Skrifar Jonni III Reykjavíkurbréfið?

Hef tekið eftir því að mörgum bloggaranum hér á Moggablogginu leiðist afskaplega mikið nafnlausar athugasemdir og hvað þá athugasemdir sem skrifaðar eru inn af einhverjum sem eingöngur stofnar blogg til að til að geta rifið kjaft undir nöfnum sem aldrei yrðu samþykkt af mannanafnanefnd.

Mér er sossum skítsama um þetta svona í prinsippinu en leggst gegn þessu af forvitnisástæðum.

Mig langar þó mismikið að vita hverjir standa á bak við nikkinn á Málefnum, eða hvað þá hver sé á bak við sum nikkinn á Barnalandi. By the way þá er ekkert að þeim vef og einhver besta skemmtun og egóísk uppörvun fyrir þá sem þurfa að fara í gegnum spjallið þar.

Hins vegar hef ég lengi af sömu forvitni haft gríðarlegan áhuga á því hver skrifar  - lengstum útbreiddari - nafnlausa dálka í Morgunblaðið.

Í gærkvöldi eyddi ég löngum tíma með Morgunblaðið í hönd. Fannst leiðarinn áhugaverður eins og oft áður og sömuleiðis útlistun á réttlætinu í Reykjavíkurbréfinu.

Einn hængur er þó ávalt á þessum lestri mínum; hann er sá að ég hef ekki hugmynd um hver heldur um pennann.

Ég meina svona í ljósi þess sem á undan er gengið hefði ég viljað vita hver karlanna í ritstjórn Moggans skrifaði harða gagnrýni á þá ákvörðun að draga Styrmi og Kjartan Gunnarssyni til vitnis í Baugsmálinu - en um það snerist Reykjavíkurbréfið að stærstum hluta.

Nú er mér sagt að þrátt fyrir ágætis fréttanef hafi Styrmir ekki lesið frétt frá því í lok síðustu aldar sem snéri að breytingum á íslenska stafrófinu. Þannig að þegar engin er zetan þá sé þar enginn Styrmir. En hver er það þá?

Nú sá ég fréttaskýringu framan á Mogganum á laugardag sem ég veit ekki betur en að sé skrifuð af aðstoðarritstjóra blaðsins og helsta álitsgjafa þeirra um stöðu stjórnmálaflokka.

Hann notar líka Zetuna.

Má ég þá frekar biðja um að framvegis merki menn sér verk sín á síðum Moggans en að ráðist verði í að nafngreina Málefnavefinn.

Mér finnst nefnilega fullt af því sem ég les eftir fólk í blaðinu fínt en á erfiðara með að taka mark á hinu - þessi sem blaðið skrifar sjálft. 

Það skiptir nefnilega stundum máli hver skrifar hvað - jafnvel opnuna með myndinni í miðju Sunnudagsmoggans.

Styrmir hefur sagt í tilefni af því þegar Ásgeir, þáverandi ritstjóri Blaðsins, hóf að merkja sér og sínum leiðara í því blaði að blöð megi alveg hafa skoðun. Hann orðaði það svona raunar:

"Afhverju má Blaðið ekki hafa skoðun?"

Styrmir: Af því að blöð hafa ekki skoðanir frekar en sjónvörp eða útvörp og enginn nennir að standa í skoðanaskiptum við blöð. Það er eins og að rífast við ljósastaur.

Á meðan held ég því fram að Jonni III skrifi Reykjavíkurbréfið. Hawk 11 Staksteina og Blackbird leiðarann.

Sjáið bara hversu margir nenna að leggja orð í belg vegna þessara skrifa á bloggi Morgunblaðsins hér.

Er það ekki umhugsunarefni fyrir Morgunblaðið hversu fáir kjósa að tala við það?

Gerði hér örlitla breytingu eftir að ég áttaði mig á því að Ólafur Stephensen er aðstoðarritstjóri en ekki fréttastjóri; fréttaskýringuna skrifaði hann í laugardagsblaðið en ekki sunnudagsblaðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður  Málefnin rúla náttúrulega

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.3.2007 kl. 18:47

2 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Nafnlausir dálkar í blöðum eru hvimleiðir. Að ég nú ekki tali um þá sem notaðír eru til þess að atyrða nafngreinda einstaklinga eða dylgja um þá. Því  miður á þetta við Reykjavíkurbréf, Staksteina og reyndar fleiri dálka í Mogga. Stundum er þessu beitt til þess að sinna pólitískum og persónulegum áhugamálum ritstjórans. Ég held að þetta séu leifar af kalda stríðinu og sennilega er ritstjórinn það líka. Það er kannski ekki tilviljun að lestur á Mogga minnkar.

Sigurður G. Tómasson, 27.3.2007 kl. 20:52

3 identicon

Íslendingum hefur lengst af verið sama um einstaklinginn en hafa verið nokkuð útbólgnir af því að vera hluti af stoltri heild. Eirkur Bergmann tekur þetta stef upp í nýju bókinni. Þjóðfrelsisbaráttan var baráttan fyrir hjörðina - ekki einstaklingana. Virðing fyrir borgaralegum réttindum er óvíða minni í vestrænum samfélögum en hér. Þó hefur orðið viðhorfsbreyting á síðari árum - sumir hafa  að vísu dagað uppi í gamla tímanum.

Það er spurning hvort þessi íhaldasama afstaða Mogga sé stef í þessu forna lagi. Að mönnum finnist þar á bæ að blaðið sé annað og meira en summa þeirra einstaklinga sem starfa þar. Stóra summan undir forystu "Goðans" geti - og eigi -  að hafa skoðun, sem hafi meiri vikt og vægi en samanlagður andlegur kílóafjöldi starfsmanna. Það er meira að segja rétt nýverið að menn fóru að merkja blaðamönnum fréttir og greinar þar á bæ.

Forvitnilegt ef þetta er raunin og Mbl sé vígi hjarðsýnar sem líkast til er andstæð einstaklingshyggju. Nuggast nærri Sovéskri heildarhyggju og foringjadýrkun.  En þetta er nú bara pæling - með fyllstu virðingu fyrir ágætum kollegum okkar þar á bóli.

Annars er áhugaverð hugmynd hjá þér að gera ekki stóran greinarmun á nafnlausum dálkaskrifum og (ó)málefna-innleggjunum, rituðum undir misgáfulegum dulnefnum. Ég er að mestu hættu að fara inná þann spjallvef en hér áður gat maður stundum dundað sér við að geta sér til (- að ég tel nokkuð rétt -)  um höfunda útfrá t.d. orðfæri og persónubundnum innsláttavillum. Gaf manni fróðlega innsýn í huga manna sem maður taldi sig kannast við.

Kristinn Hrafnsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband