Þegar ég var yngri fannst mér fátt meira en sjómennska.
Sjómenn voru eins og rokkstjörnur í mínum augum. Kallarinir á fuglinum eins og togarinn Snæfugl SU-20 var kallaður voru mennirnir.
Þess tíma hermenn.
Í Bandaríkjunum halda menn oftar en ekki upp á 4. júlí með því að halda skrúðgöngu þar sem old vets eða fyrrum hermenn koma og sýna sig. Ungfrú-bærinn-sem-skrúðgangan-er-haldin-í er alltaf fremst. Síðan koma þeir sem skarta fötlun ýmiskonar úr hópi fyrrum hermanna flestir í hjólastól. Þar næstir koma svo í þeirri röð sem þeir slösuðust; fyrri heimstyrjöldin (á undanhaldi) sú seinni, Kórea, Víetnam. Restina leiða menn með krabbamein úr Persaflóastríðinu. Hugsanlegt að Írak II menn séu nú aftast.
Svo koma þessir með fjólubláahjartað í barminum.
Á Reyðarfirði var haldið upp á fjórða júlí mánuði fyrr. Okkar dagur var fyrsti sunnudagurinn í júní.
Það var Sjómannadagurinn.
Það var samt engin skrúðganga. Bara sigling út fjörðinn með togaranum og mænt upp í áhöfnina sem annað hvort var fullorðin eða full. Þessir fullu voru skemmtilegastir. Það voru yngri gaurarnir sem mættu rakir í siglinguna svona eins og það væri upphitun fyrir ballið um kvöldið. Þeir töluðu hátt um kvenafar og slagsmál, sem mér fannst þá einu tveir hlutirnir sem skiptu máli.
Yfirleitt var siglingin næs og róleg. Rúntur út að afleggjaranum til Eskifjarðar og til baka. Einu sinni og nú man ég bara eina solleiðis en þær gætu verið fleiri var þó kapp. Þá höfðu nokkrir menn frá Eskifirði og Reyðarfirði keypt annan togara - Vökuna SU - sem atti kappi við þann sem fyrir var.
Ég held að skipstjórarnir þann daginn muni þetta ekki sem kapp en það var það í mínum augum og Ómars vinar míns. Við unnum. Snæfuglin vann.
Reynslan sko.
Og svo var farið heim að fá sér í glas það er að segja fullorðnir, börn drekka ekki heima hjá sér allavega.
Svo var haldið ball. Það var þá sem maður vildi vera sjómaður. Sjá þá þarna fulla og flotta. Talandi um höl og gaura sem lentu næstum í Gils.
Gils taldi ég beljaka á þessum tíma. Manninn sem lemdi Binna sterka og tæki Benna í sjómann. Seinna kom í ljós að um var að ræða spilvír með krók á endanum.
Þeir áttu líka sand af seðlum og flotta bíla - ég vona að ég móðgi ekki konur þó ég segi að það hafi skipt máli á ákveðnu aldursskeiði með margra kynsystur þeirra að eiga bíl og þá helst með skammstöfuninni G, T, og I á eftir nafni bílsins.
Þeir voru almennt töff sjóararnir og til marks um það þá var það okkar unglingana að landa úr togaranum þegar við vorum komin í tíunda bekk og það þótti þvílík upphefð. Við slógumst næstum um það strákarnir að fá að vera í lestinni. Þaðan var fiskikössum lyft á bryggjuna af kranamanninum Lassa Steini Þórhalls sagði honum til. Þaðan voru kassarnir flokkaðir eftir númerum í gáma England eða Þýskaland.
Roðlaust og beinlaust.
Í lestinni, hvar fraus hor og sviti, átti harkan ein lögheimili að okkar mati. Þar vorum við kannski ekki á sjó en samt um borð. Gengum frá borði þegar lestin hafði tæmst eins og í Dressmann-auglýsingu. Ekki laust við að stelpurnar litu öðruvísi á okkur á eftir. Svo fórum við á fyllerí með hálfa Kláravín og slógumst svona eins og við héldum að sjómenn gerðu.
Að vinna í frystihúsinu eða bræðslunni var ekkert í líkingu við það að vera á sjó. Í frystihúsum voru líka allir með hárnet, í hvítum stígvélum og bláum frystihússloppum. Aldrei kúl. Lyktin sem festist við allt í bræðslunni virkaði heldur ekki á konur aldrei.
Hell nei. Þar voru menn í fullvinnslu. Fokk ðet. Við vorum í frumvinnslu.
Svipað eins og munurinn á slátrara og pylsugerðarmanni.
Ég ákvað sem sagt snemma að verða sjómaður. Ég hafði farið á sjó með pabba þegar ég var polli meðan við vorum með ömmu og afa í Flatey. Ekkert mál.
Svo kom stóra tækifærið. Ég var 16 að verða 17 og kominn í menntaskóla.
Snæfuglin á leiðinni í slipp til Akureyrar og það vantaði mann til að fara með og vinna smá um borð.
Ég var maðurinn.
Mætti um borð með plastpoka með smá fötum. Kæruleysislega kuðlaðan svona eins og ég væri nývaknaður af löngu fylleríi og pokinn hefði verið koddinn minn. En í raun hafði mamma tekið til fötinn í hann og rétt mér hann með kossi á kinnina og beiðni um að fara nú í guðanna bænum varlega.
Stelpur einu ári yngri en ég voru á bryggjunni búnar að taka þátt í löndun. Flokka kassanna sem strákarnir kraftadelluðust við að henda einhvern veginn á bretti í lestinni. Þær tóku til eftir testósterón köst strákanna.
Ég var ekkert lítill í sjálfum mér standandi framan við brúnna með landtógið í hendinni. Þær voru samt svo miklar gelgjur að þær föttuðu ekki að gráta á eftir mér veifuðu samt og flissuðu bara. Það var nóg.
Þegar Stebbi fór á sjóinn þá var sól um alla jörð og hún sat á bryggjupollanum hún Lína. Grét í vasaklút og svuntuhorn og svartan skýluklút .
Ég man ég fylltist eldmóði þegar klæddi mig í gallann til að fara út að sleppa leysa landfestar eins og aumingjar kalla það. Duggarapeysa og gúmmíbuxur. Hjálmur og fóðraðir gúmmívetlingar. Strigaskór voru þó látnir duga enda engin stígvel laus í réttri stærð.
Dressed to kill.
Sleppti eins og Sigurður sjómaður bara ekki fullur.
Og hann Stebbi úti á lunningu á lakkskóm svörtum stóð uppá Línu renndi karlmannlegum sjónum. Nei þeir kveðja ekki margir svona ást og svona þrá
- eða sigla burtu spariskónum á
Á leiðinni út fjörðinn var byrjað að taka trollið klárt í gáma til að hífa í land meðan á slippnum stóð. Ég var helvíti góður þarna á spilinu og hífði og slakaði eftir pöntunum í gáminn fyrir strákana.
Og hann Stebbi var að hugsa meðan hægt þeir sigldu út, hversu hetjuleg sú kveðjustundin væri. Hlutverk réttu, dapra stúlkan. Og hinn djarfi ungi sveinn drengilegur svipur harður eins og steinn
Svo leið korterið. Smám saman fór ég að vera seinni og seinni að stoppa híf og slak þegar til var ætlast. Ég fór einhvern veginn að verða allur frekar furðulegur.
Meðan Stebbi var að hugsa þetta, höfnin sagði bless og á hafsins öldum skipið fór að velta
Yfir borðstokk nokkrar gusur komu glettnum öldum frá svo að gefa tók nú spariskóna á.
Þá ældi ég.
Og mikið gat ég ælt.
Ég stóð við spilið og ældi milli þess að hífa og slaka. Hugsaði: Ef ég fengi bara að leggjast niður og sofna aðeins, þó ekki væri nema korter. Þá yrði þetta miklu betra. Gat samt engar veginn hugsað mér að vera þessi sjóveiki. Alls ekki. Sárt stolt.
Það voru fjórir menn með mér á dekkinu: Ketill, Palli annar stýrimaður, Ingvar Rikharðs og Óskar StínuÞóris sem var yngstur og litlu eldri en ég. Þeir tóku smám saman eftir því að úthald mitt þvarr. Ég gerði tóma vitlausa í hífingunum og eftir smá stund kom Ketill sá elsti félaganna og fór vingjarnlega að segja mér að stoppa um leið og mér var sagt að hætta eða stoppa. Ég sagði já. Um leið og hann gekk til baka þá ældi ég. Sendi eina á grænmálað dekkið.
Óskar fattaði þetta fyrstur. Gekk föðurlega til mín og sagði: Helgi minn reyndu bara að hafa augun á sjóndeildarhringnum um leið og við verðum komnir út fjörðinn. Og ég hlýddi.
Sjóveikin versnaði bara við þetta en Óskar glotti. Svona eins og Óskar glottir.
Svo kom Páll Rúnarsson. Hann var annar stýrimaður og spurði mig hvort ég væri slappur.
Þegar þarna var komið við sögu var ég orðinn sjóveikur af þeirri tegundinni að hafið sjálft með tilheyrandi drukknun var ekki svo vitlaus hugmynd að minnsta kosti ekki verri en staður og stund. Ég sagði Palla að ég væri líklegast að verða smá sjóveikur. Palli tók við.
Tveimur sekúndum seinna ældi ég.
Á stígvelin hans Palla.
Fjórum mínútum síðar var ég kominn í koju í klefa sem ég fann af handahófi.
Palli sagði mér seinna að nokkrum tímum seinna hafi þeir klárað vinnuna út á dekki. Þá hafi þeir komið inn í mat og verið spurðir hvar ég væri. Ég var jú ekki mikið að hlaupa upp í brú, þaðan niður í messa og þaðan niður í vél til að láta vita af því að ég væri sjóveikur aumingi á leið í koju, þarna fyrr um daginn.
Nema hvað.
Enginn dekkmanna vissi af mér enda hafði ég bara farið inn. Kokkurinn trúði ekki að ég hefði farið framhjá honum ef ég hefði farið inn og Ásmundur skipstjóri setti bara í brýnnar - og drap tittlinga.
Ég var týndur.
Mikil leit hófst um allt skip að týnda farþeganum, en þannig var ég skráður á blað sem yfirvöld tóku til skráningar áður en lagt var í haf. Allir klefar voru vandlega rannsakaðir og hverju kojutjaldi svipt frá - kojutjald er það sem kemur í veg fyrir óþarfleg vandræðilegheit milli skipverja í tveggja- eða fleiri- mannaklefum. Vélin var sópuð en hvergi var ég.
Ég fannst bara ekki.
Það var svo sem eftir mér að kunna minna á sjó og sjómennsku og svona en að vita hvorum megin höfðagaflinn væri í kojum til sjós. Hefði ég haft rænu til þá hefði ég tekið eftir klámblaðaljósinu sem staðsett er við höfðagaflinn á hverri til að kveikja dulítið ljós hjá þreyttum sjóurum á leið til sinnar vökulögbundnu hvílu. En ég sá það ekki.
Lá bara þarna í fósturstellingunni og stundi aumlega milli þess sem brakaði í kojunni undan veltingnum.
Þess vegna fannst ég ekki fyrr en nýr klefafélagi minn ætlaði að ná sér í sælgæti í klefa sínum.
Daginn eftir var komið í land og áhöfnin snæddi pizzu með útgerðarmanninum á Akureyri. Menn drukku með bjór og hlógu. Ég þagði bara og drakk kók.
Smánaður. Algjörlega.
Og hún Lína enn á bryggjunni svo beygð og döpur sat - þegar bátur drauma hennar aftur snéri. Upp þú fjandans æludýrið, öskrað var þá dimmum róm og einhver steig á land í blautum spariskóm.
Já þeir sigldu marga hetjuför í huga vorum út og í hörðum leik af drengjum öðrum báru en í dagsins heimska lífi, margur draumur okkar dó - varð að deyja því við gátum ekki nóg
Flokkur: Bloggar | 20.1.2007 | 21:06 (breytt 21.1.2007 kl. 13:16) | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Blóm og kransar
Fólk
Konur sem ég bý með
Austlendingar
Kallað yfir hálendið
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- adalheidur
- andres
- annapala
- atlifannar
- audureva
- aas
- agustagust
- arnith
- polli
- bergurben
- birnamjoll
- baddahall
- lubbiklettaskald
- bet
- bingi
- bleikaeldingin
- gattin
- bryndisisfold
- bodvar
- dagga
- dabbi
- dofri
- saxi
- eirikurbergmann
- gloria
- ellasprella
- disill
- eyglohardar
- eyrun
- vinursolons
- ea
- fanney
- feministi
- finnurtg
- sifjar
- feron
- fridjon
- ulfarsson
- kvistur
- gummibraga
- gudmundurmagnusson
- gummisteingrims
- grj
- hinriksson
- hallgri
- nesirokk
- hannibal
- handsprengja
- 730bolungarvik
- heidathord
- hemba
- belle
- bolti
- kjarninn
- hlynurh
- kolgrimur
- hrafnhildurolof
- tulugaq
- hrannarb
- hrolfur
- destiny
- hoskuldur
- indahronn
- ingo
- jensgud
- hansen
- skallinn
- joninaben
- hugsadu
- killerjoe
- kolbrunb
- kiddip
- lara
- magnusdk
- matti-matt
- maggabest
- gudbjorn
- poppoli
- ljosvellingar
- bonham
- panama
- pallvil
- hux
- pollurinn
- vertinn
- puma
- rungis
- salvor
- sigmarg
- einherji
- hvalur
- sms
- snorris
- stebbifr
- stefanthor
- fletcher
- kosningar
- svenni
- swaage
- tidarandinn
- grindjani
- tommi
- truno
- ver-mordingjar
- hundshaus
- postdoc
- vikingurkr
- thorarinnh
- thordursteinngudmunds
- doddinn
- toddi
- vitinn
Athugasemdir
Dásamleg færsla, félagi. Mig skortir tilfinnanlega orð til að lýsa lyktarkokteil þeim sem mér fannst fylla vit mín við lesturinn.
Orri Harðarson, 20.1.2007 kl. 21:54
Sjómennskan, já, sjómennskan.... Sjómennskan er ekkert grín.
Huldabeib, 20.1.2007 kl. 22:43
Uss uss, þetta minnir mann á sína fyrstu sjóferð... Hún var reyndar til fiskveiða. En ég hét því reyndar eftir hana að fara aldrey aftur á sjó og hef staðið við það " so far " á reyndar ekki von á að breyting verði þar sem ég stunda vinnu í landi á ágætis launum þó svo að bróðir minn Lognið ( http://www.lognid.is ) stundi sjóinn á meiri launum mun kvarta ef hann lækkaði niður í mín laun...
Kveðja Kaldi --- http://www.kaldi.is
Kaldi Stormsson (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 23:42
Snilld! ég segi ekki annað. Ég held þú hafið fæðst á röngum stað, ert borgarbarn inn við beinið, kallinn minn Hvað um það, legg til að þú skrifið unglingabók um töffarann Helga og strákapör hans. Hlakka til þegar þú rifjar upp fyrsta kossinn eða fyrstu ástina kv, Lára http://blog.central.is/larao/
Lára (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 02:17
Flott skrif - hafði virkilega gaman af að lesa þetta. :)
mbk. Stebbi
Stefán Friðrik Stefánsson, 21.1.2007 kl. 03:27
Ég endist alveg heilar 4 sjóveikisvikur á sjó, en þá fékk ég líka nóg, gekk í land og lofaði sjálfum mér því að þetta helvíti myndi ég aldrei nokkurntíman leggja fyrir mig.
Og það stendur enn...
Eiður Ragnarsson, 21.1.2007 kl. 07:09
Þetta er flott saga það væri gaman að rekast oftar á svona færslur.
Magnús Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 11:07
Helgi minn, þetta var frábær lesning. Og ekki er verra að þekkja aðeins til, staðhætti og persónur og þess háttar... hver þekkir ekki glottið hans Óskars? Ég tek undir með Láru, að þú skrifir eitthvað um strákapör Helga töffara - af nógu er að taka
Hildur Rúnars. (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 12:14
Frábær sunnudagslesning, takk fyrir !
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 21.1.2007 kl. 13:50
Sæll félagi - þetta er gott og flott hjá þér, hafðir greinilega gott af þvinguðu þögninni sem fylgdi vinnustaðaskiptum:-). Kv, Hr. Einn Reyðfjörð
Hr. Einn (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 14:44
Stórkostleg lesning! En þú mátt nú ekki láta þetta hljóma eins og sjómennskan sé alslæm. Ef mér verður hugsað til sjómennsku þá er mér ávallt efst í huga smá löndunnarstopp í Færeyjum á kolmunnaveiðum fyrir nokkrum árum þar sem ég rakst á marga stórkostlega austfirðinga um borð í hinum bátnum sem var að landa þarna. Ein skemmtilegasta sjómennskutengda minning mín :)
Austfirðingur (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 16:15
Sæll Austfirðingur.
Ef þetta er sama löndunarstopp og mér dettur strax í hug þá verð ég að taka undir að þetta er og verður ein eftirminnilegasta sjómennskuminning mín - því þótt sagan hér að ofan gefi ekki tilefni til þá var ég á sjó í tvö og hálft ár nokkru eftir þessa fyrstu sjóferð.
Kannski ég manni mig upp í að segja alla söguna frá löndunarstoppinu í Færeyjum einhvern daginn. Held ég þyrfti samt að hringja í eina fjóra menn til að fá leyfi til að rifja þá Bjarmalandsför upp; afskipti laganna varða, umferðarteppu af völdum herskárra íslendinga í Þórshöfn og leitin að týnda hásetanum. Sá fannst undir morgun með hálfa girðingu í fanginu ógnandi lögreglumönnum sem höfðu afráðið að læsa sig inni í bíl af ótta við hásetann og meinta ógnandi tilburði hans.
Helgi Seljan, 21.1.2007 kl. 16:26
sælir
fín lesning.
Aldrei varð ég svo frægur að fara á sjó á Snæfuglinum en eflaust hefði ekki verið verra að byrja þar sjómannsferilinn. Ég byrjaði á Víði EA og það var sko ekkert elsku mamma að vera í kringum þessa norðlensku jaxla sem voru lítt hrifnir af titti einsog mér um borð 17ára gömlum hehe enda oftar en ekki sem maður var smúlaður rækilega í lok vaktar. en minnisstæðast er þegar ég var að þrífa móttökuna, þá tóku þeir sig til og lokuðu mig inni, hleyptu svo sjónum á og hálfylltu hana, stóðu svo og horfðu á mig í gegnum kýraugað hehe þetta var eldskírn af norðlenskum sið..
kv ingi lár
Ingi Lár Vilbergsson (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 21:49
Ja ef við höfum sama löndunnarstopp í huga þá var allavega notuð mjög frumleg aðferð að bón einnar barstúlkunnar við að fá barinn opnaðann fyrir okkur aftur. En fyrir rest þá opnuðu þær aftur og gáfu okkur meiri bjór! Og jú.... það var víst keyrt á mig þarna líka. Stórskemmtilegt stopp. En lagana verðir? Annaðhvort man ég ekki eftir því (sem er ekki furða) eða þá að við af hinum bátnum höfum verið búnir að stinga af um það leyti. Ég allavega saknaði þess að sjá ykkur ekki þegar ég loksins vaknaði um borð og komst að því að þið höfðuð farið um morguninn. Ég sem hafði með mér nokkuð skemmtilegan hlut ætlaðan þér sem datt upp í hendurnar á mér á þessu fylleríi ;)
Austfirðingur (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 16:47
Hehehe. Þið voruð held ég farnir aftur til Fuglafjarðar þegar lögreglan hóf afskipti sín af okkur þarna - blásaklausum. Held ég verði að láta þessa sögu flakka á næstunni. Ég man eftir þessum tiltekna hlut, en get huggað þig við að hluti hans lenti í mínum höndum.
Lifi Kongó;)
Helgi Seljan, 23.1.2007 kl. 18:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.