Aldraða í bændagistingu?

Ég sé á vef Frjálsyndra að þar eru að koma fram fjölmörg framboð til ritara þó áherslan á formanns- og varaormannskosninguna sé meiri í fréttum, skiljanlega.

Einn frambjóðandinn kastar þó upp glænýjum bolta í umræðunni - raunar mætti segja að hann "djögglaði" tveimur. Hlakka til að heyra meira af þessum hugmyndum hennar. Hún segir, í kynningu á sjálfri sér og framboði sínu:

"Mínar aðaláherslur eru einkum varða ferðaþjónustu og málefni aldraðra, sem raunar má samþætta.”

    Skemmtilegt þegar nýjar og ferskar hugmyndir koma fram.


Magnús Helgi og "Stúlkan á barnum"

Var að setja inn nýja og rokkaðri útgáfu af lagi Magnúsar Helga Sigurðssonar, sjónvarpsstjóra og -stjörnu hjá MK-Media og bílstjóra hjá Osta- og Smjörsölunni. Skora á alla að hlusta á lagið - á góðum styrk, eins og stóð aftan á Geislavirkir plötu Utangarðsmanna.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að eyða hálfum degi á rúntinum með Magga í vikunni þegar ég og Benni pródúsent Kastljóssins tókum við hann viðtal.

Maggi er eins og fyrr segir bílstjóri hjá Osta- og Smjörsölunni og honum mega íbúar Árbæjar, Efra-Breiðholts, Grafarvogs, Mosfellsbæjar og Kjalarness, þakka nýja osta og smjör á hverjum degi - Maggi kemur ekkert nálægt álagningu á sömu vörur, enda væri þá ostur líklegast ekki munaðarvara.

Ég leyfi mér að fullyrða að Maggi sé einn allra skemmtilegasti viðmælandi sem ég hef haft; einlægur, opinn og laus við allt fals.

Ég hef nú ekki hingað til verið að tjá mig mikið um vinnuna mína enda tel ég hana segja sig nokkuð sjálfa. Nauðsyn brýtur hins vegar bæði lög og reglur. Ég plögga því hér:

Viðtalið verður sýnt í næstu viku ásamt því sem "Stúlkan á barnum" verður frumsýnt í íslensku sjónvarpi.

Fylgist með Magga gott fólk og endilega hlustið á lagið í spilaranum hér við hliðina; seinni útgáfan er sú nýja.

Ég lofaði því að skella hér inn "nýju" Guns´n roses lagi um helgina en get það ekki. Sorry Eiður minn að ég skuli láta þig bíða. Eitthvað helvítis pikkless í þessu hjá mér - dettur ekki í hug að kenna tölvunni um það. Og Orri fylgstu með Magga í vikunni, textaséní eins og þú ættir að þekkja snilldina þegar þú heyrir hana.


Showmennska

Þegar ég var yngri fannst mér fátt meira en sjómennska.

 

Sjómenn voru eins og rokkstjörnur í mínum augum. Kallarinir á fuglinum – eins og togarinn Snæfugl SU-20 var kallaður – voru mennirnir.

 

Þess tíma hermenn.

 

Í Bandaríkjunum halda menn oftar en ekki upp á 4. júlí með því að halda skrúðgöngu þar sem “old vets” eða fyrrum hermenn koma og sýna sig. Ungfrú-bærinn-sem-skrúðgangan-er-haldin-í er alltaf fremst. Síðan koma þeir sem skarta fötlun ýmiskonar úr hópi fyrrum hermanna – flestir í hjólastól. Þar næstir koma svo í þeirri röð sem þeir slösuðust; fyrri heimstyrjöldin (á undanhaldi) sú seinni, Kórea, Víetnam. Restina leiða menn með krabbamein úr Persaflóastríðinu. Hugsanlegt að Írak II menn séu nú aftast.

 

Svo koma þessir með fjólubláahjartað í barminum.

 

Á Reyðarfirði var haldið upp á fjórða júlí mánuði fyrr. Okkar dagur var fyrsti sunnudagurinn í júní.

 

Það var Sjómannadagurinn.

 

Það var samt engin skrúðganga. Bara sigling út fjörðinn með togaranum og mænt upp í áhöfnina sem annað hvort var fullorðin eða full. Þessir fullu voru skemmtilegastir. Það voru yngri gaurarnir sem mættu rakir í siglinguna svona eins og það væri upphitun fyrir ballið um kvöldið. Þeir töluðu hátt um kvenafar og slagsmál, sem mér fannst þá einu tveir hlutirnir sem skiptu máli.

 

Yfirleitt var siglingin næs og róleg. Rúntur út að afleggjaranum til Eskifjarðar og til baka. Einu sinni – og nú man ég bara eina solleiðis en þær gætu verið fleiri – var þó kapp. Þá höfðu nokkrir menn frá Eskifirði og Reyðarfirði keypt annan togara - Vökuna SU  - sem atti kappi við þann sem fyrir var.

 

Ég held að skipstjórarnir þann daginn muni þetta ekki sem kapp en það var það í mínum augum og Ómars vinar míns. Við unnum. Snæfuglin vann.

 

Reynslan sko.

 

Og svo var farið heim að fá sér í glas – það er að segja fullorðnir, börn drekka ekki – heima hjá sér allavega.

 

Svo var haldið ball. Það var þá sem maður vildi vera sjómaður. Sjá þá þarna fulla og flotta. Talandi um “höl” og “gaura sem lentu næstum í Gils.”

 

Gils taldi ég beljaka á þessum tíma. Manninn sem lemdi Binna sterka og tæki Benna í sjómann. Seinna kom í ljós að um var að ræða spilvír með krók á endanum.

 

Þeir áttu líka sand af seðlum og flotta bíla - ég vona að ég móðgi ekki konur þó ég segi að það hafi skipt máli á ákveðnu aldursskeiði með margra kynsystur þeirra að eiga bíl og þá helst með skammstöfuninni G, T, og I á eftir nafni bílsins.

 

Þeir voru almennt töff sjóararnir og til marks um það þá var það okkar unglingana að landa úr “togaranum” þegar við vorum komin í tíunda bekk og það þótti þvílík upphefð. Við slógumst næstum um það strákarnir að fá að vera í lestinni. Þaðan var fiskikössum lyft á bryggjuna af kranamanninum Lassa – Steini Þórhalls sagði honum til. Þaðan voru kassarnir flokkaðir eftir númerum í gáma – England eða Þýskaland.

 

Roðlaust og beinlaust.

 

Í lestinni, hvar fraus hor og sviti, átti harkan ein lögheimili – að okkar mati. Þar vorum við kannski ekki á sjó en samt um borð. Gengum frá borði þegar lestin hafði tæmst eins og í Dressmann-auglýsingu. Ekki laust við að stelpurnar litu öðruvísi á okkur á eftir. Svo fórum við á fyllerí með hálfa Kláravín og slógumst – svona eins og við héldum að sjómenn gerðu.

 

Að vinna í frystihúsinu eða bræðslunni var ekkert í líkingu við það að vera á sjó. Í frystihúsum voru líka allir með hárnet, í hvítum stígvélum og bláum frystihússloppum. Aldrei kúl. Lyktin sem festist við allt í bræðslunni virkaði heldur ekki á konur – aldrei.

 

Hell nei. Þar voru menn í fullvinnslu. Fokk ðet. Við vorum í frumvinnslu.

 

Svipað eins og munurinn á slátrara og pylsugerðarmanni.

 

 

Ég ákvað sem sagt snemma að verða sjómaður. Ég hafði farið á sjó með pabba þegar ég var polli meðan við vorum með ömmu og afa í Flatey. Ekkert mál.

 

Svo kom stóra tækifærið. Ég var 16 að verða 17 og kominn í menntaskóla.

 

Snæfuglin á leiðinni í slipp til Akureyrar og það vantaði mann til að fara með og vinna smá um borð.

 

Ég var maðurinn.

 

Mætti um borð með plastpoka með smá fötum. Kæruleysislega kuðlaðan svona eins og ég væri nývaknaður af löngu fylleríi og pokinn hefði verið koddinn minn. En í raun hafði mamma tekið til fötinn í hann og rétt mér hann með kossi á kinnina og beiðni um að “fara nú í guðanna bænum varlega”.

  

Stelpur einu ári yngri en ég voru á bryggjunni búnar að taka þátt í löndun. Flokka kassanna sem strákarnir kraftadelluðust við að henda einhvern veginn á bretti í “lestinni”. Þær tóku til eftir testósterón köst strákanna.

 

Ég var ekkert lítill í sjálfum mér standandi framan við brúnna með landtógið í hendinni. Þær voru samt svo miklar gelgjur að þær föttuðu ekki að gráta á eftir mér – veifuðu samt og flissuðu bara. Það var nóg.

 “Þegar Stebbi fór á sjóinn þá var sól um alla jörð og hún sat á bryggjupollanum hún Lína. Grét í vasaklút og svuntuhorn og svartan skýluklút….” 

Ég man ég fylltist eldmóði þegar klæddi mig í gallann til að fara út að sleppa – leysa landfestar eins og aumingjar kalla það. Duggarapeysa og gúmmíbuxur. Hjálmur og fóðraðir gúmmívetlingar. Strigaskór voru þó látnir duga enda engin stígvel laus í réttri stærð.

 

Dressed to kill.

 

Sleppti eins og Sigurður sjómaður – bara ekki fullur.

“Og hann Stebbi úti á lunningu á lakkskóm svörtum stóð uppá Línu renndi karlmannlegum sjónum. Nei þeir kveðja ekki margir svona ást og svona þrá
- eða sigla burtu spariskónum á”
 

Á leiðinni út fjörðinn var byrjað að taka trollið klárt í gáma til að hífa í land meðan á slippnum stóð. Ég var helvíti góður þarna á spilinu og hífði og slakaði eftir pöntunum í gáminn fyrir strákana.

 “Og hann Stebbi var að hugsa meðan hægt þeir sigldu út, hversu hetjuleg sú kveðjustundin væri. Hlutverk réttu, dapra stúlkan. Og hinn djarfi ungi sveinn drengilegur svipur harður eins og steinn” 

Svo leið korterið. Smám saman fór ég að vera seinni og seinni að stoppa híf og slak þegar til var ætlast. Ég fór einhvern veginn að verða allur frekar furðulegur.

“Meðan Stebbi var að hugsa þetta, höfnin sagði bless og á hafsins öldum skipið fór að velta
Yfir borðstokk nokkrar gusur komu glettnum öldum frá svo að gefa tók nú spariskóna á.”
 

Þá ældi ég.

 

Og mikið gat ég ælt.

 

Ég stóð við spilið og ældi milli þess að hífa og slaka. Hugsaði: Ef ég fengi bara að leggjast niður og sofna aðeins, þó ekki væri nema korter. Þá yrði þetta miklu betra. Gat samt engar veginn hugsað mér að vera þessi sjóveiki. Alls ekki. Sárt stolt.

 

Það voru fjórir menn með mér á dekkinu: Ketill, Palli annar stýrimaður, Ingvar Rikharðs og Óskar StínuÞóris sem var yngstur og litlu eldri en ég. Þeir tóku smám saman eftir því að úthald mitt þvarr. Ég gerði tóma vitlausa í hífingunum og eftir smá stund kom Ketill sá elsti félaganna og fór vingjarnlega að segja mér að stoppa um leið og mér var sagt að hætta eða stoppa. Ég sagði já. Um leið og hann gekk til baka þá ældi ég. Sendi eina á grænmálað dekkið.

 

Óskar fattaði þetta fyrstur. Gekk föðurlega til mín og sagði: “Helgi minn reyndu bara að hafa augun á sjóndeildarhringnum um leið og við verðum komnir út fjörðinn.” Og ég hlýddi.

 

Sjóveikin versnaði bara við þetta en Óskar glotti. Svona eins og Óskar glottir.

 

Svo kom Páll Rúnarsson. Hann var annar stýrimaður og spurði mig hvort ég væri “slappur”.

 

Þegar þarna var komið við sögu var ég orðinn sjóveikur af þeirri tegundinni að hafið sjálft með tilheyrandi drukknun var ekki svo vitlaus hugmynd – að minnsta kosti ekki verri en staður og stund. Ég sagði Palla að ég væri líklegast að verða smá sjóveikur. Palli tók við.

 

Tveimur sekúndum seinna ældi ég.

 

Á stígvelin hans Palla.

 

Fjórum mínútum síðar var ég kominn í koju í klefa sem ég fann af handahófi.

 

Palli sagði mér seinna að nokkrum tímum seinna hafi þeir klárað vinnuna út á dekki. Þá hafi þeir komið inn í mat og verið spurðir hvar ég væri. Ég var jú ekki mikið að hlaupa upp í brú, þaðan niður í messa og þaðan niður í vél til að láta vita af því að ég væri sjóveikur aumingi á leið í koju, þarna fyrr um daginn.

 

Nema hvað.

 

Enginn dekkmanna vissi af mér enda hafði ég bara farið inn. Kokkurinn trúði ekki að ég hefði farið framhjá honum ef ég hefði farið inn og Ásmundur skipstjóri setti bara í brýnnar - og drap tittlinga.

 

Ég var týndur.

 

Mikil leit hófst um allt skip að týnda “farþeganum”, en þannig var ég skráður á blað sem yfirvöld tóku til skráningar áður en lagt var í haf. Allir klefar voru vandlega rannsakaðir og hverju kojutjaldi svipt frá - kojutjald er það sem kemur í veg fyrir óþarfleg vandræðilegheit milli skipverja í tveggja- eða fleiri- mannaklefum. Vélin var sópuð en hvergi var ég.

 

Ég fannst bara ekki.

 

Það var svo sem eftir mér að kunna minna á “sjó og sjómennsku og svona” en að vita hvorum megin höfðagaflinn væri í kojum til sjós. Hefði ég haft rænu til þá hefði ég tekið eftir klámblaðaljósinu sem staðsett er við höfðagaflinn á hverri til að kveikja dulítið ljós hjá þreyttum sjóurum á leið til sinnar vökulögbundnu hvílu. En ég sá það ekki.

 

Lá bara þarna í fósturstellingunni og stundi aumlega milli þess sem brakaði í kojunni undan veltingnum. 

 

Þess vegna fannst ég ekki fyrr en nýr klefafélagi minn ætlaði að ná sér í sælgæti í klefa sínum.

 

Daginn eftir var komið í land og áhöfnin snæddi pizzu með útgerðarmanninum á Akureyri. Menn drukku með bjór og hlógu. Ég þagði bara og drakk kók.

 

Smánaður. Algjörlega.

 

“Og hún Lína enn á bryggjunni svo beygð og döpur sat -  þegar bátur drauma hennar aftur snéri. “Upp þú fjandans æludýrið,” öskrað var þá dimmum róm og einhver steig á land í blautum spariskóm.”

”Já þeir sigldu marga hetjuför í huga vorum út og í hörðum leik af drengjum öðrum báru en í dagsins heimska lífi, margur draumur okkar dó - varð að deyja því við gátum ekki nóg”


Meinlæta menningarfrömuður

Á vefsíðu Skálholts má lesa þetta: 

"1211 Páll biskup Jónsson andast og er grafinn í steinkistu sinni, mikill menningarfrömuður."

Já vissulega var Páll menningarfrömuður, þó erfitt sé að skilja textann öðruvísi en það hafi falist í þeirri brilliant hugmynd að láta grafa sig í steinkistu.

Steinkistan fannst rúmum 700 árum síðar við fornleifauppgröft sem ég veit ekki betur en Kristján Eldjárn hafi stýrt. Svo merkileg tíðindi þóttu fundur menningarfrömuðarins Palla biskups að útvarpað var beint frá því þegar kistan var opnuð.

Og hvað kom í ljós?

Jú leifar menningarfrömuðarins og bagall hans, bagall ku vera eins konar valdasproti þess tíma svon eins og víravirkið með merki Reykjavíkurborgar sem Villi borgarstjóri hefur sem betur er ofan í kassa.

Þessi fundur er almennt talinn merkilegastur fyrir þær sakir að dótið í steinkistunni er jafnan talin vera elsta varðveitta beinagrind þessarar þjóðar.

Minna hef ég heyrt talað um það sem tveir kollegar í stétt fornleifafræðinga sögðu mér nýlega, nefnilega það að hvorki bagallinn né kallinn sjálfur hafi verið aðalmálið að mati þeirra sem skoðuðu kistuna og innihald hennar. Nei það miklu frekar að einkennilegt efni sem staðsett var á miðjum búk beinagrindarinnar sem vakti athygli.

Þegar þetta torkennilega efni var rannsakað betur kom þetta í ljós varðandi elsta varðveitta hluta elstu beinagrindar Íslands: Þetta var vömb Páls biskups menningarfrömuðar. Þannig virðist sem Páll hafi ekki bara verið fádæma sniðugur þegar hann fyrirskipaði um eigin steinkistugreftrun heldur virðist hann hafa mörgum öldum á undan sinni samtíð í að gera vel við sig í mat og drykk.

Það best varðveitta af elstu beinagrind þjóðarinnar er þannig spik. Efast um að margir af kirkjugestum Páls og skattgreiðendum liggi jafn pattarlegir í gröfum sínum. 


Bolur inn við vík

Bróðir minn er fluttur til Bolungarvíkur. Hefur tekið að sér að uppfræða bolvíska upp úr aðalnámskrá Menntamálaráðuneytisins.

Daginn eftir að hann mætti vestur var Bolungarvík í fréttum vegna þess að einhleypir, fráskildir og gott ef ekki misskildir íbúar Bolungarvíkur fá ekki að blóta með giftum. Skilst þó að ekkjumönnum og ekkjum - þó ekki í sambúð - sé leyft að mæta líka.

Finnbogi fréttahaukur vestra sagði ábúðarfullur í fréttinni að margir íbúar væru ósáttir við þessa tilhögun. Datt strax í hug að bróðir minn væri nú endanlega brjálæður; hefði byrjað vist sína vestra á því að efna til óláta. Hann er jú einhleypur blessaður.

Hringdi í hann og hann sagðist alsaklaus af blótbyltingunni. Hjúkkett.

Hann heldur svo austur um helgina en þar er Þorrablót Reyðfirðinga um helgina. Ég veit ekki hvort sú staðreynd að við lok síðustu aldar fækkaði nokkuð á Reyðarfirði  veldur því að einhleypir, fráskildir og misskildir mega líka blóta með giftum á Reyðarfirði. Alla vega er þessi fólki treyst saman á trog. Man ekki eftir því að þetta hafi valdið vandræðum, og þó. Gleðilega hátíð Reyðfirðingar.

Hákon bróðir frumsýnir ásamt Garðari vini sínum Seyðfirðing mynd þeirra "Okkar skoðun" í Fjarðabíói á Reyðarfirði um helgina. Hef ekki séð myndina en vænti þess að þar komi margt skemmtilegt fram.

Og Ómar: Áttu orðið nýtt barn?

Ég varð 28 ára í gær. Kata mín bauð til veislu og auðvitað var stóra barninu boðið ásamt spúsu sinni. Þar sem við Andri sátum og töluðum saman varð okkur litið til maka okkar sem sátu og ræddu saman á svipaðan hátt og mömmur okkar gerðu þegar við vorum yngri. Við hugsuðum báðir það sama: Við erum orðnir fokking gamlir.

Getum þó huggað okkur við það að eiga ungar konur. Það er jú blessun. 

Afsaka stopul skrif hér í vikunni. Lofa þó gömlum baráttubræðrum í Guns ´n roses klíkunni pistli um það tímabil í lífi mínu - sem enn er ekki lokið - auk þess sem ég ætla mér að "sneika" hér inn lagi með þeirra ágætu sveit eins og hún lítur út í dag. Ég veit að margir hafa ekki mikið álit á rauðhærða dvergnum Axl þessi misserin en lagið sýnir svo ekki verður um villst að okkar maður hefur ekki bara verið að flétta á sér hárið í þessi tíu ár sem Chinese democracy hefur verið on og off.


Úllingar

anres 

Fór í bíó með Andra í síðustu viku að sjá Pick of destiny. Fín rokknördamynd.

Vorum tveir í salnum auk þess sem mér sýndist hálfur 10-b í einhverjum grunnskóla höfuðborgarsvæðisins vera þar. Stelpur og strákar sem verða 16 í ár. Árið gildir.

Píkuskrækir og eitthvað sem Mogginn hefði í árdaga nefnt skrílslæti allan tímann á meðan sýnishornin runnu yfir tjaldið. Það seig í annars létt skap Andra undan látunum sem ekki þögnuðu þegar myndin byrjaði. Ég var sammála honum.

Nú er það bara þannig að hvorugur okkar á létt með að halda kjafti, hvort sem það er vegna þess að við höfum svo sterka réttlætiskennd eða það að við gefum okkur minni tíma en aðrir í að hugsa áður en við tölum. Hvorugur okkar sagði samt orð þó reglulega heyrðist "djísess Óli" rétt áður en sparkað var í stólbakið okkar.

Við héldum bara kjafti.

Hvers vegna: Jú vegna þess að við erum báðir á þeim aldri að við munum hvað var ömurlegt að vera unglingur og ekki síst hvað fullorðnir geta verið ömurlegir við unglinga.

Ég tel mér trú um að ég sé hvorugt; hvorki fullorðinn né unglingur. Ég er svona mitt á milli - Andri er náttúrulega bara stórt barn.

Ég tel mér trú um þetta og vegna þess neita ég að taka þátt í því eina kalda-stríði sem ég þekki: Stríðinu milli unglinga og fullorðinna. Unglingar skilja ekki fullorðna og öfugt. Lífið gengur sinn vanagang en annars slagið finnst fullorðinskafbátur í hafi unglinga eða öfugt.

Þess vegna heyrum við reglulega fréttir af því að vopnahlé unglinga og fullorðinna hafi verið rofið; nú síðast þegar einhver kall (liðsmaður herskárra fullorðinna) áttí átökum við strák (liðsmann hins herská arms unglinga) sem hafði hent flugeld inn til hans. Átök brutust út.

Sjálfum finnst mér fá tímabil leiðinlegri í eigin lífi en unglingsárin; stanslaus bömmer og óöryggi sem braust út í einhverju sem helst verður líst sem ultra-stælum. Persóna manns í mótun en um leið brjálæðislega brothætt. Líkami manns til hálfs orðinn fullorðinn sem aftur gerir það að verkum að sum líffæri stækka í allt öðru og meira hlutfalli en önnur. Hjá mér voru það nefið og fæturnir. Ég leit út eins og froskur með kústskaft út úr miðju andlitinu sem örugglega hefði verið talið kústskaft ef ekki hefði verið fyrir fasta búsetu stærðar bólu á nefinu á mér svo að segja öll unglingsárin.

Nefið á mér er raunar enn stórt, en aðrir partar andlitsins hafa náð nefinu nokkurn veginn í stærð þannig að minna ber á því - ennið virðist eini partur andlitsins sem enn stækkar.

Mér fannst þá að allir fullorðnir væru hallærislegir og börn bara barnaleg.

Og vegna þess hversu brotnir í sjálfsmyndinni og hálfkláraðir unglingar eru jafnan þá ferðast þeir um í hópum. Þannig er ekkert mál að ræða við einn ungling. En að ætla að ræða við tvo eða fleiri í hóp, er voðinn vís. Sérstaklega ef unglingurinn telur sér ógnað með einhverju móti.

Unglingar eru líka oftar en ekki eins - af óttanum einum saman. Óttanum við að vera öðruvísi. Það er eitt trend í gangi; og því fylgja menn bara. Einn unglingur sem telur sig vera Vin Diesel er þannig hlægilegur en fimm geta verið hættulegir enda öll viðleitni þeirra til að vera stóri sterki kallinn samanlögð ekki langt frá því að ná þeim stóra.

Samanlagðar hendur verða hamar.

Dæmi:

Ég er skapmaður. En þegar ég var unglingur var saman komin í mér öll heift Palestínumanna og svo að segja allur kraftur Ísraelshers, setti sig einhver á móti því sem ég taldi rétt.

Aðstaða til knattspyrnuiðkana var á tíma léleg á Reyðarfirði. Eini völlurinn sem var í lagi var á Leikskólanum en þangað höfðu starfsmenn hreppsins komið mörkum og stikað völl. Á þessu tíma var ég fjórtán eða fimmtán. Okkur datt í hug félögunum að kíkja í fótbolta í stað þess að standa í fullorðinslegri leikjum þann daginn. Við höfðum ekki sparkað oft í boltann þegar starfsmaður hreppsins sem aldrei var í fríi kom öskrandi að okkur og sagði okkur að drulla okkur af vellinum. Við ættum ekkert með að eyðileggja fyrir börnunum. Nógu andskoti værum við nú duglegir við að eyðileggja fyrir okkur sjálfum.

Í sem fæstum orðum sturlaðist ég þennan sunnudag.

Ég rauk að manninum sem stóð þarna í óreimuðum stáltárskónum sínum og hreppsjakkanum og gargaði á hann með hnefana kreppta. "Hvers vegna geturðu ekki látið okkur í friði hérna helvítis fíflið þitt? Við höfum ekkert gert af okkur og ekkert eyðilagt?" Ekkert svar heldur boltinn tekinn og settur í skott hreppsstarfsmannsins, sem annað slagið tók vaktir í löggunni. Sama skott og hafði áður gleypt tvær ef ekki þrjár tilraunir okkar Andra með Molotow kokteila og Salt péturssprengjur. Sama skott og hafði áður hirt þýfi úr víngeymslu Hótels Búðareyrar - fyrirgefðu Markús minn - og fleira sem við þó reyndum að finna okkur til dundurs þarna drengirnir.

Bíllinn ók á brott og við stóðum eftir reiðir og ringlaðir. En nú var komið nóg. Við örkuðum af stað eins og lítil herdeild að okkar stjórnarráði, heimili sveitarstjórans. Og nú skyldi ekki tekin nein minniháttar mótmælaganga með kjarnyrtum slagorðum. Ó, nei nú skyldi kúgurum þessa lands sýnt hvenær nóg er nóg. Við börðum harkalega á dyr sveitastjórabústaðarins og þrykktum hnefum í lófa. 

Börðum réttara sagt á hurðina í góðar fimm mínútur þar til þreytu- og þynnkulegur sveitarstjórinn kom til dyra á náttsloppnum.

"Við viljum að þú rekir einn mann," sagði einn af okkur og reyndi að tala af ábyrgð og festu. Svona eins og Davíð Oddsson sem þá var leiðtogi hinna fullorðnu gerði en sveitarstjórinn var samkvæmt almannarómi mikill stuðningsmaður Davíðs. Okkur var auðvitað nákvæmlega sama annað hefði brotið þá hefð að unglingar hafi skoðanir á öðru en þess tíma ígildis Duran Duran og Wham deilunnar.

"Ha? Afhverju," sagði sveitarstjórinn.

"Hann bannar okkur að spila fótbolta á eina vellinum í bænum. Bannar okkur að spila fótbolta, ha? Það er ekkert hægt að gera í þessum andskotans bæ án þess að vera skammaður fyrir það og hótað með löggunni en þegar við ætlum svo að reyna að vera eins og menn þá er það líka bannað."

Ég lagði áherslu á bannað enda vissi ég það eitt um pólitík fullorðinna á síðari hluta tuttugustu aldar að orðið "bannað" var bannað. "Frelsi" var aðalmálið.

Sveitarstjórinn bauð okkur inn í gang. Samþykkti að ræða við umræddan starfsmann sinn og lofaði því að við mættum nota völlinn. Notaði orð eins "skoða" og "ganga í" í þessu sambandi.

Þarna leið okkur gott ef ekki eins og Castro á torginu í Havana þegar byltingin var búin og dúfan sest á öxlina á honum.

Mission Accomplished.

Við gengum sigri hrósandi út og beinustu leið niður í sjoppu, þar sem rifum kjaft yfir því að fá ekki hanga inni í sjoppunni. Hent út. Reyndum aldrei að ná í Kristin Björnsson forstjóra Skeljungs þó starfsmaður Skeljungs hefði vissulega beitt okkur kúgun af verstu sort.

Ég held að ég hafi aldrei sparkað í bolta á leikskólanum á Reyðarfirði síðan þarna. 

En þetta var líka bara prinsippmál fjandinn hafi það. Svona eins og hvalveiðar. Viljum geta það. Ekkert endilega gera það samt.

Svona eru unglingar. Þeir láta eins og Þriðja heimsstyrjöldin sé að skella á ef ekki er til kók á heimilinu. Þegar svo einhver kaupir það, þá vantar bara appelsín.

Þess vegna fokka ég ekki í unglingum. Ef ég væri unglingur og ég nokkru eldri myndi reyna að ala mig upp - úti á götu eða í strætó eins og margir fullorðnir finna sig knúna til að gera - þá myndi yngri ég hreinlega jarða þann eldri með öskrunum og dramanu einu saman.

Þess vegna létum við Andri bara sparka í stólbakið okkar milli þess sem "djísösss Óli, ertu vangefinn," var öskrað í eyrað á okkur af einhverju nýkynþroska.

Vegna þess að við viljum ekki eiga það á hættu að fjórir gelgjulegir strákar vekji okkur á sunnudagsmorgni og taki út á okkur hversu erfitt er að verða fullorðinn.


Í fjórða gír

Vek athygli á skáldinu Víkingi og framhaldssögu hans. 

Ekki síður bloggi Eiðs Ragnarssonar, fyrrum formanns björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði og bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð.

Eiður er starfsmaður Alcoa-Fjarðaáls og dvelur nú í álæfingabúðum í Kanada. Eiður er bílgefinn maður og kappkostar að keyra bíl - helst eins langt og hann getur - í hverju landi sem hann heimsækir.

Á þann heiður að hafa keyrt með honum langar leiðir um Noreg og frá nyrsta odda Jótlands til Kaupmannahafnar.

Eiður er stoltur sveitamaður austan úr Hamarsfirði frekar en Berufirði. Þeirrar tegundar sveitamanna sem hafði takið vélina í sína þjónustu, Bjartur III. Þannig hafði Eiður tekið handbremsubeygjur og spólað á svo að segja öðrum hverjum fermeter landsins þegar þarna var komið við sögu. 

Lögreglufæð og vegir sem hægt var að keyra á voru Eiði að skapi. Hann ljómaði eins og Kristján Loftsson á Hval-daginn þegar beinn og tvöfaldur vegur - sem á keyrðu ökumenn sem vissu til hvers tvær akreinar eru - blasti við honum alla leið á áfangastað - og svo til baka aftur einn fimmta leiðarinnar þar sem ég gleymdi veskinu mínu.

Síðan hefur hann lagt meira malbik að baki í fleiri löndum og ekur nú um slóðir......Æ. í Kanada.


Þess vegna verða þingmenn svona vinsælir - sendiherrar

"Sumir menn verða vinsælir í heimalandi sínu við það eitt að fara þaðan."

Jónas Jónsson frá Hriflu við þjón á hóteli í ónefndu útlandi þar sem hann dvaldi á sjötugsafmæli sínu. Hamingjuóskum hafði rignt í gegnum símskeytalínur frá Íslandi allan daginn. Þjónninn spurði Jónas: "Þú hlýtur að vera vinsæll og dáður maður í þínu heimalandi?"


Fólk á labbinu - Gulir ganga, aðrir ekki.

Er kominn heim frá Reyðarfirði en velti enn fyrir mér tvennu sem ég heyrði þar. Segi annað núna - hitt seinna.

Lengi vel hefur hin óopinbera mælistika á líf í þorpum úti á landi verið sú hversu margir sáust á ferli þar síðast þegar keyrt var í gegn.

Og með orðinu líf er hér átt við LÍF, sama hugsun á og á bakvið nafnið á Gæsluvélinni. Spurningunni um það hvort sú staðreynd að einhvers staðar búi nú 600 þar sem áður voru 1800 sé ekki dauðadómur í sjálfu sér. Hvort súrefnið yfirgefi ekki bara svo lítil samfélög að þau deyji bara drottni sínum og allir með. Það borgi sig ekki að senda þangað andrúmsloft og því sé helmingur, þó þeirra fáu sem þar húka, í hálfgerðu vímuástandi, takandi slátur eða skerandi fisk.

Bekkjarsystir mín fyrrverandi sagði mér um daginn að þó allt væri orðið fullt af fólki á Reyðarfirði þá væru ekkert fleiri á röltinu þar á kvöldin. Þetta sannfærði svo aftur það fólk sem keyrði í gegn um að ekkert líf væri í þessu plássi, eins og fyrir ál. Það þoldi hún ekki þó hún vissi að báðar fullyrðingar væru bull.

Þetta var nú líklegast rétt að hluta hjá henni. En ég gerði mér sjálfur ferð á rúntinn á Reyðarfirði á nýju ári. Rétt er að taka fram að rúmlega helmingur þeirra sem nú er skráður íbúi á staðnum var heima í Gdansk, Varsjá eða Prag þegar þessi rannsókn fór fram; hún verður þó líka studd með rökum frá á rúnti í Nóvember er bærinn var fullur - af fólki.

Yfir hátíðirnar (milli jólanna eins og ágætur maður orðaði það). Niðurstaða: Ekki kjaftur á ferðinni nema Sverrir minn Ben.

Sverrir var reyndar ekkert á rúntinum. Hann vantaði bara far heim.

Hann sagði mér raunar að það gengi enginn um bæinn nema Pólverjarnir. "Þeir hafa göngumenningu," sagði hann. Rétt hjá Sverri. Í Póllandi er ekki alltaf jafn kalt og hér og stundum hægt að labba.

Ég hef búið í rúm þrjú ár í Reykjavík, í þessari lotu, og á þeim tíma hef ég víða farið. Ég er rúntari í eðli mínu og á því auðvelt með að gleyma mér undir stýri og enda í götum eins og Kórsölum og Mururima. Þessir ferðir hafa yfir sér ákveðin ævintýrablæ og eiga sjálfsagt eitthvað skylt við ferðir sem við Jón Knútur fórum á Austurgluggan um Austurland þvert og endilangt.

Ég mæli reyndar með því að menn taka Árbæjarhringinn oftar. Stoppi í sjoppunni í Fellunum á leið gegnum Breiðholtið áður en farið er leikinn hvað eru mörg hringtorg í Hafnarfirðinum. Á meðan er gaman að velta fyrir sér heimspekilegum spurningum eins og: Hvenær er Kópavogur Breiðholt? hvenær hættir Kópavogur og Ölfuss tekur við? Eru Kórsalir í raun ekki við hliðina á Eden, þar sem Tívolíið var einu sinni?

Þetta var útúrdúr.

Að einu hef ég þó komist á þessum ferðum mínum um rima Muru og sali kóra og búð Ása:

Það gengur varla nokkur maður á Íslandi.

M.ö.o. það er bara skítkalt hérna stærstan hluta ársins og þó bensínverðið geti verið svona og svona þá láta menn sig bara hafa það, svona eins og menn migu í lúkurnar á sér til skammgóðs vermis á togurunum í gamla daga.

Á þessu eru auðvitað undantekningar: Til dæmis labbar fólk hér í kringum heimili mitt í miðbænum. Það held ég samt að sé vegna þess að strætó á sitt varnarþing hér á Hlemmi og í strætó fer engin keyrandi.

Það er líka slatti af fólki sem ég sé labba hérna niður við Sæbraut. Sömuleiðis í Nauthólsvík og úti á Nesi. Íbúar á Seltjarnarnesinu eru samt ekki á leið í strætó held ég.

Flest af þessu fólki er þó ekkert bara úti á labbinu bara rölta svona eins og ekkert sé skemmtilegra. Nei, nær allt það fólk sem labbar í Reykjavík er annað hvort með hund í bandi eða að reyna að koma hjartanu í lag eða aukakílóunum af. Þetta fólk er líka auðkennt með gulum endurskinsmerkjum eða í brjálæðislega þröngum jogginggöllum sem eru eins og málaðir á viðkomandi, enda er hvergi meiri þörf á því að kljúfa vind með fötunum sínum en einmitt hér.

Einstaka maður sést svo ganga með bensínbrúsa á Sæbrautinni. Þeir eru yfirleitt fúlli en aðrir. 

Í Grafarvorginum er fólk ekkert að hanga úti bara til að sanna að þar búi flestir? Nei Grafarvogsbúar eru bara heima hjá sér eða í bílnum. Það er bara alltof kalt til að halda uppi einhverjum málstað. Hvenær hefur líka einhver fundið Grafarvogi það til foráttu að þar sé ekki maður við mann upp og niður Rimahverfið - labbandi?

Í Nóvember var nóg af fólki á Reyðarfirði, staðurinn orðin hagkvæm stærð fyrir verslun Kaupáss til dæmis. Verkamennirnr hjá Bechtel og undirverktökum þeirra búa í þorpi í enda þorpsins, ef einhver skilur það. Þeir ganga svo í bæinn margir eða fara með rútum til að versla og erinda. 

Þeir eru allir í þessum líka fínu gulu vestum þannig að þegar maður keyrir út úr þorpinu að kvöldlagi, og þessir gönguglöðu menn strunsa göngustíginn við hlið þjóðvegarins, þá myndar endurskinsröðin eitthvað sem væri best lýst sem elddreka sem silast upp að vinnubúðunum. Dásamlegt sjónarspil, þó erfitt gæti reynst að vernda þessa auðlind sérstaklega eða gera úr pening úr.

Til þess er bara alltof kalt og auk þess þurfa Pólverjarnir að koma upp álveri fyrir áramót.

Einu sinni var mér sagt um ónefnt sveitarfélag, hvaðan ég er ættaður, að þar væri ekki bara að finna undantekningu á fólklabbandiútumallt-reglunni heldur væri líka sama hvenær væri keyrt þar í gegn, alltaf væri einn maður hið minnsta skjóðurakur meðal röltara.

En svona á ekkert að tala um frændur mína Fáskfirðinga.

Nei, gott fólk, lífið er ekkert í labbinu.


"Hvað verður þá um Jackie og börnin?"

 "Mér hefur fundist að við ættum alltaf að tryggja að hæfileikar verði látnir ráða við skipanir í allar stöður, óháð stjórnmálaskoðun eða yfirleitt nokkru öðru."

John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, um pólitískar stöðuveitingar. Tveimur og hálfri mínútu síðar hafði hann formlega skipað Robert bróður sinn dómsmálaráðherra - eftir að pabbi þeirra hafði sagt honum að gera það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband