Vér þorparar

AÐ GEFNU TILEFNI ER RÉTT AÐ TAKA ÞAÐ FRAM AÐ ÞESSI SAGA HÉR AÐ NEÐAN ER HELBER LYGI OG ÞANNIG TILRAUN TIL SKÁLDSKAPAR  

Að alast upp í litlu þorpi úti á landi er svipað og fyrir Reykvíkinga að byrja hvern dag á því standa allsberir og hrópa leyndarmál sín á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrabrautar - í beinni í Íslandi í Bítið.

Ég átti nýlega samtal við konu sem hefur búið í litlu þorpi úti á landi allt sitt líf. Hún sagði mér frá því hvernig þorpararnir hefðu nú orðið til þess að hún ætlaði eins og hinir hundruðirnir á undan að flytja í blokk í Grafarvoginum.

Þessi kona hefur ekki svo vitað sé til drepið mann. Hún hefur heldur aldrei misnotað börn. Samt er hafa heiftugir þorparar ráðist á hana eins og hópur af múkkum sem drepur einn af sínum fyrir að vera öðruvísi á litinn. Fyrir að skera sig úr fjöldanum.

Og þá er ég ekkert að tala um einhvern sem klæðist öðruvísi. Nei, hann gárar nú bara vatnið - hvort sem það var nú meðvitað eða ekki.

Þessi kona hefur í mörg ár reynt að láta þann litla draum sinn rætast að reka lítið gistihús samhliða því sem hún hefur ræktað jurtir og grænmeti. Stuttu áður hafði henni reyndar næstum verið nauðgað af giftum manni í bænum og í kjölfarið verið kölluð "Hóran" til þessa dags á miðborðinu í frystihúsinu.

Hún kærði manninn ekki. Löggan bróðir hans sagðist aldrei munu taka við neinum lygasögum frá henni. Hann sagði hins vegar öllum bænum frá því að hún væri að breiða það út um allan bæ að bróðir hans hefði reynt að nauðga sér. Helvítis kvikindið hún.

Þetta var of mikið fyrir þorparana.

Í þorpi þar sem þeir sem ekki gátu eða nenntu að vinna í fiski unnu í sláturhúsi, var þetta auðvitað ekkert annað en athyglissýki og ömurlegheit af því taginu að meira að segja systkini hennar sneru brátt við henni bakinu og rassinum.

Steininn tók svo úr þegar hún ákvað að endurreisa leikfélagið á staðnum og þar sem að hópsálin er yfirleitt sterkasta aflið litlum samfélögum, þá endaði með því að hún þurfti að leika í leikritinu sjálf, ásamt aðfluttum, sem hvort eð er voru álitnir skrýtnir og höfðu því engu að tapa með því að taka þátt.

En í þessum bæ þar sem ekki er liðin nema áratugur síðan að hópsál bæjarbúa sameinaðist um að þagga niður barnamisnotkun og áralangt heimilisofbeldi innfædds sem endaði með sjálfsmorði konunnar hans, var þetta álitin stríðsyfirlýsing.

Hvað var að þessari kellingu. Ekki nóg með að hún hefði tekið eitt elsta hús bæjarins, gamla spýtna hrúgu frá stríðsárunum, og gert upp þannig að helvítis pakkið úr hundraðogengum var farið að spássera þar um með sitt latte og lite. Heldur hafði hún nú ákveðið að opinbera þvílíka athyglissýki sína og nota til þess félagsheimili bæjarbúa.

Félagsheimilið stóð auðvitað tómt alla daga aðra en þá sem bæjarbúar hittust þar til að fagna 17. júní, upphafi þorra og svo þegar Kaupfélagsstjóranum hentaði að heimila starfsmannafélaginu að kaupa kassa af Kláravíni og halda árshátíð - en það hafði ekki gerst í nokkur ár. Dýrtíðin skiljiði.

Nú ætlaði vinkonan sem sagt að setja upp eitt leikrit og fyrir einhvern ógurlegan misskilning hafði oddvita hreppsnefndar yfirsést að hafna beiðni hennar um útleigu hússins vegna sýninga leikritsins.

Oddvitinn stamaði og boraði tánni í trégólfið í einhverju eldhúsi bæjarins þegar froðufellandi konur og karlar stóðu yfir honum og óskuðu svara við því hvers vegna í ósköpunum "helvítis tussan á Læk" hefði stolið af honum félagsheimilinu þeirra. 

Með rödd sem einungis konur eiga til var oddvitinn krafinn um að taka til baka þessa ákvörðun. Konan hans gekk harðast fram í málinu.

Á næsta fundi hreppsnefndar - stuttu áður en komið var að umræðum um kaup á sláttuorfi til sveitarfélagsins og rétt eftir að samþykkt hafði verið að helmingur útsvars bæjarbúa það árið færi í aukið hlutafé í frystihúsinu - var ákvörðun að leigja Litla leikklúbbnum breytt og samningum rift eins einhliða og fleiri en einn geta.

Litli Leikklúbburinn hét það eftir hallarbyltingu þorpara í nýendurreistu leikfélagi staðarins og í vegna þess þurfti vinkonan og félagar að stofna nýtt. Meirihluti á fjölmennasta aðalfundi þess frá því á síldarárum lagði til að leikfélagið setti ekki upp leikrit. Þetta var gert svo vinkonan gæti ekki truflað bæjarbúa með athyglissýki sinni og rugli.

En af því að á Íslandi er ekkert þorparalýðræði leitaði vinkonan til æðra stjórnsýslustigs, eins og það heitir. Þrátt fyrir að þar reyndu menn að finna allar leiðir til að láta ákvörðun hreppsnefndar standa. Þá stóð samningurinn um félagsheimilið. Það breytti engu þó þingmaður þorpsins reyndi að beita sér og benda á ákvæði í lögum um neyðarriftanir. Helvítis leikritið færi á svið.

En af því þorparar deyja ekki ráðalausir - bara kjarklausir. Þá lögðust þeir nú í grúsk.

Í gamalli samþykkt frá byggingu félagsheimilisins mátti lesa að húsið "skyldi ævinlega standa öllum opið --  meira að segja utanbæjarfólki og flökkulýð á leið til Reykjavíkur."

---------------------- 

Þetta hafði verið gert eftir fimm manna fjölskylda varð úti í nágrenni þorpsins snemma á síðustu öld og hafði engin önnur ráð með gistingu en sjálfa fósturjörðina. Þar fraus svo fjölskyldan saman eina nótt í nóvember og dó. Þau voru utanbæjarfólk á leið fótgangandi til Reykjavíkur um fjallvegi og fjörur.

Samgöngur hafa lengi hamlað því að allir þeir sem vildu Suður kæmust alla leið.

Bæjarbúar skömmuðust sín fyrir dauða fólksins sem hafði verið rekið úr hverju húsinu af öðru.

Flugufrétt fer þannig hraðar yfir bæinn en fimm manna fjölskylda með pinkla.

Þannig hafði íbúi yst í bænum talið þarna á ferð ekki einungis aðkomumann heldur líka eftir því sem honum sýndist lúsugt lið með holdsveiki úr þarnæstu sveit. Fréttin hafði sem sagt farið um allan bæinn á undan fjölskyldunni og þegar þau komu að innsta húsi bæjarins voru þau hrakinn af tröppunum af prestsfrúnni sem hafði bundið tóbaksklút um vit sín og vopnast gamalli haglabyssu til að hrekja óværuna frá húsi drottins.

Lengi vel var eftir þetta alltaf opinn beitningaskúr í bænum fyrir flökkulýð. Svo var skúrinn rifinn og félagsheimilið byggt. Það skyldi koma í veg fyrir að eyða þyrfti meira landrými í kirkjugarði þorpsins undir aðkomufólk. Það gæti þá bara lagt sig í félagsheimilinu og svo haldið áfram suður.

Fjölskyldan fimmmanna var hins jörðuð í gröf sem kvenfélagið gaf á legstein. Þar stendur enn:"Hjónin XXXXXX og XXXXX Börn þeirra XXXXX, XXXXX og XXXXX. Þau gista í húsi Drottins."

--------------- 

Auðvitað hafði félagsheimilinu löngu verið skellt í þrefaldan ASSA-lás þegar þarna var komið við sögu. Til þess höfðu séð þýskir túristar sem lesið höfðu um að ókeypis væri að gista í húsinu og notað það óspart.

Hins vegar þýddi þetta að hreppsnefnd kom til fundar einu sinni enn og nú var aðeins eitt mál á dagskrá. Beiðni frá þorpurum um "að hafa fullan aðgang að húsinu, hér eftir sem hingað til, jafnvel þó húsið sæti þess nú að Reykjavíkurvaldið yfirtaki það í nafni einhverra stjórnsýslulaga." Svo var vitnað í dautt fólk.

"Eins og oddvita og hreppsnefnd raunar allri ætti að vera kunnugt um var það skýr vilji kvenfélagskvenna og ungmennafélagsmanna sem byggðu húsið að það ætti að standa öllum opið alltaf. Og viljum við þannig minna formann hreppsnefndar á að móðir hans heitin, formaður kvenfélagsins, er sögð hafa sótt það fastast að þessi regla yrði við lýði. Minnug nóvember-óhappsins 1904 þegar fjölskylda á leið suðurum til Reykjavíkur varð úti vegna misskilnings um hver skyldi hýsa þau. Varla vill hreppsnefnd bera ábyrgð á því að slíkt endurtaki sig."

Þetta var of mikið fyrir oddvitann. Hann sá fyrir sér móður sína upphlutnum og lítið tár vætti þurrt yfirbragð hans. 

Krafan var samþykkt.

Leikæfingar hófust bráðum fyrir fullu húsi. Þorparar flykktust í félagsheimilið til að nýta sér allt að því stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að vera í húsinu þegar þá lysti.

Yfirleitt sátu menn bara hljóðir meðan samkynhneigði leikstjórinn að sunnan stýrði leikhópnum í gegnum eitt af verkum Dario Fo. Fljótlega fór ein og ein hláturroka svo að heyrast úr hópi þorpara eftir því sem æfingum miðaði betur.

Það var hlaupinn flótti í liðið.

Þeir sem hlógu fengu að heyra það í vinnunni daginn eftir. Þannig var lyftaramaðurinn í móttökunni vændur um það í níu-pásunni að "glápa á rassgatið á hommanum eins og hommi" vegna þess að hann hafði hlegið af leikritinu. Lyftaramaðurinn, sem einungis var einhleypur vegna þess að foreldrar hans höfðu aldrei fílað þessar utanbæjarkvensur sem hann kynnti þeim fyrir, át sinn Sæmund í sparifötunum og með drakkann sinn gula Braga, í lyftaranum það sem eftir lifði dags.

Stuttu áður en leið að frumsýningu fengu svo þorparnir nóg. Eitt kvöldið þegar leikarar mættu til æfinga ásamt tuttugu manni hópi þorpara, blasti við ófögur sjón: Gólf Félagsheimilisins var áeins og fenjasvæði og einstaka fjalir á floti eins og skip á miðju dansgólfinu. Þarna yrði ekki aftur stráð kartöflumjöli og dansaður skottís. Hell nó.

Skemmdirnar á félagsheimilinu voru metnar á aðra milljón. Það kom fram í fundargerð hreppsnefndar. Þeirri sömu og samningum við Litla Leikklúbbinn var rift á forsendum samningsrofs.

Engu breytti þó asahláka hefði orðið til þess að flæddi inn í húsið. Leikklúbburinn bar ábyrgðina.

Vinkonan pakkaði niður og gafst upp eftir að hafa staðið í góðan klukkutíma við kassann í Kaupfélaginu án þess að fá afgreiðslu þó engin væri biðröðin.

Síðast frétti ég af henni þar sem hún var að búast til að sofna í bíl sínum - einhvers staðar á leiðinni til Reykjavíkur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

er þetta Ísland í dag? Ertu að segja satt strákur?!?

Bjó einu sinni út á landi í smáþorpi, leið vel þar þegar ég gat litið fram hjá kjaftaganginum en þetta er ekki sambærilegt. Hvað hét myndin þarna? U-turn ? Er það ekki þarna með klikkaða fólkinu í smábænum .... þetta er nánast verra

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 15:14

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég bjó í fjögur ár í þorpi hér skammt frá Reykjavík.
Þorpararnir voru svo mikið fyrir baktalið að ef ekki var til nógu kræsileg saga um náungann var hún bara fundin upp. Ég fékk mig fullsadda og flutti suður eftir að sú saga barst um bæinn að ég hefði farið í fóstureyðingu til Reykjavíkur.
Hið rétta var að ég hafði sagt dagmömmunni sem passaði tveggja ára dóttur mína að ég kæmi ekki með hana í pössun næstu daga,  þar sem ég væri að fara í smá aðgerð til Reykjavíkur.
Ég var bara ekkert að segja konunni hvers konar aðgerð þetta væri en þetta var nú reyndar ástunga á kinnholum. 
Óvissan um hvað væri eiginlega að mér varð svo til þess að  hugmyndaflug bæjarbúa fór algjörlega úr böndunum með fyrrgreindum afleiðingum. 
En ég held reyndar að flestir þorparar séu með þessu marki brenndir þ.e.a s.  með óvenju ríkt ímyndunarafl og afspyrnu sterka þörf til þessa að tala um náungann.

Svava frá Strandbergi , 15.2.2007 kl. 15:27

3 identicon

Já gvöð!  Fólk í þorpum hefur svo ríkt ímyndunarafl og þörfin til að tala illa um náungann er svo rík, jeminneini!

Ég fór alltaf í fóstureyðingar heima. 

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 16:02

4 Smámynd: Hákon Unnar Seljan Jóhannsson

Þetta er ekki svona á Bolungarvík! nei annars leiðinleg saga en vel skrifuð bróðir sæll þarft þú ekki að fara gefa út bók eða kannski skrifa fyrst og gefa svo allaveganna flott grein.

Hákon Unnar Seljan Jóhannsson, 15.2.2007 kl. 16:03

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Áhrifarík lýsing á galdrafári, sem sannarlega getur orðið í litlum einangruðum samfélögum, sem reyna miskunarlaust að halda í sitt staus quo.  Minnir á galdramálin í Salem, þar sem fólk fær í fásinninu til að fá útrás fyrir gremju sína, sem síðan fer út yfir allan þjófabálk.

Ég kannast ekki við þessa illsku af mínum heimaslóðum en rætni og Þórðargleði hefur hinsvegar alltaf verið þjóðaríþrótt og þarf ekki smáþorp til. Svona ofsóknir þekkjast líka í borginni og ganga jafnvel fram á síðum dagblaðanna.

Þetta er bitur saga og ljót og dettur mér einna helst í hug að eina skýringu sé að finna í því að allt fólk með viti hefur yfirgefið byggðina og bitru og reiðu einstaklingarnir sitja eftir og láta angist sína af fásinni og fátækt bitna á einhverjum, sem er drífandi en minnir það jafnframt á eigin drullusokkshátt með bjartsýni sinni.

Þetta er annars ekki bundið við Ísland eitt eða smáþorpin. Mannleg hegðun á þessa birtingarmynd einnig í stærra samhengi, bæi gagnvart minnihlutahópum og þjóðum.   

Jón Steinar Ragnarsson, 15.2.2007 kl. 17:50

6 identicon

Ég neyðist nú til að hryggja bróður þinn með því að svona finnst nú bara víst í Bolungarvík - eins og í flestum öðrum smábæjum. Sem borin og barnfæddur Bolvíkingur verð ég því miður að segja það að þrátt fyrir að þetta sé einn fallegasti staður á landinu þá er varla hægt að telja hann frábæran þökk sé sumu fólkinu sem býr þar. Mér þykir afar vænt um þennan stað og margt af fólkinu sem þar býr en það var samt sem áður eitt af mestu gæfusporum í lífi mínu þegar ég flutti þaðan og gat fengið að vera ég sjálf/ur. 

En þar sem maður verður nánast réttdræpur ef maður dissar Bolungarvík og Bolvíkinga þá er þetta komment ekki birt undir nafni. Ef það eru einhverjir Bolvíkingar sem lesa þetta og reiðast þá hvet ég þá til að líta til baka og gá að því hvort þeir geti í fullri hreinskilni sagt að þeir muni ekki eftir fólki sem var beinlínis hrakið úr bænum, hvort þeir geti nefnt fjölskyldur sem allur bærinn leit niður á og kom almennt illa fram við og í hversu mörg skipti þeir muni eftir því að samfélagið hafi staðið við bakið á þeim sjálfum. Og síðast en ekki síst hvort þeir muni eftir því þegar kynferðisleg misnotkun á ungum stúlkum var þögguð niður og viðkomandi gerandi í besta falli beðinn um að yfirgefa bæjarfélagið.

Þessi pistill er góður og gæti átt við hvaða smábæ hér á landi sem er. Það er vonandi að hann veki þá sem lesa til umhugsunar og hvetji ,,þorparana" til að leggja áherslu á það góða í sinni heimasveit og gera bæjarfélögin sín enn betri.

bolvikingur (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 20:08

7 Smámynd: Hákon Unnar Seljan Jóhannsson

Já það kæmi mér ekkert á óvart ef þetta væri svona á Bolungarvík. Enda er maður nýfluttur. Annars var ég ekki að meina leiðinleg saga bróðir heldur kannski sorgleg eða svoleiðis. haha fattaði þetta þegar ég las þetta yfir.

Hákon Unnar Seljan Jóhannsson, 15.2.2007 kl. 20:29

8 Smámynd: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

Kæri Bolvíkingur, ég reiðist ekki þínum skrifum, heldur gleðst yfir því að þér skuli þykja vænt um Víkina, þó auðheyrt sé að þú eigir héðan misgóðar minningar. Hefði þó viljað að þú hefðir getað stigið þín gæfuspor hér í Bolungarvíkinni og óska þess að þú getir ávallt verið þú sjálfur.

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 15.2.2007 kl. 21:13

9 identicon

Svona saga á ekki bara við um smáþorp, hún á við um alla menn hvar sem þeir búa í heiminum. Þetta á líka við um Reykjavík, allt Ísland, Evrópu og bara allan heiminn. Þetta birtist bara í mismunandi mynd eftir því hver skalinn er... fólk ræðst á konuna í smáþorpinu, smjattið á síðum glanstímarita (lesist sorprita), Þjóðverjar ráðast á Gyðinga.... og svona mætti lengi telja...

Hvort sem þú býrð á Bolungarvík eða Reykjavík.... skiptir ekki máli... það verður alltaf slúðrað um náungann!!

Fyrrverandi "þorpari" (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 23:40

10 identicon

Þetta eru góð skrif hjá þér Helgi og ég er sammála bróður þínum varðandi frekari skrif. Ég hef nú reyndar alltaf haft mikið álit á þér, líka hérna í den :) En sagan er góð og "sönn" að mörgu leyti. Þetta er ótrúlega algengt viðhorf í litlum bæjum. Ég er ekki sammála "fyrrverandi þorpara" að nákvæmlega þetta eigi sér stað út um allt. Ég hef allavega reynsluna af öðru. Auðvitað viðgengst kjaftagangur út um allan heim og einelti og allskonar ömurleg heit, en sjaldnast lætur fólk hrekja sig í burtu af stærri stöðum. Þú getur nefnilega horfið inn í fjöldan þar ef þú vilt, það gerir þú ekki í smáþorpi með 1000 íbúum. Þar "meiga" allir skipta sér af þér og af því sem þú ert að gera.

Fjóla M. Hrafnkelsdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 09:52

11 identicon

Ég er viss um að margir kannast við þessa sögu, hún er óháð tíma og rúmi. Einelti er vissulega til staðar í heilu samfélögunum. Spurning um að hringja í Kompás og láta þá koma fyrir flugumanni á Raufarhöfn?

Drengur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 13:11

12 identicon

Skrifað af mikilli næmni og innsýn, þykir mér. Þau eru þvi miður mörg fórnarlömb eineltis úti á landi, sem ég horfði uppá sjálfur þegar ég var að alast upp í næsta "krummaskuði" við Helga.

Valdimar Arnþórsson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 15:14

13 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Þetta er kunnugleg saga og já, þau eru mörg þorpin. Ég flutti frá mínu þorpi fyrir 30 árum gæti aldrei hugsað mér að flytja til baka, aldrei!

Vilborg Valgarðsdóttir, 16.2.2007 kl. 15:22

14 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Sæll Helgi minn,  og það er alveg á hreinu að þú ættir að gefa út bók!!!

Ég minnist þess nú eitt sinn er ég vann í slorinu hjá BD á Djúpavogi að það var talað um einhvern ónenfndan vesælan einstakling innan veggja frystihússins.  Hann átti víst að vera svo erfiður í umgegni að tengdmóðir hans henti honum og dóttur sinni út úr sínum húsum.

 En viti menn það var leitun að öðrum eins öðlingum eins og honum og það fanst einmitt tengdamóður hans mest af öllum.

Ástæðan fyrir rógnum var leiði yfir því að það ver ekkert bitastætt til að tala um, og að þau skötuhjúinn voru nýflutt út frá tengdó í gamalt hús sem hún átti í þorpinu, til að geta verið aðeins útaf fyrir sig, enda ung og ástfangin.

Ef það er ekkert til að tala um þá er betra að búa það til frekar en að þegja.

Eiður Ragnarsson, 17.2.2007 kl. 00:41

15 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Góð saga.... þó hún sé sögð með hroka þess sem kemur frá 100 þúsund manna samfélagi og talar niður til þess sem býr í 1000 manna samfélagi, hroka þess sem telur sig vita hvað menning og góð skikkan er og hún sé nú ekki frá þorpsskrílnum. Ráðlegg þér að lesa þorpið eftir Jón úr Vör og lesa líka um sögu Patreksfjarðar, líka samtímasöguna sem við heyrum mest af í fréttum. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.2.2007 kl. 23:35

16 Smámynd: Helgi Seljan

Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki lesið Jón úr Vör. Sonur hans kenndi mér hins vegar smíðar í eitt ár. Í hroka mínum og stórborgarhætti læt ég það duga.

Helgi Seljan, 18.2.2007 kl. 09:38

17 Smámynd: Rúnarsdóttir

Hroki er smart! Skrifaðu bók drengur!

Rúnarsdóttir, 19.2.2007 kl. 08:51

18 identicon

Sæll kæri leikbróðir - mér finnst framtakið gott og vil eins og aðrir biðla til þín að halda skrifunum áfram, enda sú íþrótt göfugri en sjálf glíman. Hrokinn sem vísað er í er meinfyndið fyrirbæri á meðan gáfur eru á bakvið og fávísir benda, en sorglegt í besta falli ef hrokinn sprettur af fáviskunni einni saman.

 Þú verður samt aldreigi borgarbarn Helgi Seljan því þó við báðir höfum flutt okkur um set þá eru ræturnar á fjörðunum austan á.

 Kveðja að norðan

Guðmundur Egill (www.absitinjuriaverbis.blogspot.com) (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 02:07

19 identicon

Ef sumir væru við suma eins og sumir eru við suma. Þá væru ekki sumir við suma eins og sumir eru við suma.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

Helgi Seljan. Næst þegar þú ætlar að skrifa ódauðlegt skáldverk,legg ég til að þú undirbúir þig vel og takir Viagr… nei þú veist gamla og góða þunglyndislifið.  

snorrihs (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 14:32

20 Smámynd: Snorri Hansson

Ef sumir væru við suma eins og sumir eru við suma. Þá væru ekki sumir við suma eins og sumir eru við suma.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Helgi Seljan. Næst þegar þú ætlar að skrifa ódauðlegt skáldverk,legg ég til að þú undirbúir þig vel og takir Viagr… nei þú veist gamla og góða þunglyndislifið.  

 

Snorri Hansson, 27.2.2007 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband