Mörg bindi Ómars

Ómar og félagar kynntu Íslandshreyfinguna í dag.

Talaði stuttlega við Ómar í Kastljósinu áðan og ég hef sjaldan haft hjá mér viðmælanda sem var eins stressaður.

Stressið kom þó viðtalinu lítið við.

Ómar átti nefnilega að vera mættur á svið í Borgarleikhúsinu rúmum fimm mínútum eftir að viðtalinu lauk. Þar leikur hann að mig minnir alsheimer-sjúkan mann á elliheimili sem segir fátt. Góð hvíld fyrir Ómar eftir að hafa talað í allan dag.

Fáheyrt að menn taki sér hvíld frá amstri dagsins í söngleik í Borgarleikhúsinu.

Þegar viðtalinu lauk stóð Ómar snöggt upp losaði af sér litla míkrafóninn í brjósti jakka síns og hugðist skutla honum á borðið. Míkrafónninn lenti í vatnsglasinu mínu og Ómar tók bakfall af hlátri - hafði ekki tíma fyrir fleirtölu bakfall - meðan míkrafónninn dinglaði í vatnsglasinu eins og ormur á öngli.

Stuttu áður en viðtalið hófst og Ómar var að koma sér fyrir tók ég eftir einhverju sem gægðist undan skyrtunni hans. Ómar var eins og menn hafa eflaust tekið eftir með bindi hnýtt um hálsinn en það sem menn vissu ekki var að undir þeirri skyrtu og því bindi var önnur skyrta, annað bindi.

Ómar var þannig í leikbúningi sínum undir búningi stjórnmálaforingjans.

Fyrst eftir að ég kynntist Ómari tók ég eftir því að hann gekk alltaf með tvö úr á handleggnum. Vissi ekki að búningarnir væru líka tveir.

Hljóðmaður sem var á staðnum sagði við mig þegar ég furðaði mig á búningnum undir búningnum:

"Blessaður þakkaðu bara fyrir að hann skuli ekki vera í jólasveinabúningnum undir öllu saman."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Björgvin

Vinstri grænn í sjálfstæðisbúning, í öllu falli bindindismaður!

Pétur Björgvin, 22.3.2007 kl. 20:27

2 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Það er satt hann var rosalega stressaður vonandi er hann ekki að ofkeyra sig á þessu. Hinsvegar voru það vonbrigði að ekki kæmi meira frá þeim Íslandsvinum í dag en fínt lógó, annað var meira og minna komið fram. Þar á ég við bráðabirgðastjórnin, bráðabirgðamálefnin og bráðabirgðaframbjóðendurnir. En þetta verður allt ábyggilega komið fyrir kjördag og verður gaman að fást við kosningabaráttu með þeim.

Lára Stefánsdóttir, 22.3.2007 kl. 20:49

3 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Bráðabyrgða  þetta  og  bráðabyrgða  hitt er rétta orðið ég  varð  fyrir vonbrygðum

Gylfi Björgvinsson, 22.3.2007 kl. 21:34

4 Smámynd: Kjartan Valdemarsson

Á ystu nöf.

Ég fór einu sinni að spila á píanó með Ómari og Erni Árna á árshátíð í Grundarfirði

Þetta var um vetur, líklega í febrúar. eftir skemmtunina lögðum við að stað heim um 23 30 á Toyota fjallabíl Ómars.

Þá kom í ljós að Ómar átti að vera mættur upp á stöð tvö kl.01 að lýsa beinni útsendingu af boxi á Sýn!

.........................

Ferðalýsing/tilfinningakokkteill, í stikkorðum.

Símtöl við Bubba,

Hálka,

Heiði,

Stórhríð,

Bensín efi,

Tvö úr,

Tvær minnisbækur

Myrkur,

Spól og tregða í Kerlingarskarði,

Endalausar sumargleðissögur,

Talstöðva stillingar,

Bubbi hringir reglulega,

Box sagan rifjuð upp fram og til baka með sýnitöktum,

Sviti,

hrollur,

Gaman!!

Einstakur maður , Ómar.

Við komum upp á Lyngháls um 03

og þegar ég kom heim 03 10 og kveikti á sjónvarpinu var það fyrsta sem ég heyrði

Ómar æpa í kappi við Bubba.

Ótrúlegt............!!

Kjartan Valdemarsson, 22.3.2007 kl. 21:35

5 identicon

Greinilega upprennandi pólitíkus, mörg lög af leiktjöldum, allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Gunnar Geirsson; http://gunnargeirs.blogg.is/ (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 21:36

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

En það skrýtna var að meðan hann var í beinni útsendingu á Stöð 2 var hann líka í beinni útsendingu á RÚV, reyndar ekki Kastljósinu. Það gæti verið stressandi að vera svona klónaður ...

Berglind Steinsdóttir, 22.3.2007 kl. 23:05

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fylgið stekkur strax í 20% hjá honum. Sumir segja að tíminn sé stuttur í kosningar. Hann er of langur fyrir Draumalandsvagninn. Við skoðun fær hann rauðan miða og endar í bjórstyrkleika.

Var á árshátíð Grunnsk. Reyðó. Helgi, þú varst ein af persónum í leikriti 10. bekkjar  Þú ert að slá öllum við. Stórleikari sjálfur á sviði í Félagslundi, skrifar skemmtilegar smásögur sem örugglega væri hægt að leikgera og færa upp í Hafnarfjarðarleikhúsinu og orðin persóna í leikverkum annara. Geri aðrir betur!

kveðja...

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2007 kl. 00:13

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það væri sjálfsagt hægt að gefa Ómar út í mörgum bindum

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2007 kl. 00:42

9 Smámynd: Snorri Sturluson

Sko...Ómar er með þrjú armbandsúr, tvö vinstra megin og eitt hægra megin.  Hægrisinnaða úrið hefur þann tilgang að kveða upp úrskurð komi til ósættis vinstra megin, þ.e. ef vinstri úrin sýna ekki sama tíma. 
Ég var nú bara að fatta það núna...úrburður Ómars hefur hvínandi pólitíska samsvörun!

Snorri Sturluson, 23.3.2007 kl. 12:25

10 Smámynd: Stefán Sig.Stef

Ómar er að mínu mati að fara yfirum á þessu rugli sínu öllu ég held að hann sé langskástur ef hann fer bara í jólasveinabúninginn og hættir þessum áróðri sem hann hefur haldið uppi undanfarin misseri sem snúast að langmestu leiti að því sem er í farvatninu á norðanverðu landinu og það hefur hann gert með diggum stuðningi fjölmiðla.

Stefán Sig.Stef, 23.3.2007 kl. 14:06

11 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Góð sagan um hjónin sem hittu konu Ómars í hléi í bíó og spurðu hvort hann væri ekki með. Jú jú - hann var með en hafði skroppið í hlénu til að þvo bílinn.

Eða það sem LogiBer nefndi einu sinni að Ómar kynni ógrynni af vísum, sögum, lögum, textum. Mikið væri nú gott ef hann gæti díleiað einhverju af þessu svo hann gæti munað hvar hann setti spólurnar.....

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 23.3.2007 kl. 15:57

12 Smámynd: Tobbi

Ómar hefur oft sungið sig inní hjörtu þjóðarinar og kanski blaðrar hann sig þangað núna,hann er held ég bara að skemma fyrir sér með þessu rugli

Tobbi, 23.3.2007 kl. 19:15

13 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Þegar ég sá fyrirsögnina fékk ég áfall, taldi víst að þarna væri um að ræða sögur Ómars í mörgum bindum. En þetta var sem sagt hálstau. Mikið er mér létt.

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 24.3.2007 kl. 19:57

14 Smámynd: Huldabeib

Ómar hefur mörg andlit en ekki vissi ég að hann væri í samhæfðum búningum við hvert og eitt þeirra.

Huldabeib, 26.3.2007 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband