðerni barnsins.

Hann einsetti sér þess í stað að kenna honum list sína; smíðarnar. Blóðfaðirinn hafði ekki afskipti af Jesú fyrr en löngu eftir að bleyjuskiptin, fermingu og útskrift úr smíðaskóla lauk. Ekki króna í meðlög. Ekki svo mikið sem stuttur stans í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Allt var þetta á herðum Jósefs. María sem enn var haldin þessari sérkennilegu sektarkennd fórnarlambs kynferðisofbeldis, gat þó huggað sig við að stoltið birgði ekki manni hennar sýn.

Biblíulæsir menn segja mér að sú bók sýni glögglega fram á hvernig Jósef gleymdist. Jesú uppgötvaði smám saman að hann var öðruvísi en hin börnin. Gat ekki farið í sund og fleira sem börn hafa svo gaman af. En af því að hann var alinn upp af fólki sem dæmdi ekki þá gat hann þroskað með sér diktúrurnar og nýtt seinna.

Afganginn þekkja svo flestir. Jesú varð heimsfrægur í Mið-austurlöndum fyrir predikanir sínar og kraftaverk. Umburðarlyndið var þó það sem lengst lifir af verkum hans, þó auðvitað hafi blindir fengið sýn og holdsveikir endurheimt löngu týnda limi.

Sagan um portkonuna óheppnu sem grýta átti fyrir greiðasemi sína er eflaust besta dæmið um hvernig uppeldið, en ekki genin, mótuðu persónuna Jesú. Hefði Jesú verið sami sjálfumglaði exhibitionistinn og blóðpabbinn hefði hann eflaust látið grýta stelpuna til dauða. Mátt sinn og megin hefði hann ekki sýnt fyrr en hann hefði lífgað hana við með miklum tilþrifum. Í staðinn fór hann að dæmi föður síns; fyrirgaf portstúlkunni yfirsjónir sínar og benti öðrum á að lítill munur væri á hóru og hórkarli eða vændiskaupanda eins og feministar kalla þá (orðrétt snerist þetta reyndar eitthvað um grjótkast og syndir).

Ég held að Jesú hafi snúið baki við Jósef þegar pabbi hans fór að láta svo lítið sem hafa samband við strákinn. Þess vegna grét Jesú á krossinum á Golgata. Hann hefði betur haldið sig við smíðarnar, þá væri kannski séns að klaufhamar hefði verið í beltinu hans. Það hefði komið sér vel.

Nútíma kristsmenn vilja aldrei ræða um krossferðir og galdrabrennur. Þeir benda þess í stað á kærleikann og umburðarlyndið - hér er rót þeirra og uppruni:

Hvort tveggja kemur frá Jósef.

Restin; hún er frá Guði. Í það minnsta hefur hann ekki sýnt vilja sinn í verki síðan í syndaflóðinu þarna um árið, blessaður. 


Hér er ég, hér er ég!

Hér er bloggið mitt.

Mun ekki byrja að ráði fyrr en á nýju ári.

Sem sagt; götustrákarnir kunna nú á tölvur!

-hs

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband