Í nafni Kollaleirurósarinnar - Drottinn tekur við af Mása

Hef tekið mér pásu í smá tíma vegna leti og á meðan hefur Katrín Anna Guðmundsdóttir verið gestaritstjóri.

Þakkir fyrir það gæskan.

Merkilegustu frétt dagsins verður vonandi gerð skil í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna. Grafíkerar þessar lands eru vonandi að skeyta mynd af klaustri kirkju og nokkrum munkum á stangli, inn á mynd af Kollaleiru minni.

Því eins og verðandi skemmtilegasti prestur landsins hefur frætt okkur um á sínu bloggi er þetta ekki bara eitthvað klaustur, svona eins og í Garðabænum eða Hafnarfirði.

Hell nó! Þetta er fyrsta munkaklaustrið frá Siðaskiptum.

Mennirnir sem fundu upp Cappucino-ið eru á leiðinni til Reyðarfjarðar.

Nú þekki ég ekkert til hjá kaþólskum, rétt séð bloggið hans Jóns Vals, reykinn í Vatikaninu og kirkju á Spáni. En er ekki magnað að fá munka.

Annars er ekki síður frétt í þessu fyrir þær sakir að þar með er það orðið að fullu ljóst - í það minnsta í mínum huga - að búsetu Guðmundar Más Hanssonar Beck og Höllu Kjartansdóttur konu hans, er þar með lokið á þessari nágrannajörð við Seljateig afa.

Guðmundur er fluttur úr bænum. Eins og hann hafði sagst ætla að gera. Hann gat ekki hugsað sér að búa áfram á Reyðarfirði Alcoa (Reyðarfirði Rio Tinto stallar betur en ég kysi það síður).

Guðmundur hlaut nýverið dóm fyrir að fá sér spássitúr um fjöruna á Framnesi. Í stað berjatínunnar var Guðmundur með töng. Hann klippti sér leið inn um girðingu Bechtel manna. Framhjá bílahjörð Securitas-mannanna og stöðvaði þar með alla vinnu á vinnusvæði álversins. Ekki snittað rör, ekki hellt upp á kaffi. Ekkert.

Ég hef farið með Mása, eins og Guðmundur er kallaður, í göngur. Snarbrjálaðir stóðum við einu sinni í Seljateigshálsinum svo andlitin urðu æðaber og öskruðum á hvorn annan. Mási hefur mikla rödd og reynslu í göngum. Ég hafði því ekki roð í hann og auk þess í mútum. Ég gafst því upp og hélt áfram að hlaupa í hringi utan um stressaðan rolluhóp. 

Það verða allir eitthvað svo einkennilegir í göngum.

Ef Mási hefur verið í gangnahamnum þennan sumardag þarna á slóðum Róberts á Framnesi skil ég vel að 1500 manna vinnusvæði sem er á stærð við átta fótboltavelli - eða eitthvað álíka - skuli menn hafa lagt niður vinnu. Það hefur þá ekki verið með einhverri skipun að ofan neitt. Menn hafa hlaupið í skjól.

Mási fékk alla vega dóm og þar sem ég sá  hann sitja í réttarsalnum í einhverjum fréttunum sá ég að nú hafði Mási fengið nóg. Hann hafði að vísu tafið framkvæmdir við álver Alcoa að sögn Bechtel manna en þó ekki þannig að hætt yrði við.

Mási flutti því til Akureyrar nýlega og brá búi. Ég hefði kosið að Mási byggi áfram á Reyðarfirði. Hver á nú að passa Kollaleirurósina?

Lítið blóm sem er sjaldgæft eins og maðurinn sem barðist fyrir sannfæringu sinni og tilvist þess en hafði bara sigur fyrir blómið.

Þegar Landsvirkjun óskaði framkvæmdaleyfis fyrir staurastæðurnar tvær sem færa munu stuð í álverið gerði Mási líkt og fleiri athugasemdir við legu línanna. Einhverjir fengu henni þokað einhverja metra frá eldhúsgluggunum sínum en Mási breyttu legu línastæðanna talsvert á þeim forsendum að útrýming Kollaleirurósarinnar væri næsta vís ef staurarnir færu ekki aðra leið. 

Rósin vex einungis á tveimur stöðum á landinu eftir því sem mig minnir og langmest í landi Kollaleiru. gult blóm umkringt óvenjuskærum hvítum blöðum ef ég man þetta rétt.

Og þar sem enginn með hjarta myndi vilja útrýma rós þá færði Landsvirkjun sig. Davíð grætti Golíat sem beygði af og lét undan.  

Fleiri urðu sigrar Guðmundar ekki í stríði hans gegn virkjun og stóriðju á Reyðarfirði. Til þess var andstæðingur of stór. Ég tel ekki daginn með þegar vinnan var stöðvuð.

Og hvað er betra en drottinn sjálfur almættið holdi klætt í líki kynsveltra karla til að taka við af Mása mínum.

Þeir munu gæta rósarinnar.

Blessaðir.


mbl.is Klaustur á Kollaleiru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Verði þér að góðu vinurinn

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 3.3.2007 kl. 13:36

2 identicon

Sæll félagi, djöfull er gaman að vera Reybbi og lesa færslurnar þínar. Líka þegar þær eru rammsúrar eins og þessi. Er eiginlega sæt og súr færsla.

kv,

Hrenni

Hrenni (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 16:40

3 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Það er sjónarsviptir af Guðmundi á Kollaleiru en kannski munu sköllóttir kuflklæddir menn bæta það aðeins upp.

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 3.3.2007 kl. 17:37

4 identicon

Megi Alcoa hvergi þrífast.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 18:03

5 identicon

Er Kollaleira nágrannajörð Seltjateigs?

alla (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 19:03

6 Smámynd: Pétur Björgvin

...sungum við ekki saman hérna í gamla daga: ,,hver hefur skapað blómin björt..." ??

Takk fyrir snilldarfrásögn. 

Pétur Björgvin, 5.3.2007 kl. 20:28

7 identicon

Hvað skal gera við Helga? Seljan(n) ekki ættla ég að keyp'ann.

Sverrir (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 23:39

8 identicon

Sammála Hrenna númer tvö - dásamleg lýsing á Mása og skondin tenging við Umberto og Thor.

pgs.

pgs (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband